140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

frumvörp um sjávarútvegsmál.

[10:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Það hefur ekkert breyst hjá hæstv. forsætisráðherra, virðulegi forseti. Það er best að hún reyni að rökstyðja mál sitt, kannski ekki í stuttri ræðu heldur í lengri greinargerð, um hvað sé ólöglegt við það að menn stoppi aðeins lengur í landi til að funda með starfsfólki sínu og fara yfir stöðu mála. Það er gert í mikilli sátt við sjómenn um borð í þessum skipum og starfsfólkið sem þarna starfar. Það eru miklu fleiri en þeir sem hætta núna að róa í einhverja daga til að reyna að átta sig á stöðu mála.

Það að ríkisstjórnin sé að beita sér fyrir því að skapa hér eðlileg rekstrarskilyrði greinarinnar stangast algjörlega á við allar umsagnir um þessi frumvörp. Þetta er stórkostleg atlaga að greininni og þar með íslensku samfélagi og þeim grundvallarstoðum sem við byggjum það á. Hæstv. forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi lagt sig fram við að ná sátt en fer svo að gagnrýna auglýsingarnar og eyrnamerkir þær sjávarútvegsfyrirtækjum. Þessar auglýsingar eru birtar af mörgum fyrirtækjum (Forseti hringir.) í sveitarfélögum sem starfa í sátt við þessa grein, þetta er bara svoleiðis. Og hún svaraði því ekki við hverja hún á þegar hún talar um íhaldsöfl, forréttindastéttir, valdaklíku íhaldsafla og sægreifa, (Forseti hringir.) hagsmunagæsluöfl, gíslatöku og grímulausa valdaklíku. Hún svaraði því ekki. (Forseti hringir.) Á það við um Landssamband smábátaeigenda, (Forseti hringir.) sjómannasamtökin, ASÍ, fjármálastofnanir og sérfræðinga?