140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

valfrelsi í skólakerfinu.

[10:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu. Ég get tekið undir þau meginsjónarmið sem hún lagði fram um að við höfum byggt upp kerfi sem byggist á skóla án aðgreiningar. Við höfum náð mjög miklum árangri á alþjóðavísu í því að hafa einn skóla fyrir alla, ef við getum orðað það svo, og náð miklum árangri í blöndun. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta sé bæði gott fyrir börnin og samfélagið. Hins vegar er það mjög mikilvæg spurning sem hv. þingmaður nefnir um valfrelsi foreldra þegar kemur að því að velja skóla, þ.e. hvort börn fari í hverfisskólann sem byggir á þeirri hugmyndafræði, að þar komi allir saman, eða þau sendi börn sín í sérskóla. Almennt séð höfum við þetta valfrelsi. Ég get nefnt sem dæmi að í Reykjavík velur umtalsverður hluti foreldra að senda börn sín ekki í hverfisskóla af einhverjum ástæðum, þó að yfirgnæfandi meiri hluti velji hverfisskólann.

Það er auðvitað álitamál hvernig eigi að tryggja slíkt valfrelsi. Hv. þingmaður nefnir Klettaskóla og þar voru þrengdar inntökureglur, þ.e. inntökuskilyrðum var breytt af hálfu Reykjavíkurborgar þannig að skólinn stendur ekki lengur opinn þeim sem hann stóð áður opinn, skilyrðin hafa verið þrengd. Ég lít svo á að þarna þurfi menntamálaráðuneytið að vinna með viðkomandi sveitarfélögum á hverjum tíma að því að tryggja sem best valfrelsi foreldra en hins vegar er líka ljóst að sveitarfélögin sem vilja fylgja hinni lögbundnu stefnu sem hefur verið sett í lög um skóla án aðgreiningar geta það. Það er alltaf spurning hvar eigi að draga línuna, hvar hverfisskólanum sleppi og sérskóli taki við, getum við sagt, og hvort það eigi að vera alfarið val foreldra eða hvort ákveðin stýring eigi að vera af hálfu sveitarfélagsins. Ég held að svarið hljóti alltaf að vera blanda af þessum leiðum. (Forseti hringir.) Þessi umræða er núna í gangi í ráðuneytinu og verið að fara yfir þessi mál þannig að endanleg svör liggja ekki enn fyrir.