140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

kostnaður við almenna niðurfærslu lána.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Sú niðurstaða sem birtist hjá fjármálaráðuneytinu að ósk sjálfstæðismanna, sú úttekt sem þar var unnin var ekkert sérstakt áfall fyrir þá sem hér stendur. Hún hlýtur að vera miklu meira áfall fyrir framsóknarmenn og formann framsóknarmanna sem hafa lengst af gegnum tímann frá hruni haldið því fram að hægt væri að fara í 20% niðurfærslu á lánum. En nú hefur komið í ljós af óháðum aðilum sem reiknað hafa það út hvaða áhrif það hefði. Þess vegna erum við að skoða frekar greiðsluvanda fólks en skuldavandann vegna þess að engum er greiði gerður með því að setja Íbúðalánasjóð á hausinn, svo dæmi sé tekið, eins og þessi skýrsla sýndi, eða með því að setja fjárhag ríkissjóðs á hliðina. Það er einmitt það sem við erum að vinna með, að reyna að ná utan um hagvöxt og ná niður verðbólgunni í landinu með því að vinna skynsamlega í ríkisfjármálunum en ekki fara í aðgerðir sem engum er greiði gerður með þegar upp er staðið.

Ég spyr hv. þingmann og ég vona að hann svari: Telur hann ráðlegt að fara í aðgerðir sem kosta ríkissjóð 200–300 milljarða og Íbúðalánasjóð með þeim afleiðingum sem fram koma í þessari skýrslu? Ég held að það sé orðið tímabært að hv. þingmaður svari því.

Varðandi Icesave og hinar endalausu fullyrðingar frá hv. þingmanni um það hvaða áhrif það hefði haft á efnahag og skuldastöðu ríkissjóðs bið ég hv. þingmann um að bíða aðeins og sjá hvaða niðurstöðu við fáum hjá dómstólunum sem eru að skoða það mál. Ég vona auðvitað að niðurstaðan þar verði sem allra best fyrir Ísland en ég sá útreikninga á síðasta Icesave-samningnum nýlega, þar var um háar fjárhæðir að ræða. Hefði hann gengið eftir mundi hann hafa kostað okkur 40 eða 50 milljarða, en við skulum sjá (Forseti hringir.) hver niðurstaðan verður í dómstólaleiðinni áður en við förum að takast á um hvora leiðina hefði verið skynsamlegra að fara.