140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við skulum segja sannleikann í þessu máli. Ríkisstjórnin fór ágætlega af stað varðandi endurskoðun fiskveiðakerfisins, sett var á samráð. Þá komu allir að því borði. Niðurstaðan varð líka góð, sátt náðist. En í framhaldi af því var sú sátt rofin með því að farið var að snúa út úr þeim tillögum sem þá náðist mjög góð samstaða um í nefndinni.

Síðan var lagt fram frumvarp í fyrra. Allir vita hvernig sú sjóferð fór. Nú liggur þetta frumvarp fyrir. Komið hefur fram að það var ekkert samráð haft við neina aðila um undirbúning þess máls. Við höfum síðan haldið að minnsta kosti 20 fundi í atvinnuveganefnd um þessi mál. Við höfum fengið til okkar 80 umsagnir, við höfum fengið til okkar 70 fundargesti og hvað er gert með það? Það er ekkert gert með það. Þetta var nefnilega allt saman leikrit og nú liggur það fyrir þegar leikritið er komið á fjalirnar hvað var í raun og veru verið að gera. Það var verið að hafa þetta góða fólk að fíflum sem kom hingað í góðri trú til að ræða við okkur um þessi miklu mál. Það var ekkert gert með það (Forseti hringir.) og ríkisstjórnin ætlar að afgreiða þessi mál (Forseti hringir.) án þess að hirða nokkuð um það sem fram kom (Forseti hringir.) hjá almenningi í landinu um þetta mál.