140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. ráðherra talaði um framlegðina í sjávarútveginum rifjaðist upp fyrir mér gömul saga, sem margir og flestir hafa sennilega heyrt, um manninn sem leið að meðaltali bara nokkuð vel. Hann var með vinstri fótinn í 100 gráðu heitu vatni og hægri fótinn í ísköldu vatni. Það er auðvitað þannig að í sjávarútveginum er staðan sú eins og sakir standa að framleiðni er ákaflega misjöfn. Hún er góð um þessar mundir í uppsjávarveiðinni. Hún var mjög vond þar fyrir fáeinum árum. Hins vegar er þetta öðruvísi í bolfiskinum, þó að hún sé viðunandi á margan hátt er hún alls ekki eins góð. Það sem hefur komið fram núna er það að samkvæmt þeirri tillögu sem fyrir liggur frá meiri hlutanum er gert ráð fyrir að bolfiskveiðin borgi svona 50% af gjaldstofninum en uppsjávarfiskurinn mun lægra.

Ég ætla hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra. Hann segir að þessi skattur sé mjög næmur fyrir afkomu greinarinnar. Alþýðusamband Íslands hefur sagt að ef krónan styrkist um 20% muni framlegð sjávarútvegsins lækka um helming og þar með stofninn til veiðigjaldsins. Er hæstv. ráðherra sammála þessu? Er þá ekki mjög óvarlegt að (Forseti hringir.) gera ráð fyrir, eins og kemur fram til dæmis í töflum sem fylgja áliti meiri hlutans, að þetta (Forseti hringir.) veiðigjald geti farið að nema upp í 20 milljarða kr. á næstu árum?