140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef maður skoðar tekjuöflunarhliðina og þau frumvörp sem hér liggja fyrir virðist vera að veiðigjaldið, þessi aukaskattur sem verið er að koma á og sem beinist fyrst og fremst að landsbyggðinni, muni fara í ríkissjóð og miðað við þau plögg sem komið hafa fram um hvernig menn hyggjast ráðstafa fénu virðist vera að menn hafi fyrst og fremst ætlað sér að ráðstafa því í Reykjavík.

Talað er um nýsköpun, tækniþróun og rannsóknir, skapandi greinar, hið svokallaða græna hagkerfi, húsnæðismál og síðan fjárfestingu í innviðum. Ég vitna í viðtal við Vífil Karlsson í grein sem heitir „Landsbyggðin blæðir, Reykjavík græðir“, sem er frá 2005, en ég held að innihaldið eigi jafn vel við í dag, með leyfi forseta:

„Eins og þetta er í dag þá má líkja þessu við nýlendustefnu ýmissa ríkja hér áður fyrr þegar nýlendur voru skattpíndar en sjóðirnir síðan fluttir heim til nýlenduherranna. Ef áhugi er fyrir því að gefa svæðunum jafnari forsendur til hagvaxtar, þá eru þetta sterkar vísbendingar fyrir því að það þurfi annaðhvort að færa til stofnanir eða lækka skatta á landsbyggðinni.“

Ég sé ekki í þessari framtíðarsýn núverandi stjórnvalda (Forseti hringir.) að ætlunin sé að færa einhverjar stofnanir út á land, hér er um að ræða aukna (Forseti hringir.) skattpíningu á landsbyggðina.