140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég sakna hæstv. forsætisráðherra og ekki síður hæstv. utanríkisráðherra úr salnum. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að hann treysti á það að þingið muni í umræðum um þetta mál finna á því gallana og gera á því nauðsynlegar breytingar og því sé mjög mikilvægt að um það verði mikil og góð umræða. En ef svo á að verða, ef hæstv. utanríkisráðherra á að geta lært af umræðunni, þarf hann að minnsta kosti að fylgjast með henni og helst að taka þátt í henni. — Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra kemur (Utanrrh.: Glaður og brosandi.) hlaupandi, hýr á brá og gleðst ég mjög yfir því að sjá hann.

Hæstv. forsætisráðherra gerði hlé á máli sínu um daginn þegar henni þótti vanta þingmenn í salinn til að fylgjast með boðskap sínum og því mælist ég til þess, í samræmi við það fordæmi sem hæstv. forsætisráðherra hefur gefið, að ráðherrann sjálfur fylgist þá með umræðum um þetta mikilvæga mál. Vissulega er þetta stórt mál og mikilvægt þó að annað mætti ætla af því hvernig á því hefur verið haldið því að nú ætti þingstörfum að vera lokið.

Nú fyrst er þessi tillaga komin til 2. umr. úr nefnd og raunar því miður álíka gölluð, og að minnsta kosti jafnófullbúin og áður var. Þetta er að sjálfsögðu mál sem hefði þurft að vinna miklu betur og í meira samráði við sem flesta. Umfram allt hefði þurft að leita álits sérfræðinga sem þekkja til í greininni en það virðist hafa verið algjört bannorð við vinnslu þessa frumvarps. Það mátti alls ekki ræða við þá sem starfa í greininni enda tala hæstv. ráðherrar ekki um þá öðruvísi en að uppnefna þá og nota um þá orðbragð sem síðast var notað í íslenskri stjórnmálaumræðu á millistríðsárunum.

Hvað varðar sérfræðinga og álit þeirra hefur ríkisstjórnin mikið talað um að vinna hluta faglega en það virðist eingöngu eiga við þegar einhverjir sérfræðingar finnast sem geta tekið undir boðskap ríkisstjórnarinnar. Ef sérfræðingarnir eru á öðru máli, ég tala nú ekki um ef ástandið er eins og það er í þessu máli, að allir sérfræðingar gefa því algjöra falleinkunn á ekki að hlusta á sérfræðingana, þá á einfaldlega að líta fram hjá öllum ábendingum. Það er verulegt áhyggjuefni ef menn ætla að halda þannig á þessu máli áfram að litið verði fram hjá öllum viðvörunarorðum og ábendingum, hvort heldur er sérfræðinga, þeirra sem starfa í greininni eða stjórnmálamanna úr öðrum flokkum, einfaldlega vegna þess að þeir eru ekki í stjórnarliðinu. Þá verða ekki miklar úrbætur gerðar á þessu máli og þá er þessari grunnatvinnugrein þjóðarinnar veruleg hætta búin.

Ég ætla að byrja á því að reifa aðeins álit nokkurra sérfræðinga í þeirri von að það megi, eins og hæstv. utanríkisráðherra kvaðst sjálfur vona, verða til þess að laga málið í umræðunni. Ekki er úr vegi að byrja á því að líta til þeirra sérfræðinga sem meiri hluti atvinnuveganefndar hafði sjálfur frumkvæði að kalla til og biðja um álit frá. Þar á ég við greinargerð þeirra Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar, sem eru sérfræðingar á nákvæmlega því sviði sem hér er til umræðu, þ.e. auðlindahagfræði. Í samantekt í greinargerð sinni fjalla þeir sérstaklega um veiðigjöldin sem er það sem við erum fyrst og fremst að ræða um, hugmyndirnar um hækkun veiðigjalda og þá útfærslu sem ríkisstjórnin sér fyrir að komið verði á fót hvað það varðar. Um þau segja þessir sérfræðingar, með leyfi forseta:

„Fjallað er um veiðigjöld í sérstöku frumvarpi. Frumvarpinu er ætlað að veita þjóðinni stærri hlutdeild en verið hefur í auðlindarentunni sem veiðarnar skapa. Ekki er einfalt að meta umfang auðlindarentu. Auðlindarentu ónuminna auðlinda má skilgreina sem afurðaverð að frádregnum samfélagslegum kostnaði vegna nýtingar, þar með töldum kostnaði vegna fjármagns.“

