140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þessar sveiflur eru miklar og vel þekktar. Meðal annars af þeim sökum held ég að sé ákaflega mikilvægt og mikil framför strax í því fólgin að skipta álagningunni upp í uppsjávarveiðar annars vegar og bolfiskveiðar hins vegar. Í hinum besta heimi allra heima þyrftum við að geta brotið þetta enn meira upp og jafnvel lagt veiðigjöldin á eftir framlegð einstakra tegunda, meðal annars af þeim ástæðum sem hér hafa verið nefndar að þorskígildisstuðlar eru auðvitað ekki gallalaus aðferð sem andlag veiðigjalda vegna þess að heildarverðmæti afurðanna sem gengur inn í þorskígildisstuðlana segir ekki alla söguna um framlegðina eða rekstrarkostnaðinn og sóknarkostnaðinn við að ná í mismunandi tegundir o.s.frv.

Ég tel því að mjög mikilvægt sé að fara í þessa uppskiptingu og halda síðan áfram á þeirri braut og reyna að þróa aðferðafræðina að þessu leyti.

Varðandi gengið er það auðvitað alveg hárrétt að sveiflur eru í genginu. Það styrktist um 10–20% á skömmum tíma og hefur það umtalsverð áhrif á framlegðina í sjávarútveginum. Þá þarf (Forseti hringir.) einmitt formúlan að vera næm til þess að elta það. Um leið verður ríkisvaldið eða fjármálaráðherra hvers (Forseti hringir.) tíma að vera sér meðvitaður um að hér er um kvikan tekjustofn að ræða.