140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingrími J. Sigfússyni að gengi útgerðarinnar er mjög gott núna. Það stafar af lágu gengi krónunnar sem fjölskyldurnar og heimilin hafa þurft að blæða fyrir. Það stafar líka af góðum aflabrögðum um þessar mundir og af því að einn þriðji hluti mannkynsins, Indverjar og Kínverjar, er farinn að borða, þ.e. matvælaverð hefur hækkað og það mun væntanlega ekki lækka aftur, þannig að ég er sammála þessu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er hann sammála því að auðlindarentan sé háð afkomu og arðsemi útgerðarinnar? Er hann sammála því að inn í það dæmi komi mannauður að miklu leyti, geri skipun öruggari, geri markaðssetningu betri o.s.frv. þannig að í rauninni séu auðlindir háðar mannauði? Síðan fellst ég líka á að takmörkunin býr til auðlind, takmörkun aðgangs að einhverjum gæðum býr til verðmæti.