140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu. Þessi ræða, málflutningur og sjónarmið geta vel verið grundvöllur að þeirri vinnu sem ég tel að þurfi að eiga sér stað varðandi endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. En það frumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram getur engan veginn verið sá grundvöllur.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, við búum við ríkulega auðlind. Margar þjóðir búa við miklar auðlindir en vinna hins vegar mjög illa úr þeim og skapa ekki þennan arð. Það er athyglisvert að umræðan sem fram fór um auðlindamálin á níunda og tíunda áratug síðustu aldar endurspeglaði til dæmis að sjávarútvegurinn var þá að ganga í gegnum mjög miklar breytingar, meðal annars í kjölfarið á hinu frjálsa framsali.

Við vitum líka að kostnaður við þá hagræðingu sem þá fór fram var borinn af sjávarútveginum og á þeim tíma voru engar forsendur fyrir því að sjávarútvegurinn gæti greitt auðlindagjald. Ég var þess vegna á móti því á þeim tíma. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að í raun og veru stendur ekki mikill ágreiningur um þetta prinsipp. Það var leitt í jörð að mínu mati með starfi auðlindanefndarinnar sem skilaði af sér rétt í kringum síðustu aldamót.

Það sem er áhugavert í þessu sambandi er að kvótakerfið hefur leitt til þess að arðsemi í sjávarútvegi hefur aukist árlega um 0,5% núna í 30 ár, það er það sem við erum að ræða. Við vitum að sjávarútvegurinn hefur borið þessa hagræðingu og auðvitað verður hann að hafa tóm til að borga niður skuldir sínar. Þess vegna held ég að það sem hv. þingmaður sagði hér áðan skipti mjög miklu máli, við þurfum að standa vörð um arðsemina. Það er gallinn við fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem liggur fyrir að það gerir það ekki, það dregur úr arðseminni.

Menn sem hafa verið að skoða þetta, til dæmis fræðimenn, eru sammála um að ef það frumvarp er lagt upp við hliðina á þessu veiðigjaldafrumvarpi þá kollvarpar það forsendunum fyrir veiðigjaldinu. Það er það sem við sjálfstæðismenn erum að segja. Við erum að vísu ósammála, við teljum að veiðigjaldið sé of hátt (Forseti hringir.) eins og það er í þessu frumvarpi, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. (Forseti hringir.) En meginatriðið er að fiskveiðistjórnarfrumvarpið sjálft kollvarpar forsendum þess frumvarps sem við erum að ræða núna.