140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fleiri þingmenn úr atvinnuveganefnd séu að koma í hús. Hv. formaður nefndarinnar, Kristján L. Möller, þurfti að bregða sér af bæ örstutta stund til að fara út á flugvöll.

Umræðan í nefndinni hefur verið á þann veg að það er mjög mikilvægt að nefndarmenn séu hér til að hlusta á ræður og rökstuðning sem menn flytja fyrir máli sínu. Það er mjög mikilvægt að nefndarmenn taki til máls og tjái sig líka um skoðanir sínar og fari með rökstuðning sinn í þessu máli. Sú staða hefur mjög oft komið upp í þessari nefnd að þingmenn skilja hlutina ekki til fulls. Það er bara eðlilegt og því er mjög mikilvægt að menn taki þátt í umræðunum þannig að ekkert fari á milli mála og upp komi misskilningur.

Ég vil ítreka, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að sjómannadagshelgin er fram undan og það er ekki hægt að bjóða okkur upp á (Forseti hringir.) að ekki verði gefið út að fundi ljúki í kvöld svo að menn geti farið út í kjördæmi sín og fagnað á (Forseti hringir.) hátíðisdegi sjómanna um þessa helgi.