140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari þessu síðasta fyrst vitum við auðvitað að fastagjaldið er þarna inni þannig að það ræðst ekki af afkomunni. Ég fór líka yfir það í andsvari áðan að það er auðvitað gríðarlega mikilvægt hvernig afkoman er af því að nú er farin sú leið, sem ég er reyndar sáttur við, að setja fast gjald á hvert ígildi, svo menn komist nú upp úr því fari að rífast um hvað það þýðir sem sett var fram. Það er auðvitað ekki hægt að bjóða neinum heilvita manni upp á að ræða það hvort þær aðgerðir sem reiknað er með að farið verði í í frumvarpinu þýði að verið sé að taka 140% eða 70% eða eitthvað svoleiðis, þannig að ég er mjög hlynntur þeirri leið sem farin er.

Þegar maður setur á fast gjald, til að mynda á næsta kvótaári, 2012/2013, þá setur maður fast gjald á hvert ígildi. Ég kom inn á það áðan að skoða yrði sérstaklega ígildin bæði í bolfiskinum og í uppsjávarveiðunum, af því að það er auðvitað mismunandi afkoma innan greinarinnar. Það er gríðarlega mikilvægt hvernig afkoman verður hjá fyrirtækjunum (Forseti hringir.) og hvað gert verður í skerðingum á hvort heldur er á aflamarki eða aflahlutdeildum í línukerfinu, og hver geta fyrirtækjanna verður til þess að standa undir því (Forseti hringir.) auðlindagjaldi sem tekið verður á næsta kvótaári.