140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér annað af þeim stóru sjávarútvegsmálum sem ríkisstjórnin kom fram með á lokadögum þess frests sem hún hafði til að leggja fram mál. Þetta eru gríðarlega umfangsmikil mál og að mínu viti er það mjög mikið ábyrgðarleysi að koma fram með svo stór mál á síðasta degi þar sem þau kalla augljóslega á mikla og vandaða umræðu. Það hefði verið nær að þessi mál hefðu legið fyrir í síðasta lagi í upphafi vorþings, strax eftir áramót, þannig að unnt hefði verið að hefja þá miklu vinnu sem augljóslega bíður. Sú leið var hins vegar ekki valin. Það er líka augljóst af þeim athugasemdum sem nefndinni hafa borist og eins af umfjöllun í fjölmiðlum að einhver misskilningur er uppi varðandi það samráð sem ýmsir aðilar telja að átt hafi sér stað. Samkvæmt upplýsingum frá þeim sem starfa í greininni hafa þeir ekki verið í neinu samráði við ríkisstjórnina. Hún kann að hafa verið í samráði við einhverja aðra aðila en þeir eru þá ekki úr sjávarútvegi. Ég held að það sé nokkuð ljóst miðað við þær athugasemdir sem hafa komið fram.

Ég held að það sé líka ágætt að vekja athygli þingmanna á því að í tölvupósti til þeirra í dag er ábending um skýrslu sem Byggðastofnun var að gefa út sem heitir Samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun. Ég held að það sé ágætt að hafa hana við höndina þegar við ræðum sjávarútvegsmálin.

Eins og allir vita er sjómannadagshelgin nýliðin og mörg okkar fóru á bryggjuna og ræddu við þá sem þar starfa. Ég hafði frétt af hinni fyrirhuguðu lengingu á sjómannadeginum, ef þannig má orða það, þ.e. að flotinn ætlaði ekki út, og þegar ég spurði út í það sögðu sjómennirnir og fiskvinnslufólkið á bryggjunni: Það er ekkert annað hægt að gera, störfin okkar eru í húfi.

Það fólk stóð á bryggjunni og lýsti fyrir mér hve mikilvægt það væri að greinin sýndi samstöðu gegn þeim breytingum sem á að gera. Að minnsta kosti á þessum stað voru það ekki útgerðarmennirnir sem höfðu uppi þennan málflutning heldur starfsfólkið enda hafa um 35 þús. manns atvinnu af sjávarútveginum. Það er vert að hafa það í huga þegar við ræðum þessa mikilvægu atvinnugrein.

Um það bil 85–90% aflaheimilda eru utan höfuðborgarsvæðisins en 80–90% allra þjónustufyrirtækja við sjávarútveginn eru hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Áhrifin af því að setja sjávarútveginn í uppnám og skapa mikla óvissu í kringum hann bitna ekki síður á öllum þeim fyrirtækjum sem þjónusta þessa grein. Það gleymist gjarnan að obbinn af þeim fyrirtækjum er einmitt á höfuðborgarsvæðinu. Það er því ekki eins og þetta sé bara barátta einhverra örfárra aðila í þorpum úti á landi, þetta skiptir miklu stærri hóp máli. Svokallaður sjávarklasi, sem er mjög áhugavert framtak, er einn af þeim þáttum sem á að hafa áhyggjur af í þessu sambandi.

Ég segi það af fullri hreinskilni að gagnrýni Alþýðusambands Íslands á þessa ákvörðun útvegsmanna lætur í mínum eyrum eins og athugasemd frá einhverju samfylkingarfélagi. Því miður hef ég það álit á forustu ASÍ og ég geri ekkert með gagnrýni þess. Það er þó vitanlega slæmt ef niðurstaðan er sú að þetta sé ólöglegt, en ég held það sé það ekki, ég held að mennirnir hljóti að hafa gengið úr skugga um það. En aðrir þurfa að skera úr um það. Gleymum því ekki að útgerðarmenn eru mjög margir, þeir eru bæði með lítil fyrirtæki og stór. Starfsfólk í greininni og útvegsmenn eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og það eru þeir hagsmunir sem verið er að reyna að verja og benda á með þessum aðgerðum.

