140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Förum aðeins yfir málið. Hverjir eru viðstaddir hér úr atvinnuveganefnd Alþingis? Er formaður atvinnuveganefndar staddur hér? (Gripið fram í: Nei.) Nei. Er varaformaður atvinnuveganefndar staddur hér? Nei. Er 2. varaformaður atvinnuveganefndar staddur hér? Nei. (Gripið fram í: Utanríkisráðherra er hér.) Eru aðrir þingmenn úr stjórnarliðinu í atvinnuveganefnd staddir hér? Nei. Hugsunin er greinilega sú að láta þessa umræðu fara fram án þess að þeir hv. þingmenn láti svo lítið sem sjá sig hér í þingsalnum.

Þetta er þvílík ósvífni, öll þessi umræða. Ekki er nóg með að komið sé með þingskjal um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni sem var hvorki fugl né fiskur, var eins og blaut tuska framan í íslenska sjómenn, rétt undir sjómannadagshelgina, heldur er hugmyndin sú að halda umræðunni áfram inn í sjómannadagshelgina án þess að þeir láti svo lítið sem sjá sig, þessir fulltrúar úr atvinnuveganefnd. Hvar eru þeir? Eru þeir farnir heim til sín? (Forseti hringir.) Eða hvernig er þetta? Eru þeir að sniðganga þingstörfin? Eru þeir að svíkjast um í sínum þinglegu skyldum, (Forseti hringir.) við þessa mikilvægu umræðu?