140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég var satt best að segja farinn að hafa smááhyggjur út af þessari fundarstjórn forseta vegna þess að ég hafði miklar væntingar til þess að framsögumaður meirihlutaálitsins, hv. þm. Björn Valur Gíslason, mundi tala við hæstv. forseta og beina því til hans að við yrðum ekki lengi hér á fundi í kvöld vegna þess að sjómannadagshelgin er fram undan og hátíðahöldin í mínu sveitarfélagi eru hafin. En ég sé að ég kemst til að halda ræðuna mína.

Mig langar aðeins að byrja á að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem voru í andsvörum við hv. þm. Helga Hjörvar. Ég verð að viðurkenna að þar kvað við annan tón, þar virtist örla á skilningi og fór ekki á milli mála að forsendan fyrir því að menn gætu tekið auðlindagjald væri hagkvæmni og að eftir því sem hagkvæmnin væri meiri, þeim mun hærra auðlindagjald væri hægt að taka. Ég verð að viðurkenna að mér fannst sú ræða bara mjög fín og málefnaleg, en ég staldra við eitt sem hv. þingmaður kom inn á í andsvörum. Hann sagði að fyrir 30 árum hefði einkavæðing auðlindarinnar verið mistök og þá langar mig að rifja nokkuð upp. Það er oft nauðsynlegt að gera það því að kannski muna ekki allir hvernig það var en ég var til sjós þegar þetta gerðist. Þá kom svokölluð svört skýrsla frá Hafrannsóknastofnun. Á þessum árum veiddum við um 350–400 þús. tonn af þorski og í skýrslu Hafrannsóknastofnunar stóð að ef ekki yrði dregið verulega úr veiðunum mundi þorskstofninn hrynja endanlega og það gæti farið fyrir okkur eins og hafði gerst í öðrum löndum. Þá var þorskveiðin skorin niður, eins og við vitum, um rúmlega þriðjung. Ég vil líka rifja upp að þá voru takmarkanir á því hvort menn mættu flytja inn skip eða byggja og við þurfum svo sem ekki að rifja það mikið upp að fyrir þann tíma, á árunum þar á undan, settu einstaka hæstv. ráðherrar togara í ákveðin pláss til að halda við þær byggðir. Þá var búið að vera svokallað skrapdagakerfi.

Það er líka mikilvægt að átta sig á því að á þeim tíma voru deilurnar akkúrat öfugt við það sem er í dag. Þá snerust þær um hvað þyrfti að fella gengið mikið til að bjarga sjávarútveginum. Þá tókust menn á um það. Núna tökumst við hins vegar á um það hvað er hægt að taka hátt auðlindagjald út úr sjávarútveginum þannig að það er kannski aðalbreytingin. Ég get rifjað upp meðferðina á aflanum og fiskinum í sóknardagakerfinu því að ég var nokkur ár á sjó áður en það var lagt niður og veit alveg hvernig það var að vera með tíu trossur í sjó sem aldrei voru dregnar upp nema á laugardögum og mánudögum ef það var hægt að komast yfir það á mánudögum. Í dag þekkist ekki að það sé dregin tveggja nátta trossa nema bara fyrir algjöra slysni.

Það sem ég vildi staldra við líka, það sem mér fannst gott koma fram í máli hv. þm. Helga Hjörvars, var að auðvitað yrði að varðveita hagkvæmnina í greininni til þess að auðlindarentan yrði hærri. Eftir því sem hagkvæmnin verður meiri, því meiri auðlindarentu væri hægt að fara fram á að sjávarútvegurinn greiddi. Þetta segir sig auðvitað sjálft.

Ég verð að viðurkenna, skal bara gera það strax og ég kem betur að því á eftir, að ég þori ekki að fullyrða hvort það veiðileyfagjald sem hér er lagt til sé hóflegt eða allt of hátt. Það fer auðvitað eftir því hvað gerist í hinu frumvarpinu, það er algjört lykilatriði.