Nú ætla ég aðeins að fá að grípa inn í lesturinn og segja um þetta nokkur orð. Hér er nefnilega strax í upphafi bent á atriði sem hefur oft og tíðum, líklega oftast, algjörlega gleymst í málflutningi stjórnarliða. Talað er um þessa auðlind nánast eins og fiskurinn stökkvi sjálfur upp úr sjó, fari á netið, selji sig á alþjóðamörkuðum og syndi síðan til Þýskalands og Bretlands þar sem hann hefur verið keyptur. Þannig ganga hlutirnir að sjálfsögðu ekki fyrir sig en þannig virðist ríkisstjórnin stundum hafa reiknað þetta dæmi, eins og enginn kostnaður sé í því fólginn að veiða fiskinn, vinna hann og ráðast í það markaðsstarf sem þarf til að selja hann á sem hagkvæmustu verði. Það er einfaldlega talað eins og kostnaðurinn við að afla og selja sé enginn og þar af leiðandi sé hægt að innheimta gjald sem er nánast jafnhátt og endanlegt söluverð. Stundum er umræðan á þessum nótum. Það er að vísu misjafnt hversu hátt hlutfall af söluverðinu menn telja eðlilegt að innheimta í þetta sérstaka gjald en í umræðunni gleymist iðulega sá kostnaður sem fellur til og aðeins lítill hluti af söluverðinu er eiginlegur hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja.

Ég held svo áfram lestrinum upp úr greinargerð þeirra Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar, upp úr kaflanum um veiðigjöld, með leyfi forseta:

„Núverandi aflahlutdeildarkerfi hefur að stofni til verið við lýði frá 1984. Viðskipti með aflaheimildir hafa verið umtalsverð á þessu tímabili. Gera má ráð fyrir að verð á aflahlutdeild endurspegli fyrrnefnda auðlindarentu að teknu tilliti til óvissu og fjármagnskostnaðar. Kostnaður af kvótakaupum hefur um langt skeið verið hluti af kostnaði veiða. Gjaldtakan sem lögð er til í frumvarpinu kemur inn í þennan veruleika, hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki. Afleiðingarnar geta verið að gjaldtaka sem teldist hófleg fyrir ónumda auðlind verður óraunhæf ef tekið er tillit til umfangs þeirrar auðlindarentu sem þegar hefur horfið úr greininni gegnum kvótaviðskipti.“

Þarna er verið að benda á annað atriði sem manni þykir furðuoft gleymast í þessar umræðu, þ.e. hversu mikið fjármagn hefur þegar runnið út úr greininni vegna þeirrar hagræðingar sem þar hefur átt sér stað. Þeir sem nú veiða fiskinn hafa að langstærstu leyti, vel yfir 90% kvótahafa, þurft að kaupa þann kvóta, kaupa réttinn til að veiða. Aðrir hafa þá selt sig út úr greininni en þeir sem eftir standa hafa treyst sér til að borga hina fyrri út vegna þess að þeir treystu sér til að veiða og selja á hagkvæmari hátt. Þarna er hnykkt á því sem ég var að tala um áðan sem er vandamál í þessari umræðu, að menn gleyma því að aðeins lítill hluti þess verðs sem fæst fyrir fiskinn getur myndað hagnað fyrirtækjanna. Og það er raunar háð því að fyrirtækin geti selt fiskinn á jafnháu verði og raunin hefur verið hjá íslenskum útvegsfyrirtækjum. Það er lykilatriði að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa getað selt afurðir sínar á umtalsvert hærra verði en sjávarútvegsfyrirtæki víðast hvar annars staðar. Og í því liggur þessi hagnaður. Ef þessum fyrirtækjum er gert ókleift að ná þessu háa verði, bæði með sparnaði eða hagkvæmni í framleiðslunni en einnig með því að skila það góðri vöru á réttum tíma að það skili hærra verði en fyrirtæki í sjávarútvegi annars staðar í heiminum fá, er þessi hagnaður farinn og þá er ekkert eftir til að skattleggja.

Þess vegna er sérkennilegt að ræða veiðigjöld áður en við vitum að hve miklu leyti ríkisstjórnin mun kollvarpa því kerfi sem hefur tryggt hæsta verðið til íslensks sjávarútvegs, þar með mestu hagkvæmnina og þar með ávinning fyrir alla Íslendinga. Á meðan við vitum ekki að hve miklu leyti þetta kerfi verður lagt í rúst og sjávarútvegurinn gerður óhagkvæmari er mjög erfitt að meta hversu hátt gjald hægt er að leggja á sjávarútveginn til viðbótar við það sem nú er.