Frumvarpið sem við ræðum hér, um veiðigjöld, hefur breyst örlítið frá því að það var fyrst lagt fram en meginstofninn í því er sá sami. Þeir sérfræðingar sem fjölluðu um málið fyrir hönd atvinnuveganefndar standa við gagnrýni sína á málið. Mig langar að lesa hér upp úr viðtali sem var haft við Daða Má Kristófersson hagfræðing í Ríkisútvarpinu. Hann er annar þeirra sérfræðinga sem unnu skýrsluna sem atvinnuveganefnd studdist við. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar þannig að gjaldið er enn þá mjög hátt. Þrátt fyrir að það hafi aðeins verið lækkað og tekið tillit til nokkurra hluta varðandi svona kostnað og skuldir og annað slíkt að þá, þá mundi það enn þá vera mjög íþyngjandi fyrir útgerðina og sérstaklega í ljósi þess að eiginlega engar efnislegar breytingar voru gerðar á frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða.“

Að mínu viti segir þetta okkur að málin séu enn alls ekki búin. Það er hægt að klára þau hér. Það er mikill ábyrgðarhluti af stjórnvöldum að ætla að þrýsta máli í gegn sem sérfræðingar þeirra tala svona um, að það sé hreinlega ekki tilbúið. Það er ábyrgðarhluti af stjórnvöldum að ætla samt sem áður með málið í gegn. Þá veltir maður fyrir sér af hverju ekki er hlustað á rökin. Er það vegna þess að menn hafa einfaldlega ákveðið að gera breytingar á fiskveiðistjórninni án þess að láta sig varða áhrifin af því? Ef málið er þannig vaxið er það að mínu viti mjög alvarlegt en um það þurfum við ekki að vera sammála. Ég lít málið alvarlegum augum.

Áður en ég fer beint í frumvarpið ætla ég að koma aðeins að hlutum sem mér finnst skipta máli þegar við ræðum þetta allt saman. Í erindi sem Vífill Karlsson, dósent og ráðgjafi, flutti á ráðstefnunni Afl í auðlindum Vestfjarða í apríl 2011 fór hann yfir ýmsa hluti sem tengjast styrk Vestfjarðasvæðisins og horfa á hvernig hlutirnir eru gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Þar talar hann meðal annars um það hvernig umsvif hins opinbera geta haft áhrif og segir á einni af glærum sínum, með leyfi forseta:

„Hið opinbera getur örvað hagkerfið og aukið atvinnustig með lækkun skatta, auknum útgjöldum og auknum fjárfestingum.“

Lækkun skatta felur í sér aukin útgjöld. Síðan er líka hægt að horfa á þetta þannig að hið opinbera getur dempað hagkerfið með hækkun skatta, minni útgjöldum og minni fjárfestingum.

Það er sú leið sem ríkisstjórnin virðist ætla að fara, þ.e. ekki örvunarleiðina heldur hina.

Það kom líka fram í erindi Vífils að landsbyggðin virðist ráðstafa 30–80% af tekjum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarsvæðið virðist hins vegar ráðstafa 10–20% af tekjum sínum til lögaðila á landsbyggðinni. Þetta er enn ein vísbendingin um að rangt sé gefið að mínu mati. Það er þetta sem sum okkar voru meðal annars að ræða um þegar við ræddum skoðanakönnunina sem á að gera um stjórnarskrána. Við hljótum að vera með þessa þætti í umræðunni þegar við ræðum jöfnun atkvæða og allt þetta dót.

Það kemur líka fram í erindi Vífils að annarri hverri krónu sem innheimt er af hinu opinbera á landsbyggðinni sé ráðstafað þar, hinni þá væntanlega í Reykjavík. Það er margt í þessum glærum og þessari yfirferð sem ég tel mjög áhugavert fyrir þingmenn að kynna sér og við hefðum átt að vera búin að fara yfir þetta í þinginu áður, held ég. Á 24. glæru leitar hann svara við þeirri spurningu hvað sé til ráða til að snúa þessari þróun við. Það er tvennt sem hann nefnir, annars vegar að flytja opinber „störf“ eða verkefni út á land og hins vegar að vera mögulega með aðra skattprósentu úti á landi.

