140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi framsalið er það nú leyft samkvæmt stóra frumvarpinu til 20 ára þó að á því séu vissar takmarkanir. Ég held að gera verði mikinn greinarmun á þeim aðstæðum sem voru í íslenskum sjávarútvegi þegar framsal var leyft og var það þó ekki án fórna. Það eru nú líka reikningar á bak við sem framsalið hafði í för með sér, bæði í byggðalegu og félagslegu tilliti og líka varðandi skuldir greinarinnar. Hve mikið af skuldum sjávarútvegsins skyldi nú stafa af því að menn leyfðu framsalið og menn gátu farið óskattaðir út úr greininni með gríðarlegar fjárhæðir, kvótaverðið var sprengt upp o.s.frv.?

Framsalið var vissulega hagkvæmt ef maður setur það í samhengi við umframafkastagetuna sem var í greininni, gríðarlega vannýtt fjárfesting, allt of stór skipastóll, mikil ónýtt framleiðslugeta. Framsalið átti vissulega sinn þátt í því að taka á því vandamáli. En ef þessir hlutir er í jafnvægi virkar framsal ekki með sama hætti. (Forseti hringir.) Þá er það að mínu mati ekki sama forsenda þess að greinin geti áfram haldist arðbær, enda fjárfesti þá menn (Forseti hringir.) í samræmi við aðstæður sínar og offjárfesti ekki.