140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að finna þetta á þessum blöðum hjá mér, mig vantar tvö blöð.

(Forseti (UBK): Forseti vekur athygli á að hv. þingmanni er ekki heimilt að fara úr ræðustól meðan á ræðu stendur.)

Ég biðst velvirðingar, virðulegi forseti, það vantaði eitt blaðið hjá mér.

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni einhverjar lélegustu tillögur sem fram hafa komið í málum á Alþingi og þá ekki eingöngu í málefnum sjávarútvegs, heldur í mjög víðtækum skilningi. Þær eru þjóðhagslega stórhættulegar og vekja auðvitað upp spurningar um þá ábyrgð sem stjórnmálamenn bera, sérstaklega þeir sem leggja fram frumvörp á þinginu. Sú ábyrgð er mikil og gerir auðvitað kröfur um vönduð vinnubrögð og vandaða umfjöllun eins og við höfum ítrekað verið minnt á. Við undirbúning á þessu máli hefur það ekki verið viðhaft.

Í svokallaðri sáttanefnd var komist að niðurstöðu um leiðir sem hefðu getað leitt okkur til miklu betri niðurstöðu, þar gafst einstakt tækifæri til að koma á langtímasátt, víðtækri sátt og taka sjávarútvegsmálin úr þeim ágreiningsfarvegi sem þau hafa verið í. Að halda því fram, eins og sumir þingmenn stjórnarliðsins hafa gert, að hér sé verið að fara sáttaleið er auðvitað alrangt og ekkert annað en útúrsnúningur. Það vita þeir sem störfuðu í sáttanefndinni og komust að þeirri niðurstöðu sem þar var komist að í ákveðnum sáttahug allra hagsmunaaðila sem voru við það borð.

Raunverulegur sáttavilji ríkisstjórnarinnar í þessu mikilvæga máli hefur líka oft endurspeglast í ummælum forsætisráðherra sem hefur með uppnefnum og dónaskap ítrekað vegið að fólki í atvinnulífinu. Í febrúar síðastliðnum hélt hún mikla ræðu á flokksþingi Samfylkingarinnar þar sem hún dró fram kunnugleg slagorð eins og „íhaldsöfl“, „forréttindastéttir“, „valdaklíka íhaldsafla og sægreifa“, „hagsmunaöfl“, „gíslataka“, „grímulaus valdaklíka“, „óskammfeilnar þvingunaraðgerðir“. Þetta er orðaval hæstv. forsætisráðherra um það fólk sem starfar í sjávarútvegi. Látum vera að hún noti slíkan orðaflaum um pólitíska andstæðinga sína í hita leiksins, en þarna talar hún til fólks um allt land sem rekur milli 400 og 500 sjávarútvegs- og útgerðarfyrirtæki og hefur í sjálfu sér ekkert gert annað af sér en að spila eftir leikreglum sem forsætisráðherra átti sjálf stóran þátt í að setja. Er líklegt að þetta varði leið til sátta, virðulegi forseti? Er fólk sem hefur þessar skoðanir og setur þær svona fram líklegt til að ná þeirri víðtæku sátt sem verður að ná í þessu mikilvæga máli? Við ættum í raun að hampa því fólki sem starfar í íslenskum sjávarútvegi. Við ættum að leggjast á eitt um að skapa reglur í sátt, reglur sem mundu tryggja áfram alþjóðlegt forustuhlutverk íslensks sjávarútvegs, þann gríðarlega árangur sem hefur náðst og stuðlað að auknum skattgreiðslum til íslensks samfélags, hærri launagreiðslum í greininni og áhugaverðari vinnustöðum. Það bíður greinilega annarra að leysa þennan ágreining á vitrænum nótum. Við munum auðvitað ekki láta þessa ríkisstjórn til lengri tíma komast upp með að eyðileggja íslenska fiskveiðistjórnarkerfið sem talið er það besta í heimi. Víða þar sem verið er að endurskipuleggja fiskveiðistjórn er horft til okkar. Skaðinn getur orðið tímabundinn, við skulum ekki gera lítið úr því, það mun ráðast í næstu kosningum hvernig framhaldið verður.