Ég held áfram að lesa kafla Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar um veiðigjöldin, með leyfi forseta:

„Alvarlegir gallar eru hins vegar á mati auðlindarentu til grundvallar sérstöku veiðigjaldi. Alvarlegasti gallinn hefur með uppfærslu gagna að gera. Álagning sérstaks veiðigjalds byggir á tæplega tveggja ára gömlum rekstrargögnum sem þarf að uppfæra. Mat höfunda er að aðferð frumvarpsins hefði skipulega ofmetið rentu, svo nemur tugum prósenta, hefði henni verið beitt á undanförnum árum. Sem dæmi hefði sérstakt veiðigjald verið 140% af metinni auðlindarentu ef aðferð frumvarpsins um uppfærslu gagna hefði verið beitt á tímabilinu 2006 til 2010. Augljóst er að ekki verður búið við svo umfangsmikla skekkju.“

Þetta er því miður, virðulegi forseti, lýsandi fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli sem varðar grundvallarhagsmuni þjóðarinnar allrar og undirstöðuatvinnugreinarinnar. Það mál er svo illa unnið að þeir sérfræðingar sem meiri hlutinn fékk til að leggja mat á vinnuna geta ekki annað en lýst því yfir að augljóslega verði ekki búið við svo umfangsmikla skekkju.

Ég held áfram lestrinum, með leyfi virðulegs forseta:

„Þessu til viðbótar má gera fjölmargar athugasemdir við aðferðafræðina við matið á auðlindarentu sem frumvarpið boðar. Mörg vandamál fylgja því að meta auðlindarentu vinnslu með rentu veiða, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ein af afleiðingunum er tvísköttun á þeim umframhagnaði sem önnur vinnsla uppsjávarfisks en bræðsla skapar. Umfang þessarar tvísköttunar hleypur á hundruðum milljóna á ári samkvæmt mati höfunda. Einfaldara virðist að fara þá leið að setja viðmiðunarverð á viðskipti milli tengdra aðila og byggja álagninguna alfarið á gögnum um veiðar, eins og jafnan er gert við álagningu auðlindarentuskatta.

Mat frumvarpsins á fjármagnsþörf er vanmat á raunverulegri fjármagnsþörf í veiðum og vinnslu. Þetta vanmat leiðir til ranglega metinnar auðlindarentu og þar með ranglega ákvarðaðs sérstaks veiðigjalds.“

Virðulegur forseti. Hér er ekkert verið að skafa utan af því, sem von er. Því er einfaldlega lýst yfir að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við að semja frumvarpið leiði til ranglega ákvarðaðs veiðigjalds.

Ég held áfram lestrinum, með leyfi forseta:

„Mat frumvarpsins á fjármagnskostnaði virðist tilviljanakennt. Betur hefði farið á því að fjármagnsþörf yrði metin af sérfræðingum á grundvelli markaðsgagna, eins og gert er fyrir flutning og dreifingu á rafmagni, samkvæmt raforkulögum. Bæði almennt og sérstakt veiðigjald er lagt flatt sem föst krónutala á þorskígildiskíló. Eini breytileikinn felst í mismunandi mati á sérstöku veiðigjaldi fyrir botnfisksveiðar og uppsjávarveiðar. Mikill munur er hins vegar á afkomu útgerðarflokka innan hvors flokks fyrir sig.“ — Enn á ný sjáum við það sem er eitt af einkennum frumvarpsins, að ekkert tillit er tekið til ólíkra aðstæðna, hvort heldur er varða fjárhagsstöðu fyrirtækja eða hvernig þau starfa og í hverju þau sérhæfa sig. — „Sérstaklega á þetta við um botnfisksveiðar. Flöt álagning gæti leitt til þess að sérhæfing í veiðum yrði erfið, ef afkoma afmarkaðra útgerðarflokka sveiflast úr takti við almenna afkomu í greininni.

Gagnrýna verður þá ofurtrú á þorskígildisstuðla sem sjá má í frumvarpinu. Þorskígildisstuðlar mæla hlutfallslegt verð ólíkra fisktegunda. Ósannað er að þeir séu skynsamlegur mælikvarði á ábata af veiðum eða kostnað við að stýra þeim.

