140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hygg þó að það gæti nokkurrar mótsagnar í fyrstu spurningunum sem hann lagði fyrir mig. Hv. þingmaður spurði: Hvað með það sem var fyrir daga kvótakerfisins? Var þá einhver auðlindarenta þegar sjávarútvegurinn skilaði engum hagnaði? Hv. þingmaður spyr í framhaldinu: Er það þá ekki útgerðin sem skapar þessa auðlindarentu? Af þessari ábendingu að dæma er ekki svo. Það var líka útgerð áður en kvótakerfið kom til og hún skapaði ekki auðlindarentu, ég er sammála hv. þingmanni um það.

Það sem hefur að verulegu leyti skapað rentuna er pólitísk ákvörðun um takmörkun á aðgangi og frjáls markaðsviðskipti með þær heimildir. Það skapar verulegan hluta af arðinum. Síðan er arðurinn auðvitað samsettur, hann stafar af því að við eigum öfluga sjósóknara, sjómenn, snjalla skipstjóra. Við höfum safnað upp tækniþekkingu, við höfum safnað upp markaðsþekkingu og byggt upp æ öflugri fyrirtæki. Það er því engin einföld skýring á þeirri velgengni en auðvitað ræður gengi krónunnar miklu og þess vegna hef ég lagt áherslu á að sem stærstur hluti af veiðigjaldinu sé breytilegur, þ.e. að hann hverfi þegar illa árar.

Við eigum að þekkja það orðið, Íslendingar, að stundum gengur vel í sjávarútvegi og stundum gengur ekki vel. Það er því mikilvægt að það gjald sem við leggjum á sjávarútveginn tengist afkomunni sterkum böndum þannig að sjávarútvegurinn greiði gjaldið þegar afkoman er gríðarlega góð en gjaldið hverfi þegar afkoman er slök.