140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil á þessu stigi umræðunnar aðeins blanda mér í umræðuna þegar framsögumenn nefndarálita og talsmenn flokka hafa talað. Ég mun ekki þurfa tvöfaldan ræðutíma.

Ég vil fyrst þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir hennar vinnu, mikla og góða vinnu við frumvarpið og vel útfærðar breytingartillögur sem nefndin hefur flutt hér og mér finnst mikill samhljómur um að séu til bóta, lagfæringa á ýmsum atriðum í frumvarpinu og sömuleiðis mildiáhrifin umtalsverð af álagningu veiðigjaldsins, að minnsta kosti á upphafsárunum. Reyndar skynja ég hér samhljóm að uppistöðu til málefnalegri umræðu og það gleður mig. Þetta hafa fleiri ræðumenn nefnt, að í grunninn er ekki ágreiningur um það að eðlilegt er að við hagstæðar aðstæður skili þessi grein til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, gjaldi umfram hagnaði sem verður við tilteknar aðstæður að nýtingu þessarar verðmætu auðlindar. Spurningin er bara um hvar á að draga mörkin í þeim efnum. Það má deila eða ræða þar um tvennt, þ.e. annars vegar aðferðafræðina, hvaða aðferð og útfærsla er best til þess fallin að meta þessa rentu og fanga hana með skilvirkum hætti á sanngjarnan hátt gagnvart greininni og hins vegar hve mikið á að taka, hvað er hóflegt í þeim efnum.

Nú er reiknað með að veiðigjöldin gefi ríkissjóði á næsta ári um 15 milljarða kr. Það er auðvitað umtalsverð upphæð, kemur sér mjög vel. Hennar er þörf til að fylla upp í áætlun í ríkisfjármálum sem er liður í því að ná lokaáföngunum í að gera rekstur ríkissjóðs hallalausan, sömuleiðis er meiningin að næstu milljarðar umfram það gangi til þess að auka framkvæmdir í landinu og hvort tveggja væntanlega fagnaðarefni.

Hvað eru 15 milljarðar? Jú, það eru 15 milljarðar af áætlaðri að minnsta kosti 75 milljarða framlegð sjávarútvegsins eins og hún er um þessar mundir og má ætla að verði á næsta ári. Það þýðir á mannamáli að eftir er skilin framlegð í greininni upp á 60 milljarða kr., framlegð upp á 60 milljarða í grein sem veltir liðlega 250 milljörðum. Það þykja almennt ekki slæm hlutföll í atvinnurekstri. Það er mikil fjármunamyndun sem á í öllum venjulegum tilvikum að duga vel til fjárfestinga, uppbygginga, afborgana af lánum og arðs til þeirra sem lagt hafa fjármuni sína í atvinnurekstur. Kannski er best að horfa á einföldu tölurnar í þessum efnum og velta því fyrir sér hvort menn geti ekki orðið sæmilega sáttir um að einhvers staðar nálægt þessum mörkum sé hið hóflega viðmið. Það hafa flogið hér um sali tölur eins og 10–12 milljarðar, og þá er nú ekkert óskaplega langt orðið á milli þeirra og þess sem niðurstaðan núna samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar stefnir í.

Menn hafa rætt lítillega um auðlindarentuna og af hverju hún spretti. Það er áhugaverð umræða. Flestir virðast vera sammála um að hún sé til staðar. Ég held að augljóst sé hvar meginuppsprettan er. Meginuppspretta auðlindarentunnar í sjávarútveg á Íslandi sprettur af þeirri staðreynd að við Íslendingar erum svo lánsamir að eiga einhver ríkustu fiskimið í Norður-Atlantshafi. Það er ein af okkar stóru gjöfum eins og sagt var svo vel hér í dag. En það þarf meira til. Það er ekki nóg að eiga góð fiskimið ef þau eru ekki skynsamlega nýtt, ef þeirri nýtingu er ekki stjórnað á skynsamlegan hátt.