Þá komum við að því sem ég ætlaði að tengja þetta við, það að veiðigjaldið sem nú stendur til að hækka gríðarlega er fyrst og fremst skattur á landsbyggðina. Auðvitað er það líka skattur á höfuðborgarsvæðið því að hér eru öflugir útgerðaraðilar en fyrst og fremst er þetta skattur á landsbyggðina þar sem obbinn af fyrirtækjunum og aflaheimildunum er þar.

Það væri verðugt að spyrja þeirra spurninga hvaða réttlæti stjórnvöld sjá í því að leggja sérstakan skatt á hluta landsmanna eins og gert er með þessum hætti. Það er ekki þannig að þessi skattur leggist eingöngu á kennitölur fyrirtækja heldur hefur hann áhrif á alla sem starfa í greininni. Hér er gjarnan sagt að við sem stöndum gegn þessu eða gerum athugasemdir við þessar breytingar séum talsmenn sérhagsmunaafla. Ég hef velt því fyrir mér fyrir hvaða sérhagsmunaöflum við þingmenn getum talað. Eru það bændurnir sem vinna við löndun á Skagaströnd? Eru það karlarnir sem keyra flutningabílana og fiskinn til Reykjavíkur til útflutnings? Eru það þeir sem vinna á lyfturunum í höfnunum? Er það fiskvinnslufólkið? Eru það rafvirkjarnir sem vinna í skipunum eða vélvirkjarnir? Hver eru þessi sérhagsmunaöfl sem við erum að verja ef menn vilja orða það þannig? Eru það útgerðarmennirnir sem allt þetta fólk á afkomu sína undir og vinnur hjá? Þetta er mjög sérstök og villandi umræða, frú forseti, af því að hún er hreint og beint ekki sanngjörn. Það er svo margt fleira undir. Í sumum bæjarfélögum er ástandið einfaldlega þannig að ef útgerðarfyrirtækið í bænum rúllar fer allt hitt með. Í mörgum þessum byggðarlögum eru þetta fyrirtækin sem halda uppi atvinnu.

Byggðastofnun skilaði inn áliti um þessi frumvörp og hefur ýmislegt við þau að athuga. Síðasta setningin í því áliti hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Færa má fyrir því rök að veiðigjöld séu landsbyggðarskattur, enda stór hluti aflaheimilda bundinn fyrirtækjum þar.“

Þarna er það ríkisstofnunin Byggðastofnun sem metur hlutina nákvæmlega svona, að sérstaklega sé verið að skattleggja landsbyggðina með því að leggja á þessi veiðigjöld.

Það kann að vera að einhver fyrirtæki geti borgað hærra veiðigjald en þau gera í dag vegna þess að rekstur þeirra er það góður og skuldir þeirra það litlar en þá verður líka að koma fram með mál þar sem tekið er á þeim fjölbreytileika sem er í útgerð á Íslandi. Þá má heldur ekki skattleggja þau fyrirtæki sem geta greitt meira þannig að þau hrökklist frá, leggi skipum eða stöðvi fjárfestingar eða nýsköpun. Það verður að vera jafnvægi í þessu og það jafnvægi er ekki að finna í því frumvarpi sem við ræðum hér, því miður.

Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er samandregið það sem snýr að bönkunum og þeim sem eiga hagsmuna að gæta þeim megin frá, þ.e. að veð þeirra eða viðskiptavinir rýrni ekki þannig að þeir geti ekki staðið í skilum. Þetta er mjög kjarnyrt umsögn. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp þá þrjá punkta sem Samtök fjármálafyrirtækja senda frá sér um stöðuna frá sínum bæjardyrum. Í fyrsta punkti segir svo:

„Núverandi staða efnahagsmála hér á landi mælir ekki með því að gerðar séu grundvallarbreytingar á starfsskilyrðum undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar. Þjóðin glímir enn við afleiðingar efnahagshrunsins og glæfralegt að skapa óvissu um stöðu sjávarútvegs meðan svo stendur á.“

Þetta er býsna góður punktur og eitt af því sem við höfum haldið hér fram bráðum í nærri fjögur ár, að mjög varhugavert sé að hafa óvissu um sjávarútveginn þegar við eigum að reyna að efla hann eins mikið og við getum. Í það minnsta hefðu menn þá átt að byrja á því að koma fram með mál sem hægt væri að ná sátt um þannig að menn gætu unnið eftir því til framtíðar. Í öðrum lið segir, með leyfi forseta:

„Breytingarnar munu veikja stöðu sjávarútvegs með verulega aukinni skattheimtu, skapa óvissu um aðgang að auðlindinni, letja fjárfestingar og draga úr hagkvæmni greinarinnar. Engin greining á áhrifum frumvarpsins á þessa þætti fylgir með frumvarpinu né heldur greining á áhrifum á þau fyrirtæki sem nú eru starfandi eða þau byggðarlög sem mestra hagsmuna hafa að gæta í þessu efni. Látið er skeika sköpum um þessi mikilvægu atriði.“

Síðan var farið í þá úttekt sem Daði Már Kristófersson og Stefán B. Gunnlaugsson gerðu og svaraði hún hluta af þessu. En þarna er líka fjallað um hagkvæmni greinarinnar og það er nokkuð sem mér finnst skorta hjá stjórnarliðum sem eru fylgjandi þessum breytingum, þeir virðast horfa fram hjá þeirri miklu hagkvæmni sem er í íslenskum sjávarútvegi og þeirri staðreynd að íslenskur sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur eins og er víðast hvar annars staðar í heiminum með einhverjum hætti. Sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur á Íslandi. Samkeppnisaðilar okkar njóta flestir ríkisstyrkja. Það að ætla að auka skattheimtu í sjávarútvegi og veikja stöðu hans veikir um leið samkeppnishæfni greinarinnar gagnvart erlendum samkeppnisaðilum. Það er allt einhvern veginn öfugt við þau mál sem hér eru lögð fram, í það minnsta er tekin gríðarleg áhætta sem er ekki þess virði að taka til þess eins að framfylgja einhverjum klisjum sem ég held að stjórnarflokkarnir séu með á borðinu hjá sér, klisjum um að greinin standi svona og svona, það séu eintómir bófar og ræningjar í sjávarútvegi og þeir eigi bara að borga. Þetta er tónninn sem þingmenn slá hér, og helst hæstv. forsætisráðherra. Staðreyndin er hins vegar sú að í sjávarútvegi starfa tugþúsundir manna, harðduglegt fólk sem leggur milljarða til samfélagsins beint og óbeint.

Í þriðja lið í áliti Samtaka fjármálafyrirtækja segir, með leyfi forseta:

„Tillögur frumvarpsins munu jafnframt veikja efnahag fjármálafyrirtækja sem kröfur eiga á sjávarútvegsfyrirtæki þar sem tryggingar fyrir eldri lánum munu rýrna. Endurreisn fjármálafyrirtækjanna er enn á viðkvæmu stigi og íslenska ríkið á þar mikilla hagsmuna að gæta, beint og óbeint. Þá mun aðstaða sjávarútvegsfyrirtækja til töku nýrra lána til fjárfestinga veikjast.“

Þetta er niðurstaða Samtaka fjármálafyrirtækja. Nái þessi frumvörp í gegn — og þær breytingar sem boðaðar hafa verið á veiðigjaldinu laga þetta ekki á nokkurn einasta hátt — munu þau veikja stöðu fjármálafyrirtækja, veikja þau fyrirtæki sem sama ríkisstjórn, sömu stjórnarflokkar, ætlar að selja til að fjármagna svokallaða fjárfestingaráætlun.