Gert er ráð fyrir að öll skip njóti afsláttar frá sérstöku veiðigjaldi fyrir fyrstu tonnin í aflamarki. Með því á að bregðast við erfiðri stöðu margra útgerða í krókaaflamarkskerfinu. Vara verður við því að halda of langt inn á þessa braut svo ekki sé búinn til hvati til þess að fjölga fiskiskipum bara til þess að draga úr greiðslum á sérstöku veiðigjaldi. Slíkt leiðir einungis til sóunar.“

Þarna er enn ein viðvörunin og bent er á að eins og þessu fyrirkomulagi er stillt upp geti það myndað, og myndi raunar, hvata til sóunar. Eitt af mörgum slæmum einkennum þessara frumvarpa er að hvatarnir eru öfugir. Ekki er hvatt til hagkvæmni eða til verðmætasköpunar. Ekki er hvatning til að hámarka verðmætasköpunina fyrir Íslendinga. Þvert á móti er víða hvatt til sóunar eins og getið er um í þessu áliti sérfræðinganna.

En ég held lestrinum áfram, virðulegi forseti:

„Skatthlutfall sérstaks veiðigjalds veður að teljast mjög hátt, sérstaklega í ljósi þeirra ágalla sem nefndir hafa verið. Ljóst er að afleiðingar gjaldtöku af þessu umfangi eru verulegar, bæði fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum, starfsfólk og sjávarbyggðir.

Nýlega voru samþykkt lög á Alþingi um skattlagningu kolvetnisauðlinda, nr. 109/2011. Athygli vekur að skattlagning þeirra ónumdu gas- og olíuauðlinda sem hugsanlega munu finnast á hafsbotni, er hóflegri en tillögur frumvarps um veiðigjöld.“

Þetta segir kannski allt sem segja þarf um það hversu óraunhæf þessi veiðigjöld eru og hversu há að þau eru hærri en gert er ráð fyrir að tekin verði af olíu þegar byrjað verður að dæla henni upp af hafsbotni. Það kostar auðvitað sitt að koma upp olíuborpöllum en þegar menn hafa byggt þá upp er hagnaðurinn fljótur að myndast af olíunni. Engu að síður ætla menn að skattleggja fiskinn sem sóttur er við mjög erfiðar aðstæður. Markaður með fisk er sveiflukenndur, það þarf að vinna hann, það þarf að geyma hann, það þarf að markaðssetja hann, það þarf að skila honum á besta tíma — en þá auðlind á að skattleggja meira en olíu og gas.

Ekki er enn lokið lestrinum á tiltölulega stuttri samantekt þeirra Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar hér í upphafi greinargerðar um veiðigjöld:

„Að teknu tilliti til allra þessara ágalla er niðurstaðan sú að umfang gjaldtöku samkvæmt frumvarpinu sé langt umfram það sem útgerðin getur staðið undir. Verulegar breytingar þarf að gera á aðferðafræði frumvarpsins við mat á auðlindarentu áður en hægt er að ákvarða hvað mundi teljast hófleg gjaldtaka. Álagning sem byggir á meðaltalsgögnum heillar atvinnugreinar, gögnum sem aldrei var safnað í þeim tilgangi að meta auðlindarentu, þarf að vera hófleg. Núverandi gagnagrunnlag leyfir ekki nákvæmt mat á auðlindarentu sem sjávarútvegurinn skapar. Nauðsynlegt er að fram fari rannsókn á umfangi auðlindarentu og aðferðum sem hægt væri að nota til að meta hana áður en ráðist er í skattlagningu auðlindarentu í því umfangi sem frumvarpið gerir ráð fyrir.“

Hér er verið að benda á það sem hljóta að teljast eðlileg vinnubrögð við undirbúning frumvarps á borð við það sem við ræðum hér, vinnubrögð sem því miður hafa algjörlega gleymst eða þá að stjórnvöld hafa kosið að horfa fram hjá þeim, eins ótrúlegt og það er þegar um jafnmikið hagsmunamál er að ræða og hér er á ferð.

Að lokum segja þeir Daði Már Kristófersson og Stefán B. Gunnlaugsson, með leyfi forseta:

„Að lokum ber að undirstrika að ekki er hægt að horfa á álagningu veiðigjalda afmarkað. Samræmi verður að vera milli gjaldtöku og annarrar umgjarðar fiskveiðistjórnarkerfisins. Ef vegið er að möguleikum til hagræðingar og langtímahagkvæmni mun það skerða umfang auðlindarentunnar og draga úr getu útgerðarinnar til að standa undir veiðigjöldum. Gjaldtaka, sem er hófleg ein sér, getur verið óhófleg skoðuð í samhengi við önnur ákvæði.“

