140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan að þeir hv. þingmenn sem ekki treystu sér til að vera undir þessari umræðu eða óskuðu eftir því að hún héldi ekki áfram fram á nótt, væru latir og hysknir og nenntu ekki að sinna vinnunni. Það eru ekki falleg orð.

Ég tek eftir því að af meirihlutamönnum úr hv. atvinnuveganefnd eru þrír ekki komnir í hús enn. Sérstaklega var kallað eftir því fulltrúar meiri hluta atvinnuveganefndar væru í húsi þegar þessi umræða færi fram og ég óttast mjög, nú þegar fyrir liggur að hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson eru ekki í húsi, að þau muni liggja undir því ámæli frá hæstv. utanríkisráðherra að þau vilji ekki vinna vinnuna sína.

Mér finnst það ekki gott að hv. þingmenn þurfi að sitja undir slíkum ásökunum af hálfu hæstv. utanríkisráðherra. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort við eigum ekki von á því að umræddir þingmenn komi hingað í hús og reki af sér slyðruorðið sem hæstv. utanríkisráðherra gaf þeim með ummælum sínum rétt áðan.