140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:12]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er mjög hissa á þeim orðum hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur að stjórnarliðar haldi þinginu í gíslingu óvandaðra vinnubragða. Mér finnst að hv. þingmaður og stjórnarliðar eigi aðeins að líta í eigin barm að því er það varðar.

Hér hafa tiltölulega fá mál verið afgreidd nema samkomulagsmál frá páskum. Við höfum sest yfir það, formennirnir, með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna að ræða þessi mál, gerðum það fyrir 10 dögum. Þeim er því alveg kunnugt um það hvernig við sjáum fyrir okkur að hægt sé að ljúka þessu þinghaldi þar sem lagt er upp ákveðið plan. Ég held að það hafi allir séð það fyrir löngu, eftir að málþófið jókst á þinginu, að við mundum aldrei geta haldið starfsáætlun. Ég veit að forseti er að reyna að gera sitt besta til að hægt sé að ná sátt um þinglok.

Ég tel nauðsynlegt að við, formenn flokka, gerum aðra tilraun í dag til að setjast yfir þessi mál og taka upp þráðinn frá því fyrir 10 dögum og vita hvort hægt sé að ná sameiginlegum skilningi og niðurstöðu í þessi mál þannig að menn sjái fyrir sér hvernig hægt verður að ljúka (Forseti hringir.) þessu þinghaldi. En ég bið nú um að stjórnarandstaðan hafi skilning á því að það eru ákveðin mál sem stjórnarliðar þurfa að ná í gegn.