Pólitíkin hefur verið ábyrgðarlaus, sérstaklega vil ég segja að þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið mjög ábyrgðarlausir í málflutningi sínum, samanber orð hæstv. forsætisráðherra sem ég vitnaði til. Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra hefur mjög takmarkaðan skilning á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu og íslenskum sjávarútvegi. Það getur ekki verið að einhver tali svona til svo mikilvægrar greinar nema af þekkingarleysi, og hjá öðrum sem hafa tjáð sig um þessi mál er umræðan villandi, stundum viljandi að maður heldur, en oft stafar það af þekkingarleysi. Við getum rifjað upp umræðuna um leigugjald fyrir makríl. Ef það hefði verið sett á íslenska útgerð í fyrra hefði það getað skilað, samkvæmt fullyrðingum ákveðinna þingmanna innan Samfylkingarinnar, á annan tug milljarða. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar komu fram með þetta, að tekjur af því að leigja út makrílkvótann hefðu getað skilað þjóðarbúinu þessu. Heildarútflutningsverðmæti alls makrílkvótans var 25 milljarðar. Það sjá því allir hugsandi menn að þetta er dæmi sem gengur auðvitað ekki upp. Þá eru eftir 15 milljarðar til að gera út, veiða og vinna. Þetta er auðvitað fráleitur málflutningur en alveg dæmigerður fyrir þennan villandi málflutning sem óvíst er hvort er viljandi eða af þekkingarleysi.

Hvernig varð fiskveiðistjórnarkerfið íslenska til? Af hverju fórum við þessa leið? Það er ágætt að rifja það upp. Það var vegna þess að við vorum að ofveiða fiskstofnana okkar. Það blasti við okkur gríðarlegt áfall og hrun íslensks, ekkert annað. Við fórum að takmarka sókn þeirra sem þá voru starfandi í greininni og skertum aflaheimildir þeirra heilmikið, um ein 20% á fyrsta ári frá því sem þeir höfðu að meðaltali veitt þrjú árin þar á undan. Svo er alltaf talað um gjafakvóta. Það var í raun verið að skerða heimildir þessa fólks til að stunda þá vinnu sem það hafði stundað áratugum saman.

Það var farið í mikla endurskipulagningu þar sem við fórum í gegnum framsalið, (REÁ: Hvar eru stjórnarliðar?) úreltum bátaflotann okkar, fækkuðum skipum á nokkrum árum úr rúmlega 2.500 fiskiskipum í 1.100 skip, allt gert á kostnað útgerðarinnar. Mikil tæknivæðing varð. Allt þetta gerðum við. Og nú erum við farin að sjá árangur erfiðisins. Markmiðin sem við settum okkur hafa með öðrum orðum gengið upp. Við erum búin að fara í gegnum þetta langa aðlögunarferli. Það var fyrirsjáanlegt að þetta mundi hafa mikil áhrif á sveitarfélög, byggðaleg áhrif. Það var fyrirsjáanlegt. Markmiðið var að fækka störfum í sjávarútvegi. En nú vilja allir koma og borða kökuna. Nú þegar uppskeran er að koma í hús vilja fleiri borða kökuna. Þá á að gera það ofsafengið og helst að ýta þeim til hliðar sem bökuðu hana, ýta þeim út á kaldan klakann þannig að hinir geti verið einir um hituna.

Atvinnuveganefnd átti áhugaverðan fund með sjávarútvegsnefnd Evrópusambandsins, draumalandsins í hugum samfylkingarmanna, fyrir tveimur, þremur vikum síðan. Þeir hlustuðu með öfund á okkur þegar við vorum að skýra út fyrir þeim um hvað deilurnar stæðu hér. Þær stæðu um það hversu mikið við gætum látið greinina borga í skatta. Á sama tíma standa deilurnar hjá þeim um það hversu mikið þeir eiga að greiða inn í greinina, hversu mikið þeir eiga að borga með greininni, sem nemur hundruðum milljarða á ári í félagsleg framlög. Þeir halda úti allt of stórum veiðiflota og eru í raun á sömu slóðum og við vorum upp úr 1980 þegar við tókum ákvörðun um að stíga það farsæla skref sem ég hef rakið. Það var í sjálfu sér mjög ánægjulegt. En að horfa síðan upp á það að það skuli vera stjórnvöld í þessu landi sem eru tilbúin til að fara að stíga mörg ár aftur í tímann, er fáránlegt. Það er í raun ekki hægt að trúa því að staðreyndin sé sú, enda held ég að fæstir hafi trúað því þegar þessi frumvörp komu fram að það væri hugmynd einhverra að þau yrðu að veruleika.

