140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það veldur mér vonbrigðum ef hv. þingmenn gera sér ekki alveg fulla grein fyrir því hvaða áhrif stóra frumvarpið hefur á getu fyrirtækjanna til að greiða auðlindagjald. Mér finnst það einhvern veginn blasa við. Ég tók eitt dæmi í ræðu minni án þess að ég færi neitt dýpra í það mál vegna þess að ég var hræddur um að gleyma mér í því. Ef til að mynda þorskstofninn eða veiðistofninn yrði metinn núna milljón tonn samkvæmt 20% aflareglu yrði 200 þús. tonna úthlutun sem kæmi fram tillaga um frá Hafrannsóknastofnun. Við erum með 177 þús. tonna kvóta í dag og svo erum við með sveiflujöfnunina deilt með tveimur þannig að við erum að tala um 11.500 tonna aukningu í þorski.

Samkvæmt reglunni fara fyrstu 4.500 tonnin í pott tvö og í raun koma 7.000 tonn til úthlutunar inn í aflahlutdeildirnar eins og þær eru í dag. Á sama tíma höfum við skorið niður ýsukvótann úr 110 þús. tonnum niður í 45 þús. tonn, eins og hv. þingmaður veit jafn vel og ég. Það ræður getu fyrirtækjanna til að greiða auðlindagjald þannig að mér finnst blasa við að það (Forseti hringir.) er mjög mikilvægt að þessi mál séu rædd samhliða og að menn geri sér grein fyrir því hvaða áhrif þau hafa hvort á annað.