140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera þá athugasemd við fundarstjórn forseta, ekki hvað varðar þá fundarstjórn sem nú er heldur hina almennu fundarstjórn, hvernig við ætlum að ljúka þingstörfum. Í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið um meðal annars samráð við hagsmunaaðila og umsagnaraðila spurði sá sem hér stendur alla þá sem komu fyrir nefndina hvort haft hefði verið samráð við þá um gerð þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir og við ætlum að tala um í dag og væntanlega næstu daga. Niðurstaðan er ákaflega skýr, hún er sláandi. Það var ekkert samráð haft við neinn. Ríkisstjórnarflokkarnir fóru af stað í upphafi kjörtímabilsins með hugmyndir um fyrningarleiðir. Þeim hefur verið hent. Haft var samráð á þeim tíma en við samningu þessara frumvarpa og útfærslu var ekkert samráð haft við neinn, hvorki hagsmunaaðila né umsagnaraðila. Það er líka sláandi að við fórum fram á það í nefndinni í morgun (Forseti hringir.) að fá inn nokkra helstu hagsmuna- og umsagnaraðila sem þetta hefur mest áhrif á (Forseti hringir.) en ýmsir stjórnarliðar í meiri hluta nefndarinnar höfnuðu því.