140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Ég er sammála honum um margt sem fram kom. Við erum til dæmis sammála um uppsjávarveiðarnar og það að varast eigi í lengstu lög að koma þar upp gjafakvótakerfi í líkingu við það sem er við lýði núna. Það er að sjálfsögðu sanngirniskrafa að uppsjávarveiðiarmurinn leggi til jafns við botnfisksgreinarnar inn í pottana.

Hv. þingmaður talaði um að hann ætti erfitt með að meta hvort hér væri verið að leggja til hóflegt eða hátt veiðigjald og taldi meðal annars velta á fiskveiðistjórnarfrumvarpinu sem er á leið inn í þingið hvernig hægt væri að meta það. Í þessu veiðigjaldafrumvarpi er lagt til að umframarðurinn verði skattlagður og því spyr ég hv. þingmann: Á hvaða hátt telur hann að niðurstaða hins frumvarpsins hafi áhrif á veiðigjaldið og það (Forseti hringir.) hvort það standist?