140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sem ungur maður gerði ég tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals um að senda öllum Íslendingum kvótann sinn, að stefnu Grósku, ungra jafnaðarmanna, og hef alla tíð síðan verið frekar skotinn í henni. Ég hef þó orðið fráhverfari henni með aldrinum og kannski reynslunni vegna þess að hættan við uppboðsleið í aflaheimildum er svipuð og hættan sem lóðauppboðin sköpuðu hér í þenslunni á byggingamarkaði. Hættan er sú að greinin teygi sig of langt í boðunum og fyrirtækin fari unnvörpum á hliðina. Það er allt of mikil áhætta að taka með undirstöðuatvinnuveginn og þess vegna held ég að farsælla sé að skattleggja hann með hætti eins og þeim sem hér er lagt til.

Hv. þingmaður spurði hvað yrði um fyrirtæki sem ekki ráða við erfiða daga. Um það er það eitt að segja að maður á ekki að haga skattkerfi þannig að allir lifi af. Grundvöllur fyrir frekari framförum í sjávarútvegi er að skussarnir hætti í rekstri og að fyrirtæki sameinist svo að (Forseti hringir.) hagræðing verði hér eftir sem hingað til.