140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef svo er er það væntanlega bara til þeirra fyrirtækja sem hafa verið með erlend lán, sem eru til meðferðar hjá bönkunum. Það eru þá væntanlega eingöngu þau fyrirtæki sem hv. þingmaður á við þegar hann talar um að einhver fyrirtæki eigi von á peningum, von á því að fá lækkaðar skuldir. Ég veit ekki til þess að öll fyrirtæki séu í þeirri stöðu en ef þetta er niðurstaðan er það bara ágætt. Ég hef samt enga trú á að það séu það miklar tölur að það slagi upp í þessa 140 milljarða sem ég nefndi áðan að þjónustugeirinn sé búinn að fá afskrifað. Það þykir mér afar, afar ósennilegt ef svo er, að í bókum bankanna séu kannski 120–130 milljarðar óuppgerðir gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjunum, mjög ólíklegt.

Bankarnir og fjármálafyrirtæki hafa hins vegar lýst því ágætlega hvaða áhrif þetta mun hafa á rekstur þeirra, þar á meðal ekki síst Landsbankann, eign ríkisins, þar sem talað er um 31 milljarð, minnir mig.