140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði mig líka hvernig ég gæti kallað markaðsvæðinguna og kvótakerfið einhver stærstu mistök síðari áratuga þegar þetta hefði skapað svona gríðarlega arðsaman sjávarútveg. Ég sagði ekki að markaðsvæðingin hefði verið mistök, ég sagði að einkavæðingin hefði verið mistök. Kvótakerfið skapaði mikið hagræði, það er algerlega ótvírætt. Markaðsvæðingin, eins og raunar frjáls samkeppni jafnan, skapaði líka gríðarlega auðlegð sem við njótum og getum notið í enn ríkari mæli.

Mistökin voru að blanda saman kvótakerfi og frjálsu framsali þar sem menn gátu skuldsett atvinnugreinina og farið út úr henni með gríðarlegar fjárhæðir sem þeim hafði í raun og veru nánast handahófskennt verið úthlutað og skilið sumar af byggðum landsins, sem höfðu byggt upp þessa veiðireynslu á áratugum, eftir í sárum. Það var sá galli á kvótakerfinu sem við áttum að vera löngu búin að taka á. (Gripið fram í: … skuldlaus.)