Ég rifjaði það líka upp í huga mínum meðan hv. þm. Helgi Hjörvar fór yfir þetta, sem ég var alveg sammála honum um, hvað núverandi stjórnvöld eru að gera í sambandi við makrílveiðarnar. Er ekki nýbúið að kvótasetja makrílinn? Hvernig var það gert? Það voru meira að segja tvö viðmiðunarár hjá sumum og ekki öllum. Þeir sem veiddu makrílinn og mokuðu honum upp í gúanó fengu viðmiðun. (Gripið fram í.) Síðan hefur verið hægt að stækka kvótann en þá er haldið til hliðar fyrir þau skip sem voru með viðmiðun þannig að í raun og veru gengur núverandi stjórnarmeirihluti í þveröfuga átt í því máli gagnvart því sem hann vill gera í núverandi kerfi. Það blasir við.

Ég man eftir því þegar svokallað skötuselsfrumvarp var lagt fram. Það væru margar aðrar breytingar inni í því en eitt ákvæði þar inni gekk út á heimild til ráðherra til að setja vinnsluskyldu. Ég tók það fyrir í nokkrum ræðum og var mjög hlynntur því ákvæði, ég studdi það. Mér fannst það skynsamlegt. Við vorum að sóa verðmætum, mörgum milljörðum, við þessar aðstæður. Það eru bara staðreyndir. Þess vegna tók ég jákvætt í það þó að ég væri ekki mikið fyrir það og hef ekki verið mikið fyrir það að hæstv. ráðherrar eigi að stýra þessu. Ég er ekki hlynntur þeim reglugerðarheimildum sem eru nánast í öllum lögum en ég var mjög hlynntur því. Hún gekk fram af mér, sú sóun á verðmætum sem átti sér stað.

Það er hins vegar niðurstaða og ákvörðun núverandi stjórnvalda að fara sömu leið í því kerfi eins og var gert hér 1984. Það eru staðreyndir málsins. (Gripið fram í.) Við verðum auðvitað að tala um hlutina eins og þeir eru og það er akkúrat það sem er verið gera. Það er mjög bagalegt hve miklu var sólundað í því kerfi. Ég las grein eftir virtan skipstjóra á uppsjávarskipi sem sagði, og ég efast ekki um það, að það hafi nefnilega verið gefin ákveðin vilyrði fyrir því á þeim tíma að þá yrði tekið tillit til verðmætanna, ekki bara magnsins. Þetta skip gerði einmitt meira af því að frysta og búa til meiri verðmæti. En niðurstaðan varð sú að þessari útgerð var refsað fyrir það að búa til meiri verðmæti úr takmarkaðri auðlind. Þetta má ekki gerast.

Það fennir stundum fljótt yfir og maður gleymir hlutunum, ég þekki það hjá sjálfum mér, en það rifjaðist upp fyrir mér fyrir skemmstu þegar svokölluðu dagakerfi var breytt. Við munum vel hvernig það gerðist. Það var búið að vera ákveðið kerfi í gangi og við vitum alveg hvað hefur gerst í þeim málum. Í gegnum tíðina hafa stjórnvöld á hverjum tíma fært handvirkt veiðiheimildir úr svokölluðu aflamarkskerfi, sem var byrjað með, niður í svokallað smábátakerfi. Það hefur verið gert handvirkt með pólitískum ákvörðunum. Við munum hvernig dagakerfið varð til. Svo þegar það var orðið allt of lítið var búið til klukkutímakerfi til að allir rúmuðust og svo kom krafa frá aðilum í því kerfi að það yrði kvótasett. Offjárfestingin var orðin þvílík í kerfinu að það stefndi allt í vitleysu, búið að framleiða báta á fullu — og hvað gerðist þá?

Það rifjaðist nefnilega upp þegar ég keyrði suður í Hafnarfjörð um daginn þegar portið þar niðri á kajanum var alveg sneisafullt af trillum sem svokallaður Úreldingarsjóður hafði keypt. Þá datt mér í hug að láta skoða það aðeins fyrir mig. Þessi breyting varð kvótaárið 1994/1995. Á þremur árum þar á eftir voru aflahlutdeildirnar seldar. Síðan sátu menn uppi með skipin og það þurfti að úrelda þau. Það gerði ríkissjóður en lagði það síðan aftur á greinina. Á þessum þremur árum voru 455 skip úrelt. Sum þeirra voru í fínu lagi, þau voru seld til Færeyja, Noregs og hingað og þangað. Öðrum var fargað, þeim sem engin verðmæti voru í. Ríkissjóður innleysti þetta, var meira að segja með marga starfsmenn við það.

