140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sakna svars við spurningunni um öryggið, hvernig 20 árin virki sem öryggi á þessa útgerð. Mundi hv. þingmaður nokkurn tímann kaupa skip sem þarf að endast í 40 ár ef hann veit ekki hvað tekur við eftir 20 ár?

Varðandi það að arðsemi smiti út veit hv. þingmaður að það er allt annað að vinna í fyrirtæki sem er með mikinn hagnað varðandi launakröfur og annað slíkt, það þekkir fólk, og ég geri ráð fyrir að mikil arðsemi í sjávarútvegi núna skili sér í háum launum til bæði sjómanna og annarra starfsmanna.

Þegar talið berst að erfiðum árum er dálítið athyglisvert að í framsöguræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra kom fram að sumar greinarnar eru mjög sveiflukenndar og hefðu ekki gefið neinn arð sum árin af síðustu sjö. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin er búin að ráðstafa þessum peningum í heljarinnar verkefni sem eiga að standa næstu sjö eða átta árin?