140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

kostnaður við almenna niðurfærslu lána.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú hefur ekki hvað síst verið skilað inn skýrslum til ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármálaráðherra um mat á því hvað það mundi kosta að ráðast í almenna niðurfærslu lána. Skýrslan er að vísu unnin af sömu aðilum og meira og minna unnu slíka skýrslu síðast fyrir ríkisstjórnina og þarf því ekki að koma að öllu leyti á óvart að niðurstöðurnar séu sambærilegar. En þær hljóta engu að síður að vera töluvert áfall fyrir hæstv. forsætisráðherra vegna þess að samkvæmt mati skýrslunnar mundi það kosta á bilinu 172–248 milljarða að færa niður lán heimilanna um 20% brúttó. Það er að vísu tekið fram í skýrslunni að kostnaðurinn yrði töluvert minni vegna þess að lánin mundu ekki öll innheimtast ef ekki verður farið í niðurfærslu.

Engu að síður eru þetta háar upphæðir og að mati skýrsluhöfunda eru þær það háar að hér færi nánast allt úrskeiðis efnahagslega, hér yrðu algerar efnahagslegar hamfarir. Það færi allt úrskeiðis sem getur farið úrskeiðis að mati skýrsluhöfunda ef ríkið tæki á sig kröfur upp á 170–248 milljarða. Með öðrum orðum, gjöfin sem ríkisstjórnin færði kröfuhöfum bankanna þegar nýju bankarnir voru stofnaðir með því að leiðrétta ekki lán heimilanna eins og tækifæri var til, er slík að ef ríkisstjórnin ætlaði aftur að leggja í slík útgjöld mundi það setja allt efnahagslífið á hliðina að mati skýrsluhöfunda.

Í öðru lagi staðfestir skýrslan það, ef menn telja niðurstöðurnar trúverðugar, að ef ríkisstjórninni hefði tekist að koma Icesave-kröfunum á íslenskan almenning, því að þær voru töluvert hærri en þetta, þar var um að ræða greiðslur út úr landinu, hér er þó bara um að ræða greiðslu til íslenskra heimila, hefði Ísland ekki borið barr sitt eftir það, þá hefði Ísland orðið gjaldþrota og allt farið úrskeiðis sem getur farið úrskeiðis í íslensku efnahagslífi ef marka má niðurstöður þessarar skýrslu. Það hlýtur að vera töluvert áfall fyrir hæstv. forsætisráðherra, annars vegar að hafa fært kröfuhöfum bankanna (Forseti hringir.) slíkar gjafir og hafa síðan reynt að setja á þjóðina annað eins eða meira með Icesave-kröfunum.