Í öðru lagi sprettur auðvitað rentan af því að okkur Íslendingum hefur tekist sæmilega til í þeim efnum að stjórna veiðum okkar og nýtingu með ábyrgum hætti. Við höfum borgað það því verði að sætta okkur við niðurskurð aflaheimilda þegar það hefur verið talið nauðsynlegt til verndar fiskstofnunum og til að byggja þá upp. Það eru stjórnvaldsaðgerðir. Það eru sameiginlegar ákvarðanir okkar sem þjóðar til dæmis að skera þorskkvótann niður, jafnvel á erfiðum tímum í þjóðarbúskap okkar. Þá erum við að fjárfesta í framtíðinni í uppbyggingu stofnsins og í arðsemi af veiðunum síðar meir. Og við erum að uppskera. Við erum að horfa fram á nokkuð öra uppbyggingu þorskstofnsins og bestu vísbendingar úr lífríkinu núna undanfarin ár sem við höfum séð um áratugaskeið. Við erum væntanlega og vonandi að fá inn í þorskstofninn þrjá sterka árganga á síðustu fjórum árum. Það þarf að fara áratugi aftur í tímann til að finna slíka röð.

Það er líka þannig hluti af því að til verður auðlindarenta að teknar eru ákvarðanir, veiðunum er stýrt og þar með er líka aðgangurinn takmarkaður og það gerir aðganginn að verðmæti.

Þegar menn segja að það sé að verulegu leyti kvótakerfinu að þakka, eða aflamarkskerfinu, að arðsemin er til staðar í greininni í dag þá er ég ekki endilega sammála því. Það er stjórnunin sjálf í raun og veru sem gerir það að verkum. En vissulega hefur aflamarkskerfið og sú staðreynd að við notum það til að takmarka sóknina gert það mögulegt að við þurfum ekki að byggja á öðrum og óhagkvæmari aðferðum eins og sóknartakmörkunum eða flotastýringu. Ég held að það sé alveg ljóst að þetta hefur sannað gildi sitt, að það að byggja á kerfi sem takmarkar veiðarnar í gegnum magn sem hver og einn handhafi getur sótt býður upp á hagræðingarmöguleika. Sú hagræðing hefur sannarlega orðið í greininni. Hún hefur að vísu orðið miklu dýrari en hún hefði kannski þurft að vera með annarri útfærslu vegna þess að út úr greininni hafa streymt miklir fjármunir og greinin hefur þurft að skuldsetja sig vegna þeirra aðila sem voru keyptir út. Ekki er sjálfgefið að það þurfi að vera svo og hefði auðvitað ekki átt að vera. En flotinn hefur minnkað og menn nýta betur framleiðslutækin og sóknarkostnaður hefur lækkað. Allt leggur það grunn að aukinni arðsemi.

Staðan núna er svo óháð þessu sú — ekki óháð en er þó þannig í dag og tvennt af því að minnsta kosti er óháð hinu fyrra, að aflabrögð eru góð, að langmestu leyti eru þau góð, sóknarkostnaðurinn hefur minnkað, afurðaverð er hátt og gengi krónunnar er um 20% eða undir 20% lægra að raungildi en það hefur verið að langtímameðaltali.

Þann fórnarkostnað sem er auðvitað í þágu útflutningsins ber almenningur í skertum kaupmætti og í aukinni verðbólgu á meðan gengið var að falla. Það skulu menn líka hafa í huga þegar rætt er um sanngirni þess að sjávarútvegurinn og þess vegna aðrar útflutningsgreinar sem njóta hliðstæðra skilyrða leggi sitt af mörkum.

Rentan sem myndast við þessar aðstæður í vel rekinni atvinnugrein er mikil. Það þarf ekki annað en skoða afkomutölur og eiginfjárþróun sjávarútvegsins undanfarin fjögur ár til að sjá hvað þar hefur gerst. Það er glæsilegt. Það kom sér vel og veitti ekki af, jafnilla staddur og sjávarútvegurinn var orðinn í lok árs 2008 og með hruninu, en hann hefur rétt ævintýralega hratt úr kútnum og er kominn í allt aðrar og miklu betri aðstæður til þess að leggja nú meira af mörkum.

Menn hafa spurt um samhengið við grundvallarlöggjöfina um stjórn fiskveiða. Sumir telja að það sé erfitt að ganga endanlega frá fyrirkomulagi álagningar veiðigjalda fyrr en það liggur líka fyrir. Þessu er bæði hægt að vera sammála en líka ósammála. Í grunninn er aðferðafræðin og ákvarðanirnar um veiðigjöldin eins og hér er lagt upp með fyrst og fremst tengt því að því marki sem menn ákveða að stilla af almenna fastagjaldið og velta því fyrir sér: Gætu einhverjir aðilar innan greinarinnar verið svo illa staddir að þeir ættu erfitt með það?

Þegar kemur að sérstaka veiðigjaldinu sem er afkomutengt mun það auðvitað að breyttu breytanda ráðast af því hvernig gengi greinarinnar verður á komandi árum og leita jafnvægis í samræmi við það. Það er afar næmt á afkomu greinarinnar.