Á þessum tíma, eftir þennan vöxt í kerfinu — við eigum nóg af skipum, við getum veitt miklu meira en við gerum á þann flota sem við erum með — voru 455 skip úrelt og þar af voru 407 svokallaðir smábátar. Ég lét reikna fyrir mig að kostnaðurinn fyrir ríkissjóð við það að fara í þessa kerfisbreytingu á sínum tíma er á núvirði 5,4 milljarðar kr., þ.e. að taka þennan flota og minnka hann niður. Ef við settum það í þetta samhengi sem við erum að ræða hér, þó að því hafi á endanum verið velt út í svokallað þróunarsjóðsgjald, gefur það augaleið að við gætum tekið þetta lægri upphæð út úr auðlindagjaldinu ef við værum að fara í svipaðar aðgerðir í dag. Þetta eru staðreyndir málsins.

Síðan verð ég að segja, virðulegi forseti, eins og ég reyndar byrjaði á, að það er mjög sérstakt að standa hérna aftur ári seinna í þessum umræðum. Við vorum hér í fyrra rétt fyrir sjómannadagshelgina, á föstudagskvöldinu. Auðvitað vitum við að allir þeir hv. þingmenn eða margir hverjir þurfa að fara út á landsbyggðina, eiga jafnvel um langan veg að fara og þurfa að komast heim til sín til að vera þar með sínu fólki og sínum umbjóðendum og taka þátt í þeim hátíðahöldum. Þau eru reyndar byrjuð í minni heimabyggð, byrjuðu í kvöld. Það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort þetta þurfi að vera svona. (Gripið fram í: Já.)

Eins og ég vék aðeins að í inngangsorðum mínum er rosalega erfitt — ég skal bara vera heiðarlegur með það að ég get ekki gert mér í hugarlund hvað er hóflegt veiðigjald og hvað er allt of hátt veiðigjald. Það ræðst af því hvað verður gert með hið svokallaða stóra frumvarp eða frumvarpið um stjórn fiskveiða. Það gefur augaleið. Mig langar að fara örstutt yfir það. Ég ætla að sleppa því að fara yfir — ég ætla ekki að detta inn í að ræða það sérstaklega og ekkert að ræða neinar efnislegar greinar nema ég ætla bara að benda á eina staðreynd. Þá ætla ég ekki að taka þetta dæmi um 60:40%-regluna því að þá er ég svo hræddur um að ég fari að ræða það mál efnislega. Gefum okkur að það gangi vel og það er auðvitað miklu meira af þorski í sjónum en Hafrannsóknastofnun finnur sem betur fer, en segjum sem svo að þorskveiðistofninn væri kominn í milljón tonn. Þá yrði tillaga Hafrannsóknastofnunar, miðað við 20% veiðireglu, 200 þús. tonna afli í þorski. Ég ætla bara að taka dæmi af einni tegund til að hafa þetta einfalt. Það þýðir þá að Hafrannsóknastofnun gerði tillögu um 200 þús. tonn af þorski. Og hvað þýðir það, virðulegi forseti? Við erum með svokallaða sveiflujöfnun í kerfinu sem þýðir að við tökum alltaf aflann á núverandi kvótaári plús það sem er lagt til og deilum með tveimur, það er svokölluð sveiflujöfnun, til að taka þessar miklu aukningar og miklu skerðingar, reyna að deyfa þær niður. Þá þýðir það í stuttu máli að bætt yrði við þorskkvótann 11.500 tonnum þó að veiðistofninn væri kominn í milljón tonn sem er alveg gríðarlega há tala og hefur ekki verið í áratugi.

Þá eru í því frumvarpi tekin fyrstu 4.500 tonnin í sérstakan pott, pott tvö, þannig að til viðbótar kæmu 7.500 tonn sem yrði úthlutað út á núverandi aflahlutdeildir þó að við værum með milljón tonna veiðistuðul. Þetta litla dæmi segir okkur hversu mikilvægt það er að menn klári hitt málið til þess að það væri eðlilegra og hægt að taka efnislega umræðu um það hvort þetta veiðigjald væri hóflegt eða ekki. Það ræðst af niðurstöðu af því sem gert er á eftir. Það gefur algjörlega augaleið.

