140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, ég hvet því hv. þingmann til að setja sig aftur á mælendaskrá og koma síðar hingað til að svara því sem hann nær ekki að svara núna.

Hv. þingmaður velti fyrir sér, ef ég heyrði rétt, hvað væri í fyrsta lagi hóflegt veiðigjald. Það hlýtur að fara eftir hverju fyrirtæki hvernig staða þess er.

Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn út í þær aðferðir sem þingmaðurinn sagðist hafa látið skoða. Hvers konar aðferðir eru það? Hvernig líta þær út? Hvaða áhrif hefði sú aðferð haft — ég held að það sé mjög áhugavert ef til eru aðrar aðferðir eða ef menn eru búnir að skoða eitthvað annað að setjast þá niður og kanna það því að sú aðferðafræði sem er notuð í þessu frumvarpi er að flestra mati, sýnist mér, galin.

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi heyrt rétt að hann teldi í raun að þessi gjöld væru of há, þ.e. (Forseti hringir.) það mundi koma í ljós að gjaldtakan væri of mikil.