Það var auðvitað mjög rangt af okkur að taka þetta mál til umræðu í dag, virðulegi forseti. Ég gerði athugasemdir við það í morgun. Við erum með annað frumvarp þessu tengt í þinginu — þessi mál hafa verið nefnd tvíburafrumvörp — og það verður að vera komin niðurstaða í það áður en við getum gert okkur fyllilega grein fyrir afleiðingum frumvarpsins um veiðiskattinn. Áhrif þess eru mjög óljós á meðan liggur ekki fyrir hvernig á að gefa í fiskveiðistjórninni sjálfri, úr hverju menn hafa að moða til að standa undir háu veiðigjaldi. Það hefði verið miklu eðlilegra að byrja á hinu málinu, klára það og ákvarða síðan skattinn út frá afkomumöguleikum greinarinnar og fyrirtækjanna sem í henni starfa, en staðan er auðvitað mjög misjöfn hjá þeim.

Það liggur mikið á. Það skín í gegn að fjárþörfin er mikil hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú á að bjarga einhverju með ofurskattlagningu á sjávarútveg og blóðmjólka hann vegna þess að það vantar í kassann. Þetta kemur á sama tíma og við hlustum á það í eldhúsdagsumræðum að það sé orðinn jöfnuður í ríkisfjármálum. Allt sé hér á svo góðri leið að búið sé að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Auðvitað veit þetta fólk betur. Auðvitað veit það að útlit er fyrir að ríkissjóður verði rekinn með tugmilljarða halla á þessu ári. Við vitum líka að sú fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin leggur nú fram er innihaldslaust plagg. Hún á meðal annars að byggja á því að ofurskattleggja sjávarútveginn. Hún á sem sagt að draga úr fjárfestingu í grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, fjárfestingu sem allir eru sammála um að sé orðin mjög brýn, það er orðin uppsöfnuð fjárfestingarþörf í greininni, bæði í flota og vinnslu, annarri tækni og viðhaldi. Nei, þá á að taka peningana þaðan og grænka fyrirtækin og fara í alls konar verkefni sem ég ætla svo sem ekki að gera lítið úr, en margur hefði talið að væru ekki í forgangi við þessar aðstæður.

Höfuðið er nú eiginlega bitið af skömminni með þessari fjárfestingaráætlun. Þegar maður les þetta plagg kemur í ljós að því er ætlað að reyna að laða fólk til að styðja þau frumvörp sem við erum að fjalla um í sjávarútvegsmálum. Þarna eru dúsur fyrir hina ýmsu samfélagshópa og atvinnugreinar og dulbúnar hótanir til fólks á landsbyggðinni og í þessum greinum um að ekkert geti orðið af þeim framlögum sem það á að fá nema þau verði samþykkt. Þetta eru ótrúleg vinnubrögð. Svona á ekki að vinna í pólitík. Hún er á ótrúlega lágu plani þegar unnið er svona.

Vinnubrögð við undirbúning þessara frumvarpa er auðvitað mjög ámælisverð. Það er ótrúlegt, jafnilla og til tókst á síðasta ári hjá hæstv. ríkisstjórn þegar reynt var að koma fram með frumvörp um þessi sömu mál, að menn skuli falla í þann fúla pytt að endurtaka leikinn, að menn hafi ekkert lært. Maður spyr sig: Hver getur ástæðan verið fyrir því að þetta er staðan? Hún liggur reyndar í augum uppi. Við sjáum bara óeininguna á milli ríkisstjórnarflokkanna. Þar eru svo skiptar skoðanir að menn verða að fara í öfgar til að ná þeim hóp saman. Og ekki bara í eina átt, heldur eru öfgar í allar áttir. Það blasir við að svona er staðan.