Menn hafa rætt hér mikið um hagnaðinn í sjávarútveginum og hv. þm. Kristján Möller, formaður atvinnuveganefndar, kom í dag að minnsta kosti tvisvar, held ég að ég hafi heyrt, í andsvör og sagði að það væri áætlað, eða ég held að hann hafi verið með staðfestar tölur, að EBITDA í sjávarútvegi á síðasta ári hafi verið 75 milljarðar. Þá verð ég að biðja hv. þingmann að hugsa það örlítið að það er rosalega misskipt hvar framleiðnin er í sjávarútvegsfyrirtækjunum. Hún er gríðarlega há í uppsjávarveiðunum, þykist ég vita, en er ekki eins há í öðrum greinum. Við verðum auðvitað að ræða þetta niður á þær einingar sem við erum að tala um. Það er ekki hægt að segja að afkoman sé alls staðar góð. Til að mynda koma rækjuveiðar strax upp í hugann, þó að þær hafi verið gefnar frjálsar vitum við að þær eru ekki stundaðar nema nokkra mánuði á ári. Olían er mjög dýr og það er lítil afkoma þannig að auðvitað geta menn ekki sett samasemmerki fyrir sjávarútveginn í heild sinni. En þessi afkoma í uppsjávarveiðunum á síðasta ári er gríðarlega góð. Þess vegna er líka mikilvægt þegar það er skoðað að menn átti sig á því.

Þá vil ég líka minna þá hv. þingmenn sem beittu sér hér hvað harðast í fyrravor fyrir að mínu viti réttlætiskröfu þeirra sem hafa aldrei tekið þátt í svokölluðum pottum, sama hvaða nafni þeir heita, skelbætur, rækjubætur, línuívilnun, byggðakvótar, strandveiðar, alveg sama. Eigum við að kalla þá félagslega potta, það orð hefur stundum verið notað, til að bregðast við ákveðnum uppákomum? Það eru ekki miklar deilur um að hafa þá svona, held ég, það er kannski deilt um hvað þeir eigi að vera háir. En þá höfðu nefnilega þessir aðilar aldrei borgað neitt í þá potta. Eingöngu þeir sem höfðu aflahlutdeildir í fjórum fisktegundum höfðu alltaf greitt allan þann kostnað eins og hann lagði sig. Það var í þorski, ýsu, steinbít og ufsa. Hinir höfðu aldrei lagt neitt til. (Gripið fram í: Eða fengið.)

Þá gerðist nokkuð merkilegt, það var ekki einu sinni hægt að láta þessa ágætu aðila taka þátt í þessu. Auðvitað eiga allir að taka þátt í þessu, við erum með yfir 20 tegundir kvótasettar og það er ekkert réttlæti í öðru þegar við tökum ákvarðanir um að hafa þessa svokölluðu potta sem eiga að bregðast við ákveðnum atriðum, eins og ég hef sagt, en að allir borgi í þá og á eftir ríkinu. (KLM: Það eru ekki allir sjálfstæðismenn á þessu.) Nei, það er rétt hjá þér, hv. þm. Kristján Möller, það er ekki allir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins á þessu máli, það er hárrétt. En mér finnst þeir alveg jafnóbilgjarnir sama úr hvaða flokki þeir koma. Það skiptir mig engu máli hvaðan þeir koma.

Þess vegna er ég að vara við þessu. Það sem ég er að draga fram hér er að það þarf ekkert að hafa neina langa ræðu um að þeir aðilar sem eru til að mynda með aflaheimildir sínar í þessum tegundum — til dæmis eru krókaaflamarksbátarnir með mest af sínum heimildum í þorski og ýsu og í steinbít, reyndar töluvert í ufsa. Þeir eru með lítið í öðrum tegundum. Það kemur margfalt verr við þá að þurfa alltaf að láta 10% af sínum þorskkvóta áður en byrjað er að úthluta en aðrir sem eru með grálúðu eða karfa eða hvað þetta heitir allt saman, ég ætla ekki að fara að þylja upp uppsjávartegundirnar allar, þurfa ekki að láta eitt einasta kíló. Það býr til skekkju inn í greinina, það gefur algjörlega augaleið.

