140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að fólk sem starfar í þessari atvinnugrein er mjög áhyggjufullt. Þau símtöl sem við fáum eru mikið til frá fólki sem er að velta fyrir sér: Hvernig verður framtíðin? Hvernig verður atvinnan mín í framtíðinni ef það er þannig að fyrirtæki sem er með vinnslu eða framleiðslu, eða hvað má kalla það, á nokkrum stöðum þarf að loka? Ef togarinn fer, hættir að landa, hættir að koma í höfn, hvað verður um alla þá sem hafa atvinnu af því að þjónusta skipið? Fólkið hefur áhyggjur af þessu. Þetta eru almannahagsmunir. Það eru almannahagsmunir að þeir aðilar, líkt og allir aðrir, sem vinna við sjávarútveginn hafi af honum sómasamlegar tekjur. Það er hins vegar önnur umræða, hvort megi breyta því eitthvað.

Það sem stjórnvöld ættu vitanlega að gera, ekki síst þegar ástandið í landsmálum er eins og það hefur verið, þ.e. efnahagsmálum, er að hvetja þessa atvinnugrein áfram, skapa henni umhverfi þannig að hún geti framleitt meira, selt meira, ráðið fleira fólk í vinnu, sett fjármuni í nýsköpun, fjárfestingar, rannsóknir og þróun. Þetta er það sem við eigum að gera þegar kreppir að. Við eigum ekki að setja hornin í helstu atvinnugreinina og gefa það í skyn að þar séu bara einhverjir bófar og ræningjar sem geti bara borgað meira til samfélagsins.

Ef það er þannig að þessi fyrirtæki geti greitt meira til samfélagsins þá skulum við reyna að búa til einhverja reglu sem metur hvert og eitt fyrirtæki út frá getu þeirra og segja svo: Ókei, við skulum hafa þetta skynsamlegt þannig að fyrirtækin fari ekki í aðgerðir sem komi svo í bakið á okkur annars staðar frá. Það eru almannahagsmunir að koma í veg fyrir að eitthvað slíkt gerist.