Svo er það lýðskrumið hjá þessu fólki. Það er komið í fjölmiðla og gefnar hástemmdar yfirlýsingar um að nú eigi ekki að gera neitt í ósátt við greinina. Það þurfi að leita sátta og ekki standi til að skaða rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs. Svo endurtekur sagan sig í vinnubrögðum hér í þinginu.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason segir í viðtali á mbl.is núna, sem ég var að lesa rétt áðan, að fullt tillit hafi verið tekið til þeirra umsagna sem bárust. Svo klykkir hann reyndar út með þessum orðum í lok viðtalsins, „tillit til þess sem sanngjarnt er að gera.“ Það er nefnilega málið.

Hér hafa sveitarfélög, hagsmunafélög, samtök launafólks, samtök útgerðarmanna, endurskoðunarskrifstofur, háskólasamfélagið og áhugamenn um þennan málaflokk lagt á sig mikla vinnu og kostnaðarsama og kostnaðarsamar ferðir til höfuðborgarinnar til að koma á fund nefndarinnar. Það vantaði ekki fleðulætin þegar tekið var á móti þeim og leikrænu tilburðina: Það er gaman að sjá ykkur, þakka ykkur fyrir að koma, við erum hér til að hlusta á ykkur, að sjálfsögðu verður tekið tillit til athugasemda ykkar. Hver er uppskeran hjá öllum þessum stóra hópi, tugum umsagnaraðila og tugum aðila sem komu á fund nefndarinnar? Hún er engin. Í stórum dráttum hefur ekkert tillit verið tekið til þess sem þetta fólk hafði að segja. Lýðskrumið birtist okkur svo ítrekað í verkum hv. stjórnarliða.

Áhrif þessara frumvarpa eru slík að þau munu leiða til gjaldþrota nokkuð stórs hluta íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Það hefur ekki breyst þrátt fyrir þær breytingartillögur sem komnar eru fram við frumvörpin. Við í nefndinni fengum sérfræðinga til að fjalla um þessi mál, hlutlausa einstaklinga úr háskólasamfélaginu, menn sem hafa mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði. Niðurstaða þeirra var alveg skýr. Veiðigjaldið er enn allt of hátt, fjöldamörg fyrirtæki munu ekki standa undir því, sérstaklega ef frumvarpið um stjórn fiskveiða verður óbreytt. Þegar breytingartillögur stjórnarflokkanna komu fram í því máli sáum við að það var nánast óbreytt. Þannig að í upphafi voru umsagnir þeirra sérfræðinga sem nefndin fékk til að vinna fyrir sig á þá leið að álit þeirri stæði áfram, þeir þyrftu ekkert að breyta því, frumvarpið væri enn þá stórhættulegt íslenskum sjávarútvegi.

Því er haldið fram að veiðigjaldið hafi verið lækkað í meðförum nefndarinnar. Það er í raun rangt. Hv. þm. Helgi Hjörvar hélt því fram áðan að lækkunin næmi um 6–7 milljörðum. En það sem gerðist var að reiknireglan var leiðrétt því að hún var kolröng. Grundvöllur frumvarpanna sem lögð voru fram var kolrangur. Sérfræðingarnir sem skoðuðu þetta fyrir nefndina sáu það strax og þeir fóru í málið, að með þessari reiknireglu gat þetta ekki gengið upp. Því unnu þeir í raun út frá markmiðunum í greinargerð með frumvarpinu, af því að þar voru upphæðirnar sem ríkisstjórnin vildi ná með sköttunum. Samkvæmt reiknireglunni hefðu þeir annars orðið enn þá hærri. Þar með hefur veiðigjaldið í raun ekkert lækkað. Frumvörpin eru óbreytt. Það sýnir kannski bara viljann í verki. Svo er reynt að halda allt öðru fram við þessar aðstæður.

Ríkisstjórnin stærir sig oft af því hversu vel er tekið eftir því á erlendum vettvangi hvað hún er að gera og ekki sé eins vel tekið eftir heima á Íslandi. Útlendingar séu uppfullir af því hvað gangi vel hérna núna. Það gekk svo langt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var víst boðið að taka að sér að reisa Grikkland úr rústum, ekkert minna en það.

