140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu um veiðigjöld að þau verði lögð á sem fast gjald og síðan afkomutengt gjald, eins og margoft hefur komið fram. Þannig séð skiptir ekki máli hvernig ráðstöfun mála gagnvart frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða mun verða í stórum dráttum því að það er afkoman hverju sinni sem mun ráða meginstofni gjaldsins. Ég átta mig því ekki alveg á þessari tengingu hjá hv. þingmanni því að það er auðvitað úthlutunin hverju sinni sem ræður afkomunni og gjaldinu sem verður greitt, hver sem hún er. Samkvæmt því frumvarpi sem fyrir liggur um stjórn fiskveiða er þrátt fyrir allt verið að ráðstafa ríflega 90% af heimildunum til leyfa til 20 ára. Það er nú þannig þrátt fyrir allt. Ég óska því eftir frekari skýringu á þessu.

Sömuleiðis nefndi hv. þingmaður í ræðu sinni að nái veiðigjaldafrumvarpið fram að ganga muni það meðal annars hafa áhrif á launakjör sjómanna. (Forseti hringir.) Ég spyr um nánari útskýringar á því, því að laun eru einn af frádráttarliðum í rekstri áður en kemur að stofni til að reikna veiðigjald samkvæmt því frumvarpi.