140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins að þessu sem hv. þingmaður nefndi í restina, því hvernig menn túlka hvernig á að eyða þessum svokallaða skatti, tek ég undir það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, það er mjög ógeðfellt hvernig þetta er gert. Þetta minnir mann aðeins á umræðuna í kringum þessa IPA-styrki. Fyrst eru þeir réttlættir með því að setja þá í einhver göfug verkefni.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það hvaða áhrif þetta muni hafa á byggðarlögin á landsbyggðinni. Hv. þingmaður kom inn á það líka að ekki hefði verið mikið talað um þetta þegar gengið var sem sterkast og þá sáu auðvitað þeir sem voru að stýra þeim sveitarfélögum á þeim tíma hvað tekjur þeirra skruppu mikið saman.

Þegar hv. stjórnarliðar halda því fram að búið sé að taka tillit til þeirra ábendinga sem koma hér fram, hvað finnst hv. þingmanni um þær fullyrðingar hv. stjórnarþingmanna að það sé búið að gera það? Frá einstaka sveitarfélögum liggja fyrir umsagnir um hvaða áhrif það hefur á byggðarlögin að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin í viðkomandi sveitarfélögum fari lóðbeint á hausinn.