Nýlega hafa birst greinar um fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda í sjávarútvegsmálum. Í The Economist segir að íslenska fiskveiðistjórnin sé meðal þeirra bestu í heimi. Svo virðist sem flestir aðrir en ríkisstjórn Íslands sjái kosti íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Þykir hún til fyrirmyndar víða í heiminum, bæði vegna hagkvæmni veiðanna og ekki síður vegna takmörkunar á sókn í fiskstofna.

Fyrir stuttu birtist grein í vefútgáfu bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes. Þar er spurt hvers vegna Íslendingar ætli að eyðileggja besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi með fyrirliggjandi tillögum að lögum um stjórn fiskveiða. Skipan sjávarútvegsmála á Íslandi þykir til fyrirmyndar á alþjóðavettvangi. Þrátt fyrir það heldur ríkisstjórnin ótrauð áfram í þá átt að gera fiskveiðistjórn á Íslandi óhagkvæmari á sama tíma og samkeppni á erlendum mörkuðum fer vaxandi. Hvers vegna ætlar Ísland að eyðileggja besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi?

Í vefútgáfu bandaríska tímaritsins segir að nú sé útlit fyrir að Íslendingar ætli að taka þann þátt út úr fiskveiðistjórnarkerfi sínu sem gerir að verkum að það virkar, möguleikann á því að selja og leigja aflaheimildir. Það segir einnig að mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenskt efnahagslíf sé gríðarlega mikið, og er farið yfir það í greininni. Nefnt er að Ísland sé eitt fárra landa sem hafi tekist að fást við og leysa alvarlegt umhverfisvandamál sem fylgi fiskveiðum, en það eigi að fara að eyðileggja það kerfi sem skilar þessum árangri.

Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að fara að hlusta í útlöndum, því ekki hlustar hún á landsmenn, ekki hlustar hún á stjórnarandstöðuna í þessum málum.

90% aflaheimilda eru á landsbyggðinni. Þar verður höggið mest. Þar er óvissan mest. Þóroddur Bjarnason hefur komið fyrir nefndina í þessu ferli og farið yfir hvað sé alvarlegast og erfiðast í íslenskum sjávarútvegi gagnvart landsbyggðinni. Það er óvissan um framtíðina. Hann hefur lagt fram áhugaverðar hugmyndir um það hvernig megi draga úr óvissunni og skapa meiri stöðugleika til framtíðar. Það eru tillögur sem er mjög áhugavert að skoða enn frekar, sérstaklega í ljósi þess að það er óvissan sem dregur úr fjárfestingum, dregur kjarkinn úr fjölskyldum, dregur kjarkinn úr fyrirtækjum til að fjárfesta á þessum stöðum.

Það er ekkert skrýtið að óvissa ríki. Við höfum farið í gegnum mikið breytingatímabil í íslenskum sjávarútvegi þar sem störfum hefur fækkað stórkostlega, og það hefur haft mikil byggðaleg áhrif. Við búum enn við það að aflaheimildir geta horfið frá einum stað til annars, þrátt fyrir að 90% þeirra eða fast að því séu á landsbyggðinni. Það getur komið mjög illa við á einum stað á sama tíma og það lyftir öðrum.

Hugmyndir um skilyrta úthlutun á hluta kvótans eru mjög áhugaverðar, en ríkisstjórninni liggur svo á að ekki er tími fyrir þá faglegu vinnu sem þyrfti að fara fram í einhverjar vikur til að skoða þær og gera breytingar. Ríkisstjórnin hefur haft þrjú ár, þrjú ár hafa farið forgörðum í þessu máli, þrjú ár hinna glötuðu tækifæra til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Það kvað svo rammt að því að þeir sérfræðingar sem við fengum til að vinna þessa vinnu fyrir okkur, Daði Már Kristófersson og Stefán Gunnlaugsson, höfðu samband við formann nefndarinnar í byrjun verksins og spurðu hvort það væri virkilega ástæða til að halda áfram, hvort menn vildu ekki bara taka frumvörpin til baka og endurvinna þau. Það var mat þeirra að tilgangslaust væri að meta áhrif þeirra í óbreyttri mynd. Ekkert fyrirtæki væri líklegt til að standa undir fyrirhuguðum álögum og þetta mundi leiða til miklu hærra veiðigjalds en í raun var stefnt að.