Frú forseti. Mér finnst einhvern veginn ekki ganga upp að ætla fyrst að veikja þau fyrirtæki sem ríkið á hlut í, rýra þær eignir, og reyna svo að selja þau. Mér finnst þetta ekki ganga upp og það þarf að leita svara við þessu með einhverjum hætti.

Það er annað atriði sem sem mér finnst rétt að setja í þetta samhengi, afskriftirnar sem gjarnan er talað um í sjávarútvegi. Það var reyndar líklega í fyrrahaust, í september eða október kannski, sem fram kom skýrsla nefndar sem fylgist með afskriftum og þess háttar í fjármálaumhverfinu — ég man ekki í svipinn hvað sú nefnd heitir. Það kemur fram í töflu í skýrslunni að á meðan sjávarútvegsfyrirtækin fengu rúmlega 12 milljarða afskrifaða voru um 140 milljarðar afskrifaðir í verslun og þjónustu. Samt er alltaf sjávarútvegurinn dreginn upp í umræðunni og sagt að það sé óþolandi að afskrifa svona mikið hjá útgerðarmönnum og sægreifum. Það eru 12 milljarðar úr þessari grein á móti tæplega 140 milljörðum.

Þetta er það sem sjávarútvegurinn hefur búið við allt of lengi. Að mínu viti hefur staðið yfir 10–15 ára löng herferð gegn þessari atvinnugrein á Íslandi og því miður eru það núverandi stjórnarflokkar sem þar hafa farið fremst, sér í lagi Samfylkingin. Það er sorglegt að segja það en nákvæmlega það hefur Samfylkingin gert með þeirri orðræðu sem hæstv. forsætisráðherra viðhafði á síðasta flokksráðsfundi hjá Samfylkingunni. Þetta er að mínu viti ósanngjarnt í umræðunni.

Í sjávarútvegi eins og í öllum öðrum atvinnugreinum, hvort sem um er að ræða iðnað, þjónustu eða eitthvað annað, hlýtur einhverjum að verða á en það er mjög ósanngjarnt að setja alla undir sama hatt, frú forseti. Það er mikilvægt að við þingmenn höfum það í huga að þetta er ekkert að gerast núna, þetta hefur staðið mjög lengi, eins vitlaust og það er.

Menn hafa talað um almannahagsmuni en ég veit ekki hvort ég á að fara út í þá því að þetta er svo fáránlegt að það hálfa væri nóg, þ.e. að almannahagsmunir fari ekki saman við það að reka öflugan og hagkvæman sjávarútveg sem leggur til 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar, að það séu ekki almannahagsmunir að þeirri grein gangi vel. Auðvitað skiptir það gríðarlega miklu máli og það kann jafnvel að skipta meira máli en að ná inn nokkrum aukamilljörðum í veiðigjöld.

Það er líka ljótur leikur í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar að stilla því þannig upp að veiðigjaldið eigi að standa undir sóknaráætlun landshluta og sambærilegum verkefnum úti á landi. Af hverju settu menn hlutina ekki þannig upp að sala bankanna ætti að standa undir því? Það er að sjálfsögðu vegna þess að verið er að reyna að segja við fólk úti á landi: Ef við fáum veiðigjaldið fáið þið kannski veg. Þetta er ljótur leikur sem stjórnarflokkarnir leika með fjárfestingaráætlun sinni sem er þannig úr garði gerð að maður ætti kannski ekki að hafa fleiri orð um hana.

Frumvarpinu fylgja þrjú nefndarálit, eitt frá meiri hluta atvinnuveganefndar og annað frá 1. minni hluta, hv. þingmönnum Einari K. Guðfinnssyni og Jóni Gunnarssyni, en hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson skilar svo séráliti. Í nefndaráliti meiri hlutans segir á bls. 2 um markmið frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Um markmiðið að baki sérstöku veiðigjaldi, þ.e. það markmið að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar …“

Skattar, hvaða nafni sem þeir nefnast, fara í stóru hítina eins og við segjum gjarnan, fara til ríkissjóðs sem ráðstafar svo fjármununum. Þessi aukaskattur sem um er að ræða virðist eiga að fara þangað samkvæmt því frumvarpi sem hér um ræðir en ekki renna sérstaklega í verkefni tengd þeim stöðum þaðan sem skatturinn kemur. Ég velti því fyrir mér þegar ég las þessa setningu og hlustaði á ráðherra og aðra tala um þetta mál hvort verið væri að boða sams konar skatt á aðrar auðlindir sem íslenska ríkið á.