Þá er líka ágætt að rifja upp að þó að menn sem eru kannski með nánast allar veiðiheimildir sínar í þorski fái á sig skerðingar, jafnvel sem skipta tugum prósenta, verða þeir samt að borga skerðingarnar hjá hinum ef þeir fá eitthvað skert. Þetta óréttlæti blasir við öllum. Þessu verður að breyta. Ég held að mistök hafi verið gerð við lagasetninguna í fyrra því að menn voru svo bíræfnir að þeir meira að segja höfðu það þannig að þetta ætti að trappast inn að 1/3 en ég held að það hafi orðið einhver mistök í lagasetningunni í fyrra þannig að þessi 5,3% koma inn núna strax þó að ekkert sé gert í lögunum. (Gripið fram í.)

Það er oft talað um þetta og það er ekki alltaf sett í samhengi. Núna er aðeins verið að auka við þorskkvótann og þess vegna tek ég dæmið út frá að það skipti líka mjög miklu máli út frá því hvar fyrirtækin eru, þ.e. í hvaða landshluta. Við vitum að Austurlandið, Vestmannaeyjar og örlítið á Suðurnesjunum, þó mest á Austfjörðunum og jú, á Akranesi og Reykjavík, eru þessi fyrirtæki mjög sterk. Ef ég tek mitt kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, er vissulega Akranesið út frá Granda en síðan er ekki neitt meira sem stundar uppsjávarveiði.

Á sama tíma og þessi veiði tíðkast er búið að bæta við þorskkvótann núna. Hann fór lægst í 130 þús. tonn, er 177 þús. tonn á þessu ári. Þá er líka ágætt að rifja upp að á sama tíma og þessi litla aukning hefur átt sér stað, og þetta fer ekki allt í úthlutun vegna þess að við vitum að það hefur verið farið í frekari aðgerðir með því að taka inn í strandveiðarnar úr þorskinum og örlítið úr ufsanum, hefur ýsukvótinn verið skertur úr 105 þús. tonnum niður í 45 þús. tonn. Við verðum að setja þetta í samhengi. Ég vara við því að menn setji samasemmerki á milli þess hvað sjávarútvegurinn hefur í EBITDA og síðan einstaka jafnvel byggðarlaga, landshluta og útgerðarflokka. Við megum ekki ræða þetta heilt yfir með þessum hætti, það er algjörlega útilokað.

Síðan vil ég örstutt fara yfir breytingartillögurnar frá meiri hluta nefndarinnar. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mín fyrstu viðbrögð voru, ég á reyndar ekki sæti í hv. atvinnuveganefnd, að ég tel þær flestar til mikilla bóta, ef ekki allar. Annað held ég að væri ósanngjarnt. Ég hef ekki skoðað hverja einustu þeirra efnislega og ekki setið fundi þar sem þær eru útskýrðar en ég tel þær vera til mikilla bóta. Ég mætti reyndar sem varamaður á einn fund í nefndinni og það sem fór verulega í taugarnar á mér var að mér fannst ekki boðlegt að við værum að rífast um hvernig grunnurinn að veiðigjaldinu ætti að vera.

Eins og lagt er til af hálfu meiri hlutans urðum við að leggja á ákveðið gjald per ígildi og gefa okkur þann tíma sem hér er reiknað með að gera, þ.e. útfæra nánar auðlindagjald í samvinnu við bæði skattstofuna og Hagstofuna til að finna út á hvaða grunni væri eðlilegt að reikna þetta gjald. Ég ætla ekkert að festast við það hvort það er akkúrat sú leiðsögn sem hér er inni. Ég hef bara trú á því að sú nefnd sem fer af stað með sérfræðingum frá öllum þessum aðilum komist að þeirri niðurstöðu á hvaða grunni við eigum að reikna auðlindagjaldið og þurfum þar af leiðandi ekki að takast á um það. Þess vegna ætla ég ekki að ræða hér efnislega mikið um það hvað það þýðir að hækka þetta upp og annað því að ég sé engan tilgang með því. Ég treysti bara á að þegar þetta verður gert, hvort heldur sem menn standa ríkisstjórnarmegin eða stjórnarandstöðumegin á hverjum tíma, þurfi ekki að rífast um grunninn, hann liggi bara fyrir.