Við getum auðvitað öll gert mistök og gerum þau. En það er gríðarlega alvarlegt mál að þegar ríkisstjórn Íslands kemur fram með mál sem skiptir svo miklu og snertir grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag, skuli þeir sérfræðingar sem fengnir eru af Alþingi til að fara yfir málið, strax á fyrstu metrunum, ekki trúa sínum eigin augum. Þeir orðuðu það þannig sjálfir. Þeir sáu hvað reiknireglan í frumvarpinu var kolröng. Auðvitað er það ámælisverð vinnubrögð að menn skuli ekki hafa fengið til sín sérfræðinga til að standa betur að málum.

Við höfum fengið margar umsagnir um þessi mál frá ýmsum aðilum. Í raun er gagnrýnin öll á einn veg, það eru allir sammála. Það er ekki eins og þeir sem gagnrýna þau séu bara öðrum megin við borðið. Það er dálítið fróðlegt að rýna í skoðanir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á þessum málum þegar hann tjáði sig um þau fyrir nokkrum árum síðan. Hann segir í ræðu sem hann flutti á sínum tíma þegar hugmyndir voru uppi um að koma á veiðigjaldi, sem síðar var komið á, hóflegu veiðigjaldi, að það sé arfavitlaus hugmynd. Hann leggur í raun fram boðorðin tíu, tíu röksemdir sínar í þessu máli. Hann segir að álagning veiðigjalds yrði áfall fyrir landsbyggðina. Svo ég vitni, með leyfi forseta, í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Álagning veiðigjalds er einhvers konar brúttóskattur eða veltuskattur. Við höfum verið að hverfa frá því að leggja á veltuskatta. Sem dæmi má nefna að við hentum út aðstöðugjaldinu, meðal annars vegna þess að veltuskattar eru ekki tengdir afkomu og eru þar af leiðandi ekki rökrænir skattar.“

Varðandi byggðadreifingu, segir hæstv. ráðherra:

„Skatturinn er óréttlátur með tilliti til byggðanna í landinu. Þar sem útgerð vegur þungt kæmi þessi nýi skattur harkalega niður, en í öðrum þéttbýliskjörnum yrðu menn hans jafnvel ekkert varir.“

Hann segir einnig að hér sé verið að sérskatta eina atvinnugrein. Ég vek athygli á því að hann talar um skatta. Hann segir síðan, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess að fjölmargar atvinnugreinar nýta með einum eða öðrum hætti sameignir þjóðarinnar án þess að því fylgi sérstök skattlagning, er útilokað að leggja þennan skatt á sjávarútveg eingöngu. Í því fælist mikil mismunun milli atvinnugreina. Það er ekki hægt að rökstyðja með sanngirni að nýting af þessu tagi kalli á skattheimtu í sjávarútvegi, einum atvinnugreina.“

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heldur áfram og segir:

„Það virðast margir hafa gleymt því að sjávarútvegurinn skuldar […] sjávarútvegurinn hefur þurft að fjárfesta, en á því sviði var hann orðinn mjög sveltur og er nærtækast að líta til aldurs flotans. […] Með veiðigjaldi mundu skuldir greiðast hægar niður en ella eða jafnvel ekki neitt.“

Ég ætla að halda áfram að vitna í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eins og hann talaði fyrir örfáum árum, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegurinn keppir við ríkisstyrkta grein í nálægum löndum. Sjávarútvegur á Íslandi hefur algjöra sérstöðu að þessu leyti í Norðurálfu, ásamt e.t.v. Færeyjum. Hann verður að standa algerlega undir sjálfum sér og auk þess lífskjörum heillar þjóðar. Þetta þarf hann að gera í samkeppni við ríkisstyrki í nálægum löndum og að ætla honum auk þess að standa undir sérstöku veiðigjaldi, býr greininni fantaleg samkeppnisskilyrði vægast sagt.“

Þetta segir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég vek athygli á því. Ég er að lesa fullyrðingar hans og skoðanir hans á veiðigjaldinu fyrir stuttu síðan:

