140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, íbúar landsbyggðarinnar eiga rétt á því að fá veiðileyfagjaldið til sín til atvinnuuppbyggingar, styrkingar innviða og annarra þátta á komandi árum. Það er einmitt það sem boðað er í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem nýbúið er að kynna. Þar er það boðað meðal annars að hluti af þessum peningum renni til samgönguframkvæmda, til ýmissa framkvæmda á öðrum sviðum hagkerfisins til að efla atvinnu eins og græna hagkerfið o.fl. þannig að gjaldið streymir nú víða um. En það getur vel verið að aumingja ríkissjóður þurfi að fá eitthvað til sín á þessum erfiðleikaárum núna. Mín hugmynd er sú, og ég get tekið undir það sem stendur í 5. lið ályktunar Framsóknarflokksins um veiðigjald og auðlindarentuna, að þegar upp verður staðið eigi gjaldið að renna út á land, að sjálfsögðu.

Af því að hv. þm. Eygló Harðardóttir vitnar í ályktun Framsóknarflokksins um sjávarútvegsmál þá er ég með þá ályktun (Forseti hringir.) og ítreka það sem ég hef áður sagt að hún er ótrúlega lík því frumvarpi sem verið er að ræða og því frumvarpi sem er til meðferðar í nefndinni.