140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég hef í sjálfu sér lítið út á fundarstjórn forseta að setja frekar en aðrir þingmenn sem hingað hafa komið. En við ræðum stór og mikil mál og menn greinir á um leiðir að markmiðum. Það er þess vegna, virðulegi forseti, algerlega óþolandi að þurfa að sitja undir því, þegar menn greinir á um leiðir í pólitík, að maður sé að þvælast fyrir, að maður gangi erinda hagsmunaafla úti í bæ og maður sé vændur um að standa aldrei á sinni skoðun heldur skoðun einhverra hagsmunasamtaka úti í bæ.

Virðulegur forseti. Þetta er, hvort heldur við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, algerlega fyrir neðan virðingu allra þingmanna. Við erum í pólitík, við göngum fram undir flokksmerkjum okkar, hvort heldur við erum í Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingu, Vinstri grænum eða Framsóknarflokknum, og við fylgjum stefnu okkar flokks.

Það er ekki að ganga erinda hagsmunaafla úti í bæ, virðulegur forseti, og ég frábið mér slíkt yfirlæti (Forseti hringir.) af hálfu stjórnarliða sem hingað koma og telja mig, sem þingmann Sjálfstæðisflokksins, ekki ganga erinda (Forseti hringir.) þjóðarinnar heldur sérhagsmunaafla úti í bæ. Ég vísa þeim fullyrðingum til föðurhúsanna.