Ég staldra hins vegar aðeins við af því að við vitum að svokallað þorskígildi gefur ekki alltaf rétta mynd. Ef einhverjir hv. þingmenn í atvinnuveganefnd koma í andsvar vænti ég þess náttúrlega að vægi ígildanna hafi verið skoðað, sérstaklega í nefndinni, eins og þau eru þannig að menn átti sig á því að hugsanleg leiðrétting þarf að eiga sér stað. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því og sé að það er öðruvísi skattlagning á ígildið í uppsjávarveiðunum en í bolfiskinum og ég tel að það hljóti að vera út af því að menn hafa farið í þessa vinnu. Síðan er of flókið fyrir þá sem standa utan við nefndina að skilja hvernig menn útfæra þetta og þess vegna ætla ég svo sem ekki að staldra við það en treysti bara á að það verði skoðað sérstaklega þegar niðurstaða verður komin, það verði tekið út úr þessu pólitíska þrasi og sett til sérfræðinga. Það átti auðvitað að gera strax. Það er mjög bagalegt og eiginlega óafsakanlegt að það skyldi ekki hafa verið gert strax þannig að við stæðum ekki frammi fyrir því í margar vikur að rífast um það hvort gjaldið væri 140% eða 70% eða 60% og þar fram eftir götunum. Það er umhugsunarefni fyrir stjórnvöld.

Ég set smáfyrirvara við eina breytingu hér og það er bara vinsamleg ábending. Ég skil reyndar mjög vel hugsunina þar sem gert er ráð fyrir því með ákvæði til bráðabirgða til fimm ára að komið sé til móts við skuldsettar útgerðir. Ég geng bara út frá því að meiri hluti nefndarinnar sem leggur þetta fram sé að bregðast við þeim ábendingum sem hafa komið fram í nefndinni. Ég held hins vegar að það væri æskilegt fyrir að minnsta kosti hv. nefndarmenn að hugsa það að nú er miðað við skuldsetningu fyrirtækjanna í árslok 2011. Það er umhugsunarvert fyrir hv. þingmenn að leggja hugann við þann vaxtadóm sem var felldur í Hæstarétti, reyndar hjá einstaklingum, sem snerist um það að fjármálafyrirtækin máttu ekki reikna meðaltalsvexti Seðlabankans aftur í tímann. Ef sá dómur gengur yfir fyrirtækin gæti hann haft gríðarlega mikil áhrif á skuldsetningu fyrirtækja. Skuldir margra fyrirtækja gætu lækkað töluvert mikið við það og þarna er ég að hugsa um ríkissjóð fyrst og fremst, að það væri eðlilegt að menn hugsuðu þetta og skoðuðu milli 2. og 3. umr.

Síðan getur verið að það sé hugsun hv. þingmanna í meiri hlutanum, af því að kannski er afborgun af lánunum í um það bil 15 eða 20 ár, að þetta bráðabirgðaákvæði sé til fimm ára og eigi þar af leiðandi að dekka allan tímann. Ég þekki það ekki en það er umhugsunarvert fyrir hv. þingmenn sem sitja í atvinnuveganefnd að fara sérstaklega yfir þetta, a.m.k. leiða hugann að því.

Síðan er líka umhugsunarefni og þar tek ég undir með hv. þm. Helga Hjörvar, og ég hef svo sem gert það áður í umræðu, kannski ekki akkúrat um þetta mál, að ef menn stíga svona skref, þó að ég geri mér grein fyrir því að sjávarauðlindin sé ein af verðmætustu auðlindum okkar, ef ekki sú verðmætasta, þurfum við að taka umræðu um hvort ekki eigi að stofna auðlindasjóð, þ.e. að allar auðlindir í landinu greiði eðlilega auðlindarentu í þann eina sjóð. Það er ekkert réttlæti í því að þeir sem búa í sjávarplássunum þurfi núna að borga þennan skatt til ríkisins á sama tíma og þeir sömu aðilar þurfi að greiða þrisvar sinnum hærri upphæð fyrir að kynda húsin sín. Þá blasir við spurningin um jafnan aðgang íbúanna að auðlindunum. Það eru misskipt gæði hvort menn hafa aðgang að heitu vatni eða hvort þeir þurfi að kynda með rafmagni. Þá þurfum við að þróa þetta lengra í þessa veru. Síðan verða menn að taka umræðuna á hverjum tíma þegar menn væntanlega færa þetta seinna meir út í ferðaþjónustuna og þar fram eftir götunum. Mér finnst að þetta þurfi að gerast með þeim hætti.

