140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

valfrelsi í skólakerfinu.

[10:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Sem betur fer höfum við byggt upp þá meginreglu í íslensku skólakerfi á umliðnum árum og áratugum að hér sé skóli án aðgreiningar. Ég er sannfærð um að það hafi verið farsæl leið að byggja skólakerfið upp með þá viðmiðun í huga. Við erum náttúrlega fyrst og fremst að hugsa um börnin en ég er einnig sannfærð um að við höfum byggt upp fordómalausara samfélag og umburðarlyndara. Að minnsta kosti höfum við hér tæki til þess.

Við byggjum líka á því að það sé valfrelsi. Það er auðvitað áhyggjuefni hvers foreldris sem á börn með einhvers konar hamlanir hvort það sé að velja réttu leiðina fyrir börnin sín hverju sinni. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að foreldrar hafi valfrelsi í skólakerfinu, að foreldrar geti valið um grunnskólann, næsta grunnskóla í nágrenni við heimilið ef svo ber undir en þeir geti líka farið aðrar leiðir til að styrkja barnið sitt og leyfa því að njóta sín innan skólakerfisins á eigin forsendum.

Hvert sem við lítum sjáum við að skólarnir eru að byggja upp mjög sértæka þjónustu innan skólakerfisins sem kemur til móts við börn með sérþarfir, auðvitað misjafnlega en þeir eru að byggja upp ýmiss konar sérkennslu innan grunnskólans og maður er þakklátur fyrir það. Það er vel. En nú sjáum við að ákveðin börn sem hafa ekki aðrar þroskahamlanir en þroskaskerðingu, þ.e. eru ekki endilega greind með einhverfu eða hafa aðrar greiningar heldur eru eingöngu með greindarskerðingu á bilinu 50–70, komast ekki inn í aðra skóla en hverfisskólann. Þá beini ég auðvitað sjónum mínum að því hvort þau eigi ekki að hafa þann rétt sem við höfum reynt að byggja upp og stuðla að í gegnum tíðina, að þau hafi sama rétt og önnur fötluð börn til að ganga í Klettaskóla eða aðra skóla svo að (Forseti hringir.) þau geti notið sín innan skólakerfisins á eigin forsendum.