140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi ríkisstjórn verði ekki í neinum vanda með að finna eitthvað til að skattleggja, ég held að það sé alveg ljóst. Önnur eins hugmyndaauðgi hefur ekki sést, held ég, hér á landi. Það hlýtur að vera áhyggjuefni allra þeirra sem hafa einhverjar tekjur að velta fyrir sér: Hvert fara allir þeir skattar sem verið er að taka af okkur?

Ég lít þannig á, frú forseti, að sú fjárfestingaráætlun sem hér var kynnt fyrir skömmu er með þeim fyrirvara að allar tekjur inn í hana eru háðar fyrirvörum, þ.e. sala á bönkum og veiðigjaldið. Ég lít svo á að það hafi í fyrsta lagi verið kosningaplagg, því að það þurfti að reyna að lyfta upp ímynd ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi, sem ég held að sé verra, og það er bara mín kenning svo það sé tekið fram, ég held að ríkisstjórnin hafi þurft að reyna að kaupa fylgi við þessar gölnu hugmyndir sínar um veiðigjaldið og sjávarútvegsfrumvörpin. Þess vegna hafi verið teiknað upp einhvers konar auglýsingaplagg sem á að telja fólki trú um að hægt sé að gera þá hluti fyrir þessa aura.