Ég hef miklar áhyggjur, geri alvarlegar athugasemdir við það og líkar illa þegar farið er að ráðstafa skatttekjum í einhver fyrir fram ákveðin verkefni. Mér finnst þau vinnubrögð ekki til sóma. Það er svipað og ef menn segðu: Ja, nú ætlum að við leggja á auðlegðarskattinn og setja hann í barnabæturnar. Mér finnst að skatttekjur ríkisins eigi að fara allar til ríkisins eins og það á ekki að taka skattinn af ákveðnum einstaklingum í Reykjavík til að fara að gera einhverja ákveðna hluti. Þetta á allt að fara beint til ríkisins. Mér finnst ekki vera til fyrirmyndar hvernig þetta er gert.

Ég hef reyndar líka mjög miklar áhyggjur af því, svo það komi alveg skýrt fram, að margar sjávarbyggðir muni ekki þola þessa skattlagningu. Þá kem ég aftur að þessu sem ég sagði áðan, til að mynda getur enginn haldið því fram, ekki nokkur heilvita maður, að þetta muni styrkja sjávarplássin. Þetta færir tekjur frá sjávarplássum til ríkissjóðs, það er bara þannig, það getur enginn heilvita maður haldið öðru fram. Það eru mörg dæmi um það í umsögnum þar sem veiðigjaldið eitt og sér er jafnvel hærra en heildarútsvarstekjur sveitarfélaganna. Við þurfum að vera meðvituð um að þetta mun hafa áhrif á uppbyggingu í sveitarfélögunum, það liggur alveg klárt fyrir. Geta fyrirtækjanna í sjávarbyggðunum til að eflast og gera vissa hluti, byggja upp, styrkja íþróttalíf eða hvers konar samtök og líknarfélög mun minnka, við skulum ekki segja það öðruvísi en það er.

Svo skulum við líka hugsa það að flutningskostnaður er slíkur að til að mynda á Vestfjörðum kostar jafnmikið að flytja einn gám með fiskafurðum til Reykjavíkur eins og frá Reykjavík til Evrópu. Við skulum því vera meðvituð um hvað þýðir að gera þetta svona. Þetta mun líka þýða að auðlindarentan verður til þess að hvorki laun sjómanna né fiskverkafólks hækka jafnmikið og ef hún væri ekki. Það liggur alveg fyrir, annað er bara sjálfsblekking.

Eins og við vitum er hlutur sjómanna á svokölluðu hlutaskiptakerfi í kringum 40% að meðaltali, sums staðar töluvert lægri og sums staðar hærri eftir því á hvaða veiðum menn eru og á hvaða skipum. Þegar búið er að skipta kökunni ratar þetta inn í kjarasamninga sjómanna. Hvort það gerist á einu ári, fimm árum eða tíu veit ég ekki en það mun enda þar með einum eða öðrum hætti. Ég sé það reyndar ekki gerast þannig að menn muni strax byrja að draga það frá en það mun draga úr getu útgerðarinnar til að hækka laun sjómanna. Þetta mun líka gera það að verkum að það verður ekki eins gott og ekki eins auðvelt að hækka laun landverkafólks, það liggur fyrir. Það þýðir á mæltu máli að útsvarstekjur þessara sveitarfélaga munu dragast saman. Það er alveg á hreinu og það er mikilvægt að menn átti sig á þessu og verði meðvitaðir um að bregðast við ef þetta stefnir í óefni.

Virðulegi forseti. Ég er hér með fullt af umsögnum frá sveitarfélögum sem ég hugðist vitna í en ég þarf svo sem ekki að gera það því að mjög alvarlegar ábendingar koma fram frá viðkomandi sveitarfélögum í sjávarplássunum þar sem akkúrat er varað við þeim afleiðingum sem geta hlotist af þessu.

