140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að horfa aðeins um öxl. Ég er hérna með viðtöl úr blaðinu Útvegurinn sem er kannski rétt að taka fram að ég held að sé gefið út af Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þetta er 2005 og greinarnar fjalla um hversu sterkt gengi krónunnar er og hvað það gerir fyrirtækjunum erfitt fyrir, hvað reksturinn er þungur. Hér er verið að tala við lítil og stór fyrirtæki sem eru að segja að ef þau eigi að lifa verði krónan að lækka.

Nú lækkar krónan, fyrirtækjunum gengur betur og þá kemur ný óværa, þessi skattheimta. Ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um það, enginn sem hefur kynnt sér rekstur sveitarfélaga sem byggja á útgerð og fiskvinnslu, að allar sveiflur hafa mjög mikil áhrif á rekstur sveitarfélaganna, hvað þá þegar 200–300 milljónir eru teknar út úr byggðarlaginu (Forseti hringir.) sem annars hefðu mögulega farið í einhvers konar samfélagsleg verkefni eða þá skapað tekjur til sveitarfélagsins.