140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir prýðisræðu og góða yfirferð yfir málið. Það hefur greinilega verið unnið vel í nefndinni. Það er gott að allir hafa tekið mjög virkan þátt í því. Ég sit ekki í atvinnuveganefnd en ég hef hlustað á ræðurnar um þetta mál sem er að mínu mati eitt mikilvægasta mál vetrarins, annað af tveimur.

Í fyrsta lagi, telur hv. þingmaður rétt að við ræðum þetta mál áður en við erum búin að sjá hver niðurstaðan í fiskveiðistjórnarmálinu verður, sem verður væntanlega á dagskrá einhvern tímann í næstu viku þegar og ef hv. atvinnuveganefnd klárar það. Finnst hv. þingmanni rökrétt að ræða um veiðigjaldið þegar menn sjá ekki fyrir sér umhverfið sem það mun vera í til lengri eða skemmri tíma?

Í öðru lagi, eins ég sagði áðan hef ég fylgst með umræðunni og andsvörum, ég hef fylgst með því leikriti sem sett var upp af hálfu samfylkingarþingmanna, meðal annars hv. þm. Helga Hjörvar sem sagði að hann ætlaði að sætta sig við þessa lækkun. Ég hafði það á tilfinningunni að fyrst þegar málið var sett fram hafi menn sett veiðigjaldið nógu hátt til þess að geta síðan sagt: Já, við komum til móts við athugasemdir. Er þetta rétt tilfinning hjá mér? Var þá í rauninni ekki um raunverulegt samráð að ræða við menn, hvorki við þingmenn né aðila í greininni? Átti sér stað raunverulegt samráð, sem við í stjórnarandstöðunni, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, höfum verið að kalla eftir, á meðan á vinnu nefndarinnar stóð?