140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef af því töluverðar áhyggjur þegar skattheimtan er aukin mjög mikið. Í umsögnum sumra sveitarfélaga er bent á að hækkunin á auðlindagjaldinu sé jafnvel meiri en allar útsvarstekjur viðkomandi sveitarfélags og í sumum tilfellum jafnvel heildartekjur sveitarfélagsins og þá verður auðvitað að staldra við.

Ég kom líka inn á það í ræðu minni að þá gefur augaleið að fyrirtæki sem jafnvel eru burðarásar í sjávarplássunum munu ekki geta stutt við uppbyggingu eins og þau hafa gert í gegnum tíðina. Ég nefndi líknarfélög, íþróttastarf og annað. Við þurfum að vera meðvituð um þetta og ef í ljós kemur að of langt er gengið verðum við að bregðast við í hina áttina en ekki hanga eins og hundar á roði og verja það á þann hátt eins og oft er gert.