Ég er ósammála því að það frumvarp sem fyrir liggur hafi þau miklu áhrif á rekstrarskilyrði sjávarútvegsins sem margir halda hér fram. Ég tel að það hafi það ekki. Ef við lítum til þess að það sem þar er boðið upp á er að menn fái til langs tíma nýtingarleyfi á uppistöðu þeirra veiðiheimilda sem þeir hafa í dag. Sumum finnst það í of ríkum mæli. Það er nákvæmlega sama upphafsprósenta varðandi bolfisktegundirnar fjórar og núgildandi fiskveiðiár byggir á. Það er þannig. Það er sama prósenta í þorski, ýsu, ufsa og steinbít og er tekin til hliðar í hliðarráðstafanir í kerfinu á yfirstandandi fiskveiðiári sem er upphafsstaðan gagnvart þeim fjórum tegundum, þannig að þær sæta engri skerðingu umfram það sem er á árinu í ár vegna nýja frumvarpsins. Ekki kíló.

Varðandi hinar tegundirnar er það vissulega rétt að þær mundu leggja af mörkum. En um það hefur skapast samstaða á undanförnum missirum í umræðum um þessi mál að það sé sanngjarnt að aðrar kvótasettar tegundir leggi líka af mörkum til jöfnunarráðstafana í kerfinu. Það er auðvitað stórmerkilegt að það skyldi vera eins og þetta hefur verið allan þennan tíma án þess að út í slíkt væri farið. Það er vissulega talsverð breyting, en engu að síður er það svo að aðrar kvótasettar tegundir en þessar fjórar, að þar bjóðast mönnum tæp 95% veiðiheimildanna í föst nýtingarleyfi til 20 ára. Og er ekkert í því fyrir greinina? Er það svo mikil röskun eins og menn vilja vera láta? Það liggur að sjálfsögðu fyrir og er viðurkennt að upphafsstaðan er breyting í þeim efnum frá 1,3% á yfirstandandi fiskveiðiári upp í 5,3% en á móti kemur hitt að afgangurinn er mönnum tryggður með þessum hætti.

Þegar menn telja að þetta séu svo miklar breytingar að það skapi einhverja mikla óvissu um að meta afkomu sjávarútvegsins, eru menn þá ekki aðeins að gleyma hver er hinn eiginlegi veruleiki í rekstri sjávarútvegs á Íslandi? Hvar eru stóru sveiflurnar?

Hv. þm. Ásbjörn Ólafsson fór ágætlega yfir það, til dæmis varðandi ýsuna … (Forseti hringir.)

(Forseti (SIJ): Forseti biður ráðherra að fara rétt með nafn þingmanna.)

Hvað varð mér á? (Gripið fram í: Óttarsson.) Óttarsson, ég þakka, forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson — það var annar maður einu sinni sem hét Ásbjörn Ólafsson og margir reyndar — nefndi það hér sem er alveg rétt að sveiflurnar sem menn eru að taka á sig af allt öðrum ástæðum eru svo margfalt stærri en þetta. Til dæmis þeir sem hafa byggt veiðar sínar umtalsvert á ýsu og fengu þessi veltiár meðan ýsukvótinn fór um og yfir 100 þús. tonn og er svo allt í einu orðinn halveraður. Það vegur margfalt á við einhverjar prósentur eina, tvær, þrjár, fjórar til eða frá milli flokks eitt og flokks tvö. Eða loðnuveiðarnar — við hvað búa menn þar? Að kvóti fer niður í fáeina tugi þúsunda tonna eða eitt, tvö par hundrað þús. tonn en svo er hann allt í einu orðinn 600 þús. tonn. Einhvern veginn hafa menn farið í gegnum það. Það er ekki vegna þess að hlutdeildum hafi verið vikið til um fáein prósent og stóru sveiflurnar sem tengjast genginu og verði á mörkuðum og aðgengi að mörkuðum. Þær eru margfaldar að stærðargráðu á við þær breytingar sem hér er rætt um, ef það er bara skoðað.