Við getum til dæmis horft á ferðaþjónustu. Á að leggja á hana sérstakt auðlindagjald? Það er að sjálfsögðu grein sem nýtir íslenska náttúru, selur aðgang að henni. Fylgjendur þessa frumvarps hljóta að vera að hugsa um að leggja auðlindagjald á ferðaþjónustuna því að ferðaþjónustan notar augljóslega náttúruperlur sem öll þjóðin á. Ég tek fram að ég er á móti slíku gjaldi. Við getum horft á Gullfoss. Er ekki hægt að taka upp sérstakt gjald á þá sem selja ferðir þangað? Mér finnst ég ekki hafa fengið nein svör við vangaveltum af þessu tagi.

Það má líka nefna tíðnibylgjur sem eru mjög takmörkuð auðlind og fáir sem nýta hana. Menn greiða gjald fyrir að fá þær bylgjur, þau tíðnisvið. Svo er það vindurinn. Nú er Landsvirkjun að fara af stað með vindmyllur. Munu einstaklingar fara af stað og setja upp vindorkuver með vindmyllum hringinn í kringum landið? Munu þeir þá greiða auðlindagjald til ríkisins? Ef einhver á vindinn hlýtur það að vera forsætisráðherra eða ríkið, maður skyldi ætla það.

Í nefndaráliti 2. minni hluta er dregin upp hvað besta myndin af þeim athugasemdum sem settar hafa verið fram. Þar er farið yfir einstakar greinar og þær breytingar sem menn hafa rætt varðandi þessi frumvörp. Sigurður Ingi Jóhannsson skilar inn nefndaráliti og eins og gengur og gerist í nefndarálitum er þar upptalning á því sem gert hefur verið í nefndinni. Síðan fer hann yfir umsagnir. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson setur fram athugasemdir í nokkrum liðum og nefnir þar í fyrsta lagi að álagningin sé umfangsmikil. Hann talar um að auðlindarentan hafi í raun þegar orðið til, eigngerst eins og hann orðar það, og horfið út úr sjávarútvegi í viðskiptum með aflahlutdeild, eins og áður var nefnt í álitinu.

Það sem skiptir mestu máli þegar maður er búinn að fara í gegnum athugasemdir í báðum minnihlutaálitunum er að menn sjá ekki flöt á því að þetta gangi hreinlega upp. Gjaldið er of hátt til að fyrirtækin ráði við þetta. Fyrirkomulagið á innheimtunni er líka gagnrýnt eða vinnunni sem fer í hönd. Lagt er til að skipuð verði sérstök veiðigjaldsnefnd til að fara yfir og fylgja málinu eftir og mér finnst eins og það sé hálfpartinn viðurkennt að sú aðferðafræði sem lagt er upp með sé ekki nógu góð. Menn virðast hafa miklar efasemdir um hana.

