140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég eigi ekki sæti í hv. atvinnuveganefnd held ég að það hafi komið fram í máli hv. þingmanna sem þar eiga sæti að þessir óháðu sérfræðingar sem fengnir voru til að vinna fyrir nefndina sögðu á fundi nefndarinnar að taka yrði mið af því hvernig hitt málið, svokallað fiskveiðistjórnarmál í heild sinni, yrði afgreitt. Ég las það í blöðum í morgun að miðað við þær litlu breytingar sem meiri hlutinn gerði á veiðigjaldinu, þó að þeirri vinnu sé ekki lokið — ég ber auðvitað væntingar til þess að frekari breytingarnar verði gerðar í þeim efnum — væri skattlagningin allt of há. Ég gat ekki séð annað en að haft væri eftir öðrum þessara sérfræðinga að hann stæði við þær athugasemdir sem þeir sérfræðingarnir gerðu við frumvarpið ef fram færi sem horfði.

Sá afsláttur sem hv. þingmaður talar um er vegna þess að þegar stjórnvöld lögðu málið fram var grunnurinn ekki réttur þannig að menn tóku miklu meira en þeir ætluðu að gera. Það er náttúrlega aðalatriði málsins að maður reikni dæmið á réttum grunni og réttum forsendum.