„Sjávarútvegurinn hefur mikla þörf fyrir að geta fjárfest á komandi árum. Það þarf að endurnýja flotann sem er orðinn of gamall, það þarf að endurnýja og tæknivæða vinnsluna […] auka þekkinguna inni í fyrirtækjunum og ráða þangað háskólamenntað fólk. Allt þetta þarf að gerast ef sjávarútvegurinn á að þróast með þeim hætti sem við viljum sjá hann þróast í framtíðinni …“

Hann segir að þetta sé áfall fyrir landsbyggðina, og heldur áfram:

„Öflug sjávarútvegsfyrirtæki með góða afkomu til fjárfestinga eru helsta, það jaðrar því miður við að maður verði að segja eina, von landsbyggðarinnar. Þessi liður einn nægir mér til að vera algjörlega andvígur veiðigjaldi.“

Þetta sagði hæstv. ráðherra. Hann segir hér í áttundu röksemd sinni um samþjöppun og fækkun eininga:

„Veiðigjald mundi líklega leiða til samþjöppunar og fækkunar eininga; möguleikar smáfyrirtækja og einyrkja yrðu minni. Fjölbreytni mundi tapast. […] Þó mikilvægt sé að eiga stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki verðum við líka að eiga smáfyrirtæki og halda fjölbreytni.“

Hann talar um að fælingaráhrif á fjárfesta verði mikil við þessar aðstæður. Ekki verði hægt að laða að fjármagn, sjávarútvegurinn verði síðri fjárfestingarkostur og minni líkur á arði. Síðan segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Það vita það allir sem eitthvað vita, að sú hætta vakir í öllum málum af þessu tagi að þegar einu sinni er komið á gjald þá vill það hækka. Ég þekki engan skattstofn á byggðu bóli, hvorki á norður- né suðurhveli jarðar, sem ekki hefur haft tilhneigingu til að hækka þegar hann er einu sinni kominn á.“

Þetta sagði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um veiðigjald.

Ég get þó glatt hann og aðra með því að það verður okkar fyrsta verk að vinda ofan af þessari vitleysu og mörgum öðrum sem þessi ríkisstjórn er að gera, komist hún til framkvæmda sem ég vil nú ekki trúa. Ég vil bara ekki trúa því að ábyrgðarleysi hæstv. ríkisstjórnar sé svo mikið að þetta gangi fram.

Og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra klykkir út í fyrrnefndri ræðu sinni um hugmyndir sínar um veiðigjald, með því að segja:

„Það er að mínu mati til margar miklu betri leiðir til þess að leysa þau vandamál sem stuðningsmenn veiðigjalds telja að eigi að leysa með veiðigjaldi. Því þá að fara út í þessi ósköp?“

Ég ítreka enn og aftur að ég var að vitna hér í orð hæstv. ráðherra.

Landsbankinn skilaði okkur umsögn, og reyndar skiluðu allar fjármálastofnanir atvinnuveganefnd umsögn í þessu máli og komu á fund nefndarinnar til að fara yfir rökstuðning sinn. Landsbankinn er auðvitað veigamestur á þessum vettvangi þar sem langflest sjávarútvegsfyrirtæki eru þar í viðskiptum og hann er okkur mikilvægari sem þjóð að því leyti að hann er okkar eign, að stórum hluta.

Það var niðurstaða Landsbankans og annarra fjármálafyrirtækja sem komu fyrir nefndina að þetta mundi hafa mikil áhrif á verðmæti fyrirtækjanna og getu þeirra til að standa við skuldbindingar sínar. Landsbankinn metur það þannig, virðulegi forseti, að af þeim 124 fyrirtækjum sem voru í úrtaki í könnun sem þeir framkvæmdu meðal sinna viðskiptavina úr sjávarútvegi, væru 75 fyrirtæki ekki talin geta staðið við núverandi greiðsluskuldbindingar, yrði frumvarpið um veiðigjald samþykkt. (Gripið fram í: Það er búið að breyta.) Þá minni ég á, af því hæstv. utanríkisráðherra er nýkomin í salinn, að þær breytingar standast engin rök.

Ég fór yfir það áðan, meðan hæstv. ráðherra var frammi, að hinni arfavitlausu reiknireglu sem lögð var til grundvallar var breytt. En niðurstaðan er eftir sem áður sú að ríkisstjórnin er að leggja á þá skatta sem hún ætlaði samkvæmt markmiðum frumvarpsins að ná. Þetta var staðfest í morgun þegar sérfræðingar, sem nefndin hefur fengið til að vinna fyrir sig, komu á fund nefndarinnar.

