140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með athygli á hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson ræða um frumvarpið. Mér finnst það sem þar var sett fram að mestu leyti hafa verið mjög málefnalegt og þannig held ég að umræðan eigi að vera til að nálgast þetta verkefni betur og við eigum að taka það svolítið út fyrir úthrópanir og annað slíkt.

Hv. þingmaður, ef ég tek það sem dæmi, gerði mikið úr umsögnum sveitarfélaga. Sveitarfélögin sendu margar umsagnir inn og reiknuðu þetta út á sem versta veg eins og það kæmi út hjá þeim hverjum og einum. Ég get tekið eitt dæmi. Vinir mínir í Bolungarvík komu með skýra og merkilega framsetningu og settu mál sitt mjög vel fram, skilmerkilega og mjög athyglisvert það sem þeir sögðu. En þá er það spurning um, virðulegi forseti, hvað mönnum finnst, hvað menn leggja fram og oft er tínt til það neikvæða. Og þar var til dæmis ekki tekið tillit til þess að í þeim ágæta bæ koma um þúsund tonn vegna línuívilnunar. Ef leigja þyrfti þann kvóta til sín, þau þúsund tonn, á hverju ári kostaði það 350 milljónir kr. Það má því segja að línuívilnunin hafi gert þessum fallega stað 350 millj. kr. í plús. En um það var ekkert fjallað í umsögninni. Ég tek þetta svona sem dæmi um það að menn setja ýmislegt fram.

Hver er ekki á móti skattahækkunum? Drottinn minn dýri, eru það ekki allir, er það ekki bara hlutverk allra?

En það sem ég ætlaði líka gera að umtalsefni er það sem hv. þingmaður ræddi um, þ.e. skuldaniðurfellingu í landinu. Það var mjög athyglisvert sem hann setti fram og nefndi þar tölur sem ég man ekki alveg til að fara með. En það kom ekki fram á fundum nefndarinnar, til dæmis með Arion banka þar sem ég spurði mjög hvasst um hvað lagt hafi verið í afskriftareikning hjá þeim banka vegna sjávarútvegsins, vegna þess að ég veit að mikið hefur verið lagt þar til hliðar, en ég fékk ekki svar um upphæðina.

Virðulegi forseti. Tilfinning mín eftir umfjöllun í nefndinni með bönkunum var að bankarnir hafi stoppað þá vinnu við að ganga frá skuldaniðurfellingum og afsláttum vegna gengislánadóma, að það bara bíði.