Ég minni líka á að til að mynda fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum, þó að allt líti sem betur fer vel út í uppbyggingu þar í kringum aðrar atvinnugreinar, eru ekki samkeppnisfær vegna samgangna. Það er það sem við vitum. Þegar fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum tekur fiskinn til vinnslu eða kaupir hann að fær það hann inn í vinnsluna þegar fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum, til þess að halda sig bara á þeim svæðum, er búið að flytja fiskinn sinn á markaði erlendis, búið að vinna hann og flytja hann út til Evrópu. Það er því ekki jöfn samkeppnisstaða þessara fyrirtækja.

Síðan ætla ég örstutt í restina, virðulegi forseti, að koma inn á umsögnina frá Landsbankanum. Ég ætla ekkert að staldra mikið við það sem hann segir, hann þarf að afskrifa 33 milljarða kr., ég ætla ekkert að festast mikið við það og efast ekkert um að það sé rétt hjá fyrirtækinu. Eigi að síður langar mig að benda hv. þingmönnum á það sem blasir við og má alveg lesa út úr umsögn frá bankanum að bankinn mun bregðast við með þeim hætti að hann mun væntanlega, eins og ég skil það og þykist vita, hvetja fyrirtæki til frekari sameiningar. Það er ekkert flókið og ég hvet hv. þingmenn til að fara yfir það. Ef bankinn er með tvö fyrirtæki í viðskiptum sem geta hugsanlega ekki staðið undir veiðigjaldinu og getur hugsanlega tapað fjármunum á því mun hann stilla þeim upp í eina einingu vegna þess að þá mun bankinn tapa minna. Hvað vald hefur bankinn til að gera þetta? Hann hefur fullt vald til þess og þá er ég aðallega að hugsa um ef seinna frumvarpið fer í gegn. Ég verð einhvern veginn að tala út frá þeim litlu breytingartillögum sem meiri hlutinn er búinn að sýna á í því máli. Og þá munu forstöðumenn fjármálafyrirtækjanna segja að veiðiheimildirnar verði verðfelldar, það þarf ekkert að deila um það, og þá geta þeir gert veðköll á öll fyrirtækin því að þá lækkar veðhlutfallið. Þá skiptir engu máli hvort fyrirtækin hafi einhvern áhuga á því að sameinast innbyrðis eða vilja, það verður ekkert spurt að því, þeim verður bara sagt að gera það. Þá þýðir ekki fyrir okkur hv. þingmenn að kalla að þarna starfi vondir menn vegna þess að það má nánast lesa þetta út úr umsögninni frá Landsbankanum þar sem bent er á að minni fyrirtækin og minni einingarnar séu óhagkvæmari. Þetta eru að mínu viti alveg skýr skilaboð um það hvað fjármálafyrirtækin munu gera. Við skulum vera okkur meðvituð um það.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, örstutt segja að það er gríðarlega mikilvægt að ef menn fara með þessa gjaldtöku verða þeir að átta sig á afleiðingunum og í samhengi hlutanna miðað við hvernig hitt frumvarpið verður afgreitt. Það er algjört lykilatriði. Ef menn fara í þær breytingar sem þar er lagt til mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar að mínu viti. Ef menn draga úr þeim breytingum sem þar eru áætlaðar og taka þær helst flestar til baka, ef ekki allar, getur vel verið að margir hv. þingmenn geti haldið því fram að þetta sé hóflegt veiðigjald. Ég treysti mér ekki til að svara algjörlega til um það hvort þetta sé hóflegt eða ekki. Ég minni líka á að það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að afkoma sjávarútvegsins fer eftir skipum, jafnvel eftir landsvæðum, eftir því á hvaða veiðum menn eru, hvort þeir eru í bolfiski eða uppsjávarveiðum, þannig að það er ekki hægt að segja: Þetta er afkoman og svo deilum við bara meðaltalinu í hana. Það er ekki rétt að hugsa það þannig.

Virðulegi forseti. Ég næ ekki að fara yfir meira í þessari ræðu minni og mun gera það í seinni ræðu.