Í umræðum í þinginu á föstudaginn kom fram að menn hafa velt fyrir sér öðrum leiðum og ég sakna þess mjög að sjá ekki víðtækari umfjöllun um þær leiðir sem hugsanlega hefði verið hægt að ná víðtækri sátt um. Þó að menn hefðu kannski tekist á um upphæðir hefði verið betra að hafa sátt um aðferðafræðina, um leiðina sem á að nota. Um hana ríkir hins vegar engin sátt og uppi eru miklar athugasemdir um að sú aðferðafræði sem kemur frá sjávarútvegsráðherra sé rétt. Það kom líka fram einhvers staðar að þau gögn sem lögð eru til grundvallar — ég held að það hafi verið athugasemd frá Hagstofunni — hafi ekki verið ætluð í útreikninga sem þessa. En það getur vel verið hægt að laga þau að því. Ef hægt er að ná einhvers konar sátt um aðferðafræðina þó að upphæðirnar verði deiluefni er það að minnsta kosti skref í rétta átt. Ef menn eru almennt sammála um að innheimta eigi hærra veiðigjald sem eigi þá að miðast við að það sé gert þegar vel gengur í sjávarútvegi og síðan lækki það þegar illa gengur þarf aðferðafræðin að vera í lagi. Um hana þarf að ríkja sátt og hún þarf að vera augljós. Ég get ekki séð að það eigi við í þessu tilviki. Menn telja almennt, nema þeir sem sömdu frumvarpið, að aðferðafræðin gangi ekki upp.

Í nefndaráliti hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar eru rifjaðar upp nokkrar athugasemdir sem komið hafa fram, m.a. umsagnir sveitarfélaga. Ég ætla að lesa hluta úr athugasemd frá Grindavíkurbæ, með leyfi forseta:

„Búast má við að stóraukin gjaldheimta af sjávarútvegsfélögunum leiði til þess að fyrirtækin reyni að draga úr kostnaði annars staðar, m.a. með því að endursemja við sjómenn og annað starfsfólk, fækka stöðugildum og draga úr þjónustukaupum. Lækkun á launakostnaði fyrirtækjanna og minnkandi þjónustukaup munu skila sér í enn frekari lækkun útsvarsstofns Grindavíkurbæjar og samdrætti í tekjum hafnarinnar.“

Nákvæmlega þetta held ég að megi yfirfæra á hvert einasta byggðarlag hringinn í kringum landið þar sem einhver sjávarútvegur er stundaður. Þetta er það sem sveitarstjórnarmenn hafa verið að segja við okkur þingmenn að verði áhrifin nái frumvarpið fram að ganga. Meira að segja eru dæmi um að fyrirtæki sem eru með starfsemi á nokkrum stöðum sjái fram á að hætta starfsemi á sumum stöðum til að mæta þeim kostnaði sem þessu fylgir. Það er að sjálfsögðu eðli alls rekstrar að þegar aukakostnaður verður til er reynt að mæta honum einhvern veginn.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar segir að gjaldið sé landsbyggðarskattur sem kallaður hafi verið auðlindagjald og sé fáheyrt hár, að boðað auðlindagjald hefði orðið um 5 milljarðar kr. fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum árið 2010 af 24 milljörðum fyrir allt landið. Vestmannaeyjabær tekur þetta út frá sér aðallega.

Hreppsnefnd Vopnafjarðar varar við þessu.

Síðan er hér umsögn frá Snæfellsbæ. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa það sem segir um hana í áliti 2. minni hluta:

„Í umsögn sinni vísar Snæfellsbær í að samkvæmt greiningu Deloitte á afleiðingum frumvarpsins er talið að veiðigjaldið af fyrirtækjum í Snæfellsbæ verði 817 millj. kr. á ári, en þess má geta að útsvar Snæfellsbæjar árið 2010 er 625 millj. kr. Af 24 útgerðarfélögum sem litið var á í úrtaki Deloitte kemur í ljós að um 17 geta mögulega ekki staðið við núverandi greiðsluskuldbindingar sínar verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Hjá þessum félögum starfa um 204“ — einstaklingar væntanlega — „og greiddu þau 2,4 milljarða kr. í laun til starfsmanna sem greiða útsvar til bæjarins upp á 193 milljarða kr. …“

Þetta mun því augljóslega hafa mikil áhrif ef af verður. Ekki er nóg með að rekstur útgerðarfyrirtækjanna sé í uppnámi og störf fólks heldur líka rekstur sveitarfélaga. Ég hef verið í stjórn sveitarfélags sem að mestu byggir afkomu sína á útgerð og landbúnaði og þá sá maður það á útsvarstekjum sveitarfélagsins hvenær sjómennirnir þénuðu vel og hvenær ekki. Útsvarið sveiflaðist í takt við söluna á afurðunum. Það var mjög merkilegt að sjá að þegar gengið var mjög sterkt drógust tekjur saman og svo öfugt þegar gengið var veikt.

