140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er með ólíkindum að heyra þingmenn Sjálfstæðisflokksins væla hér eins og stungnir grísir undan því að þurfa að vinna fyrir laununum sínum þegar klukkuna (Gripið fram í.) vantar tuttugu mínútur í átta. Klukkuna vantar tuttugu mínútur í átta og þeir eru farnir að kvarta undan því að þeir geti ekki komist heim. Og út af hverju? Af því að það er sjómannadagur.

Ég er nú gamall sjómaður, eins og sumir hérna inni, og ég veit vel að hátíðahöld í tilefni sjómannadags eru fyrst og fremst á sunnudaginn. Og ef (Gripið fram í.) hv. þm. Einar K. Guðfinnsson velkist í vafa um hvað hann er lengi heim til sín til Bolungarvíkur get ég upplýst hann um það að á löglegum hraða er hann ekki meira en fimm og hálfan tíma. Ef við hættum klukkan fimm á morgun er hann samt kominn heim til sín á góðum tíma, getur hvílt sig vel og komið óþreyttur til hátíðahalda á sjómannadaginn í Bolungarvík. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég tók þátt í atkvæðagreiðslu í dag um að halda ætti áfram fundi fram á kvöld og það er nú varla komið kvöld. Ég hef áður lýst því yfir, ef það getur hjálpað hæstv. forseta, að ég tel að þessi fundur eigi að standa að minnsta kosti til klukkan fimm í nótt. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar skoðunar. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt að þeir þurfi að tala mikið (Forseti hringir.) og ég er til í að sitja hér undir því.