Ég held því að menn séu að þenja þetta svolítið út umfram tilefni. Sjávarútvegurinn er sveigjanlegur og sterkur og hefur aðlagað sig og alltaf getað aðlagað sig hratt að breyttum aðstæðum. Það hefur verið einn af meginstyrkleikum íslensks sjávarútvegs. Hvers vegna hefur hann meðal annars getað það? Hver hefur verið einhver verðmætasti eiginleiki sjávarútvegsins varðandi það að takast á við sveiflur og breyttar aðstæður? Það er fjölbreytnin. Það er sú staðreynd að íslenskur sjávarútvegur hefur verið fjölbreyttur. Hann hefur samanstaðið af smábátaútgerð, vertíðarbátum, fjölskylduútgerðum, meðalstórum fyrirtækjum og stórum fyrirtækjum. Hann hefur haft mikla möguleika til að aðlaga sig hratt gegnum þennan fjölbreytta rekstur, fjölbreyttar veiðiaðferðir og fjölbreytta vinnslu og aðgang að mörkuðum vítt og breitt um heiminn. Það eru verðmætir eiginleikar sem við eigum að halda í. Þess vegna þarf fiskveiðistjórnarkerfið líka að horfa til slíkra hluta til langs tíma, til eiginleika greinarinnar, eðliseiginleika greinarinnar, til fjölbreytninnar og til möguleikanna á að sjálfsögðu að hámarka verðmætin en líka að bregðast við sveiflum og geta mætt þeim. Auðvitað þarf hann þar með að hafa fjárhagslegan styrk, það er alveg rétt. Það er ekki ætlun eins eða neins að ganga öðruvísi frá málinu.

Meiningin er einmitt að finna þá leið til að fanga auðlindarentuna, að það sé á þeim árum þegar hún fellur til í óvenju ríkum mæli sem stærri hluti hennar gangi til þjóðarinnar, en síðan minna eða ekki neitt þegar sjávarútvegurinn þarf sjálfur á allri framleiðni sem fellur til að halda. Þannig er aðferðin. Það sýnir sig þegar þetta er skoðað.

Ef við tækjum núverandi breytingartillögur sem liggja á borðum þingmanna nú og bakreiknuðum þær tíu ár aftur í tímann spái ég að merkileg niðurstaða kæmi út. Þá væri það kannski um helmingur þess tíma eða rúmlega það sem uppsjávarveiðarnar hefðu ekki borgað krónu í sérstakt veiðigjald og bolfiskveiðarnar sennilega ekki í að minnsta kosti tvö ár á síðastliðnum tíu. Svo næm er formúlan og svona breytt og svona milduð á afkomu greinarinnar. Þegar koma góð ár og svo lengi sem þau vara, við skulum sannarlega vona að það verði sem lengst, þá skilar greinin meiru.

Síðan er það þannig að menn ræða stundum um breytingarnar eins og að frumvörpin, að því marki sem þau hafa áhrif, séu ávísun á að eitthvað minna verði veitt af fiski, það bara hverfi eitthvað, það fari eitthvað. Það er ekki svo. Það sem fer í flokk II verður veitt, því verður ráðstafað innan greinarinnar. Hluta af því eins og verið hefur í gegnum byggðakvóta, línuívilnun, bætur o.s.frv. Það gengur til handhafa veiðiheimilda í landinu. Strandveiðarnar fara vissulega til annars hluta flotans, þeirra sem almennt hafa aflamark, og það sem fer til kvótaþings og útleigu mun greinin nýta en á öðrum forsendum en fyrr. Það er auðvitað ekki þannig að það sé að fara eitt eða neitt. Það verður áfram innan sjávarútvegsins og af því spretta áfram verðmæti. En meðferðin á heimildunum er önnur og ráðstöfun þeirra er á öðrum grunni.

Þar af leiðandi held ég að það sé ekki sá vandi á ferðum sem sumir vilja vera láta, að takast á við það að klára löggjöfina um þetta veiðigjald eða ræða það að minnsta kosti við 2. umr. og ljúka henni þótt ekki sé komin endanleg niðurstaða í útfærslu varðandi stóra málið, ég held því fram. Enda má segja að að mörgu leyti sé æskilegt að halda þessum aðferðum og þessum mismunandi þáttum málsins á sinn hátt aðgreindum. Þegar við erum að leggja það niður fyrir okkur hvað er hóflegt í sambandi við auðlindarentutöku og afgjald fyrir aðgang að auðlindinni erum við fyrst og fremst að velta þeim grundvallarspurningum fyrir okkur. Síðan sættum við okkur við að tekjurnar sem af því spretta verða sveiflukenndar og fylgja afkomu útgerðarinnar.