Það eru svo margir sem eiga mikið undir því að rekstur þessarar greinar sé hagkvæmur, að greinin sé vel rekin, m.a. það fólk sem vinnur þau störf sem ég taldi upp áðan. Við megum ekki láta eins og þetta skipti engu máli. Það verður að taka tillit til þess, jafnvel þó að einhverjir hafi sagt of mikið á flokksþingi eða einhvers staðar annars staðar.

Í nefndaráliti 1. minni hluta, hv. þingmanna Einars Kristins Guðfinnssonar og Jóns Gunnarssonar, er svipaður tónn. Talað er um aðferðafræðina og reyndar farið yfir í stjórnarskrána. Ég ætlaði reyndar að fara aðeins í hana og geri það kannski í annarri ræðu. Fyrir liggur umsögn frá Helga Áss Grétarssyni og fleiri lögmönnum um að þarna geti pottur verið brotinn. Það er mikilvægt að hafa það á hreinu áður en farið er af stað í svo viðamiklar breytingar. Í nefndaráliti þeirra félaga er mikið vitnað í skýrslu Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar sem þeir sömdu fyrir atvinnuveganefnd Alþingis. Nefndin hlýtur því að taka mikið mark á þessu plaggi en það er uppistaðan í athugasemdunum sem koma fram.

Frú forseti. Ef við reynum að draga málið svolítið saman hafa menn talað um að samhljómur sé með þessu og hinum og þessum stefnum, þar á meðal stefnu framsóknarmanna. Ég verð að hryggja þá ágætu menn sem hafa haldið því á lofti með því að það er enginn samhljómur með þeim útfærslum sem nefndin boðar og okkar stefnu. Það eru bara útveggirnir sem eru sameiginlegir, enginn annar samhljómur. Stóra myndin er svipuð, leyfi til langs tíma — við tölum reyndar um samninga en ekki leyfi því að við teljum mikilvægt að um þetta gildi samningar. Annað er kannski ekki nákvæmlega eins, ég verð að segja það, ég var að reyna að rifja þetta upp áðan. Menn hafa farið mikinn í að lesa saman þessi frumvörp og stefnu Framsóknarflokksins en það er hægt að afgreiða það mjög hratt, það er ekkert sammerkt með þeirri leið sem hér á að fara og stefnu okkar.

Frú forseti. Það er mikilvægt að þetta mál verði rætt í þaula. Ég held að við ættum að sökkva okkur ofan í þær úttektir og þær skýrslur sem gerðar hafa verið um málið því að þær eru þau vinnugögn sem hafa verið lögð fram ásamt að sjálfsögðu þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið þar sem sveitarfélög og einstök fyrirtæki hafa lagt sig fram um að reikna áhrifin af þessu öllu saman. Það er líka mjög mikilvægt að þeir sem fylgjast með umræðunni láti ekki glepjast af þeim ótrúlega málflutningi sem sumir stjórnarþingmenn, og hæstv. forsætisráðherra í broddi fylkingar, viðhafa í þessu máli og um sjávarútveginn. Við erum að tala um bein og óbein störf tugþúsunda Íslendinga. Hundruð milljarða eru í húfi fyrir íslenskt samfélag að þessi grein gangi. Það er beinlínis rangt að tala um að almannahagsmunir felist í því að taka þessa grein og rústa henni gjörsamlega eins og markmiðið er með þessum frumvörpum, það getur ekki verið.

Það er sorglegt að hlusta á talsmenn alls þess fólks sem vinnur hjá þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga. Það er með ólíkindum að fyrirbærið Alþýðusamband Íslands skuli ekki hafa beitt sér af meiri hörku gagnvart þeim óskapnaði sem þessi frumvörp eru. Engir hafa meiri hagsmuna að gæta en skjólstæðingar þess.