140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

valfrelsi í skólakerfinu.

[11:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að ríkið hefur ekki boðvald yfir sveitarfélögunum hvað þetta varðar en hins vegar geta yfirvöld haft skoðun á þeim reglum sem sveitarfélög setja sér og hvort þær samrýmist, getum við sagt, lögum um leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla, hvað sem um er að ræða. Ég tek undir með hv. þingmanni um þessi almennu sjónarmið, hin almenna regla er skóli án aðgreiningar. Hins vegar er líka mjög mikilvægt að foreldrar hafi ákveðinn rétt. Stundum hefur verið bent á að foreldrar þekki kannski börnin sín betur en nokkur annar og ég held að mikilvægt sé að við berum virðingu fyrir því í öllu þessu ferli. Það skiptir mestu máli að við vinnum þetta með sveitarfélögunum og það er það sem við reynum að gera um þessar mundir.