140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:08]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Yfirlýst markmið með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða er einmitt að treysta hina dreifðu byggð í landinu og treysta stöðu sjávarbyggðanna sem eiga allt sitt þarna undir. Á það er bent í greinargerð með fiskveiðistjórnarfrumvarpinu frá stjórnarformanni Byggðastofnunar, að mig minnir, að þar segir að býsna langt sé á milli markmiða frumvarpanna og síðan áhrifa frumvarpanna sjálfra.

Það virðist vera megingalli á frumvörpunum tveimur og þar skilur á milli þeirra frumvarpa sem ég lagði fram og þessara að hér eru afnumdar allar byggðatengingar eða tengingar sjávarbyggðanna við atvinnugrein sína. Skatturinn sem hér er verið að leggja á og hækka, þ.e. veiðigjaldið, hefur af mörgum verið kallaður landsbyggðarskattur. Ég vil því spyrja hv. þingmann um skilgreiningu á því: Er þetta skattur eða er þetta gjald á auðlind? Við höfum jú almenn skattalög þannig að hægt er að sækja til fyrirtækja eftir skattalegum leiðum.

Ég minni á það sem Vífill Karlsson hagfræðingur, sem unnið hefur mjög mikið með sveitarfélögunum, einkum á landsbyggðinni, segir í álitsgerð sinni, með leyfi forseta:

„Því má segja að standi hugur ráðamanna til að hækka veiðigjald í sjávarútvegi sé mikilvægt að hluti þess renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara sem leiddi óhjákvæmilega til frekari brottflutninga íbúa. Beinast liggur við að endurgreiðslan renni til viðkomandi sveitarfélaga.“ (Forseti hringir.)

Þetta segir sá maður sem hvað best þekkir til (Forseti hringir.) hjá sveitarfélögunum. Þetta frumvarp gengur þvert á þá stefnu og þau varnaðarorð sem (Forseti hringir.) gerð eru í álitsgerð hans.