140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Þá vil ég spyrja áfram: Er hæstv. ráðherra sammála því sem margir halda fram að frjálsara framsal þýði meiri arðsemi? Er hann sammála því að framsalið sé einmitt takmarkað allverulega og stórkostlega í því sjávarútvegsfrumvarpi eða stjórn fiskveiða sem ekki hefur verið rætt enn þá, það er enn í nefndinni, að þar sé arðsemi greinarinnar í rauninni eyðilögð?

Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Í sumum greinum er afskaplega sveiflukennd afkoma eins og í loðnuveiði og veiði annarra uppsjávarfiska. Hvað gerist ef arðsemin eða hagnaðurinn er tekinn þegar mikill hagnaður er og síðan þegar illa gengur er ekkert til af því að búið er að skattleggja þetta burtu? Kemur þá ríkisútgerð?

Búið er að ráðstafa öllum þessum peningum til langframa, í framkvæmdaáætlunina, en hæstv. ráðherra sagði að þetta hefði ekki gefið neinn arð síðustu ár.