Eins og ég segi reyndust þeir menn hafa rétt fyrir sér sem telja að arðsemin í greininni yrði eitthvað minni. Ég er ósammála því mati að hún þurfi að verða það þó að sú breyting yrði gerð sem stóra frumvarpið felur í sér, þá mundi það leiðrétta sig sjálft í gegnum formúlur veiðigjaldsins. Það mundi einfaldlega gera það. Þannig er nú það. Strax á næsta eða þarnæsta ári sæi þess þá stað í því sem greinin skilaði af sér. Það er að sjálfsögðu ekki markmiðið heldur þvert á móti hið gagnstæða, að tryggja sjávarútveginum stöðugt og traust rekstrarumhverfi og fyrirsjáanleika og koma honum út úr óvissunni sem margir hafa talað mikið um. Og þá kosti hefur frumvarpið tvímælalaust með sér hvað sem hver segir.

Þrátt fyrir allan umræðustorminn sem verið hefur í gangi veit ég vel að margir útvegsmenn velta því fyrir sér þessa dagana hvort þar sé ekki að mörgu leyti um freistandi tilboð að ræða að fá þann stöðugleika sem fólginn er í 20 ára nýtingarleyfum.

Það eru bjartir tímar fram undan í íslenskum sjávarútvegi, það er ég algjörlega sannfærður um. Það er eiginlega dapurlegt að menn skuli vera að ræða þetta yfir höfuð á þeim nótum að þar sé einhver heimsendir fram undan þegar veruleikinn er sá að með sama áframhaldi verður íslenskur sjávarútvegur á komandi árum sterkari en nokkru sinni fyrr. Veiðigjald upp á 15 milljarða kr. setur ekkert strik í þann reikning. Ef okkur tekst áfram vel við fiskveiðistjórnina, þorskkvótinn verður aukinn í skrefum á komandi árum, ættu menn að velta fyrir sér arðseminni sem það bætir við inn í greinina þegar menn geta farið að nýta betur á nýjan leik framleiðslutækin með minni sóknarkostnaði og jaðarkostnaðurinn við þá viðbót að sækja aukinn afla í verðmætustu tegund Íslands er hverfandi þegar fasti kostnaðurinn liggur allur fyrir. Framlegðin af hverjum 10–20 þús. tonnum í viðbót í þorskkvóta er alveg gríðarlega mikil.

Stærstu óveðursskýin sem að mínu mati grúfa yfir íslenskum sjávarútvegi eru algerlega handan okkar áhrifavalds. Það er spurningin um hvað gerist á mörkuðum. Það lítur ágætlega út með veiðar og stöðuna að því leyti. Greinin er í góðum færum að nýta sér aukinn afla þar sem hann mun falla til vonandi á komandi árum, eins og í þorskveiðum, en við munum náttúrlega lítið ráða við það ef áframhaldandi óáran verður til dæmis í Evrópu, á okkar stærsta markaðssvæði, og það fer að leiða smátt og smátt til þess að viðskiptakjörin versna. Það er vissulega áhyggjuefni sem þýðir ekkert annað en að horfast í augu við.

En kosturinn er þó sá að íslenskur sjávarútvegur er matvælastóriðja. Hann er matvælastóriðja. Flestir eru sammála um að það sé gott að vera í þeirri atvinnugrein, jafnvel þó að harðni á dalnum, og það sé vara sem sé ólíklegri til þess að falla verulega í verði en jafnvel flest annað. Við slíkar aðstæður, óvissuaðstæður í alþjóðlegum efnahagsmálum, er ágætt að vera ekki sérhæfður í að framleiða lúxusvarning eða selja einhverja dýra þjónustu sem fólk getur auðveldlega dregið úr kaupum á. Það að vera matvælastóriðja er gott við þær aðstæður. Það hefur sýnt sig að verð á matvælum og reyndar almennt hrávörum og hráefnum hefur haldist hátt en annars konar varningur hefur orðið miklu harðar úti í kreppunni.

Þrátt fyrir efnahagslegu óvissuna í ytra umhverfinu er alveg tilefni til að vera áfram bjartsýnn í þeim efnum að í hágæðamatvælastóriðju, eins og íslenskur sjávarútvegur er, eigi ekki að þurfa að kvíða því svo mikið að koma ekki framleiðslu sinni á markað og í ágætt verð.

Ég sé ekki neina ástæðu til þess að vera dapur yfir þessari umræðu, þakka reyndar fyrir hana því að hún hefur að uppistöðu til verið málefnaleg og yfirveguð, þó að auðvitað séu hér skiptar skoðanir, ég bind vonir við að hún geti orðið það áfram og að við sameinumst um afgreiðslu á málinu með farsælum hætti.