Það er því alrangt að halda því fram að eitthvert tillit hafi verið tekið til þessa og veiðigjaldið lækkað. Enda segja þessir sérfræðingar að þeir þurfi ekki að breyta skýrslu sinni eða umsögn um frumvörpin, vegna þess að þeir höfðu reiknað út frá lægri tölum. Þeir höfðu reiknað út frá þeim tölum sem komu fram í greinargerð frumvarpsins en ekki notað hina arfavitlausu reiknireglu, svo ég vitni í þeirra eigin orð.

Ég get sagt hæstv. utanríkisráðherra að orð sérfræðinganna fyrir nefndinni voru þau að þeir hefðu ekki trúað sínum eigin augum þegar þeir hófu þessa vinnu og hefðu spurt sig hvaða villu og svíma menn höfðu gengið í. Þeir hringdu í formann nefndarinnar og spurðu hvort þeir ættu nokkuð að halda áfram með þessa vinnu, hvort menn vildu ekki taka málin til baka og vinna þau betur. Þetta er staðan, hún hefur ekkert breyst. Umsögn sérfræðinganna er óbreytt, frumvörpin hafa þessi gríðarlegu áhrif.

Þannig að telji hæstv. utanríkisráðherra að út frá þeim umsögnum hafi þurft að taka þetta til endurskoðunar er best fyrir hann að taka málin heim í hérað aftur og fara að vanda vinnubrögðin vegna þess að ekkert hefur breyst.

Fulltrúar Landsbankans segja okkur að stöðugildi hjá þeim 74 fyrirtækjum sem færu illa, séu um 4.000. Þýðir það að störfin munu tapast? (Gripið fram í.) Nei, störfin munu ekki tapast. Það er rétt, en þau munu flytjast til vegna þess að fyrirtækin munu auðvitað flytjast til. Og það mun hafa byggðaleg áhrif sem við sækjumst ekki eftir.

Þeir komast að því að áhrifin yrðu alvarlegust á bolfiskútgerð og því næst á bolfiskútgerð og vinnslu. Áhrifin yrðu alvarlegust á Reykjanesi, Vesturlandi, Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í: Þá er ekki mikið eftir.) Það eru eftir staðir sem standa kannski ekki eins illa og margir af þessum stöðum. Við vitum hvernig ástandið er á Vestfjörðum. Við vitum hvernig ástandið er á Reykjanesi og atvinnuleysið þar. Þetta eru þau svæði sem færu verst út úr þessu, að mati bankans.

Til viðbótar yrði gríðarlegt tjón vegna virðisrýrnunar bankans. Það þyrfti að afskrifa um 31 milljarð af skuldum sjávarútvegsfyrirtækja, að mati þeirra, sem þýðir auðvitað að verðmæti bankans drægist verulega saman. Það yrði stórtap fyrir ríkissjóð og fyrir íslenska þjóð. Til viðbótar þessu er algjör óvissa í því máli sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði hæstv. fjármálaráðherra út í í fyrirspurnatíma í dag, en þar spurði hann um skilyrt skuldabréf upp á 92 milljarða sem er til milli gamla og nýja bankans, þar sem gamli bankinn heldur á hlutabréfum til trygginga í nýja bankanum ef hann fær þá skuld ekki greidda að fullu.

Bak við þetta 92 milljarða kr. bréf eru kröfur á sjávarútvegsfyrirtæki. Það er alveg ljóst. Ég hef spurst fyrir um það hversu mikil áhrif þetta getur haft. Það er hægt að gagnrýna hæstv. fjármálaráðherra harkalega fyrir að ekki sé búið að skoða það. En það er eftir öðrum vinnubrögðum, virðulegi forseti, í þessu máli og mörgum öðrum. Málin eru unnin flausturslega, með yfirgangi og (Forseti hringir.) og farið fram af tillitsleysi.

Ég á eftir að ræða margt í þessu máli, virðulegi forseti. Ég (Forseti hringir.) komst miklu skemur en ég ætlaði mér, þannig að ég bið um að vera settur aftur á mælendaskrá.