140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:00]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hv. þingmaður gerir greinarmun annars vegar á stöðu greinarinnar í heild og hins vegar skuldastöðu einstakra fyrirtækja. Þarna er greinarmunur á eins og ég taldi að það lægi algjörlega ljóst fyrir í svari mínu.

Er arðurinn vandamálið? spyr þingmaðurinn. Að sjálfsögðu er arðurinn ekki vandamálið, en það er réttlætis- og sanngirnisspurning í samfélagi okkar hvert arður eigi að renna, sé hann til staðar, af atvinnugrein sem byggir afkomu sína á þjóðarauðlind. Það er stóra sanngirnis- og samviskuspurningin í þessu. Í mínum huga er það enginn vafi. Arðurinn á að sjálfsögðu að fara að stórum hluta inn í greinina, hún á að standa undir sér, vera sjálfbær og geta vaxið og dafnað. En það sem umfram er á að skila sér til eiganda auðlindarinnar sem er þjóðin.