140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst nefndarmaður, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, draga fram þá sýndarmennsku sem átt hefur sér stað allt frá því að farið var að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið fyrir þremur árum þegar ríkisstjórnin lagði af stað í þá vegferð og setti á fót svonefnda sáttanefnd. Þar kom niðurstaða sem ég sé að hv. þingmaður vitnar í í nefndaráliti sínu. Ekki var farið eftir því nefndaráliti af því að það hentaði ekki stjórnarflokkunum. Þá var farið af stað í enn einn leiðangurinn sem hefur að mínu mati ekkert haft annað í för með sér en vonda niðurstöðu án samráðs við hagsmunaaðila eða stjórnmálaflokka á þinginu sem hafa margoft rétt fram sáttarhönd til að reyna að ná samhljóm í málinu. Það er nefnilega ákveðinn samhljómur fyrir hendi. Ég hef greint samhljóm meðal allra stjórnmálaflokkanna varðandi veiðigjaldið. Við sjálfstæðismenn höfum sagt: Já, við erum reiðubúin til að semja. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn komu á veiðigjaldinu á sínum tíma með það í huga að hafa það hóflegt, að greitt yrði ákveðið gjald af auðlindinni en það mætti ekki vera það íþyngjandi fyrir sjávarútveginn að hann hætti að fjárfesta, hætti að hagræða í greininni og skila þar með að mínu mati best rekna sjávarútvegi í heimi, að minnsta kosti þeim eina sem ekki er ríkisstyrktur.

Ég ætla ekki að beina spurningu til hv. þingmanns en ég tek undir það sem hann sagði og niðurstöðu hans. Það er skynsamlegra að reyna að leita sátta og vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Ég er reyndar á því að það eigi að vísa báðum þessum málum til ríkisstjórnarinnar í sáttafarveg. Ég held að það sé hægt. Ég held að það sé hægt til dæmis ef hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni eru viðstaddir og hlusta á þær ræður sem hér eru fluttar og heyra að það er hægt að ná samhljóm í málinu ef menn leggja sig fram um það (Forseti hringir.) og reyna að ná þeirri sátt sem þeir eru alltaf að tala um.