Hér er það ítrekað sem ég kom aðeins inn á áðan, að ekki er hægt að meta gjaldþol sjávarútvegsins, getu hans til að greiða þessi hækkuðu veiðigjöld, án þess að fyrir liggi hverjar starfsaðstæður sjávarútvegsins verða, hverjir möguleikar hans verða á því að skapa verðmæti til að standa undir greiðslu gjaldanna. Það er því stórfurðulegt að meiri hluti hér á þingi, fulltrúar stjórnarflokkanna, skuli ætla sér að keyra þetta mál í gegn svona vanbúið í trássi við allar ábendingar úr öllum áttum og gera það án þess að vita hvernig sjávarútvegskerfinu verður háttað, án þess að hafa hugmynd um raunverulega getu sjávarútvegsins til að standa undir þeim greiðslum. Það er því miður í stíl við annað. Þetta mál snýst ekki um raunhæft mat á getu sjávarútvegsins til að greiða þessi gjöld heldur fyrst og fremst um gamaldags popúlisma sem minnir helst á umræður millistríðsáranna eins og ég nefndi áðan. Það gengur út á það að skapa tortryggni í garð ákveðinni atvinnugreina og jafnvel uppnefna ákveðna menn sem starfa í greininni eins og hæstv. forsætisráðherra gerir því miður oft um þá sem starfa við sjávarútveg. Það er til þess ætlað að skapa illúð og deilur, öfund og tortryggni til að lyfta sjálfum sér pólitískt.

Ágætissamstaða ætti að geta náðst um að gera verulegar breytingar á sjávarútvegskerfinu til að tryggja að arðurinn til þjóðarinnar, svo maður noti einn frasann, verði sem mestur. En þetta er ekki leið til þess. Eins og fram kemur í fjölmörgum álitsgerðum sérfræðinga og sveitarfélaga er þetta ekki leið til að auka ávinning almennings af sjávarútvegi. Þetta er þvert á móti til þess fallið að valda tjóni fyrir samfélagið allt, gera það að verkum að minna fæst fyrir þessa verðmætustu auðlind okkar Íslendinga, gera hana óhagkvæmari og valda þar með efnahagslegu tjóni fyrir samfélagið allt.

Ég ætla að grípa niður í umsögn annars sérfræðings, Ragnars Árnasonar, prófessors í fiskihagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann er hugsanlega einn helsti sérfræðingur Íslendinga á því sviði sem hér er til umræðu. Hver er dómur hans um þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar? Ég læt nægja að lesa hér upp úr samantekt í lok umsagnar hans en mun síðar í umræðum fara nánar í umfjöllun hans enda eru þar mjög margar mikilvægar ábendingar sem ekki er með nokkur móti að líta fram hjá í umræðu um þetta mál.

Í samantektinni segir Ragnar Árnason, með leyfi forseta:

„Fyrirhugað veiðigjald mun:

1. Stórlega veikja íslenskan sjávarútveg og samkeppnishæfni hans á alþjóðlegum mörkuðum.

2. Draga verulega úr vexti framleiðni og hagkvæmni í sjávarútvegi.

3. Minnka vöxt þjóðarframleiðslunnar.

4. Minnka opinberar skatttekjur er fram í sækir.“ — Ég legg áherslu á þetta.

„5. Minnka fjármagnsstofn þjóðarinnar samstundis og þar með lánstraust hennar.

6. Gera fjölda fyrirtækja í sjávarútvegi tæknilega gjaldþrota.

7. Valda verulegri byggðaröskun.

8. Sjúga fé frá landsbyggðinni og valda þannig hnignun hennar.

9. Valda verulegum áföllum í fjármálakerfi landsmanna.

10. Rýra lánskjör þjóðarinnar erlendis og þar með möguleikana á erlendri fjármögnun.“

Virðulegur forseti. Þetta er í tíu punktum mat helsta sérfræðings Íslendinga í fiskihagfræði á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um veiðigjald og sýnir að það gengur í raun þvert gegn yfirlýstum markmiðum.

Í lokin segir Ragnar, með leyfi forseta:

„Það er óðs manns æði að skattleggja íslenska atvinnuvegi, umfram það sem gengur og gerist erlendis. Það verður aðeins til þess að veikja þá atvinnuvegi og þar með efnahag þjóðarinnar og skatttekjur hins opinbera.

Þetta á við um sjávarútveg ekki síður en aðra atvinnuvegi. Fullyrðingar um að skattlagning á sjávarútveg hafi engin áhrif á starfsemi hans eða rekstur eru byggðar á sandi og eiga sér ekki stuðning í hagfræði.

Vegna alþjóðlegrar samkeppni (i) um fiskafla, (ii) á fiskmörkuðum, (ii) um fjármagn og (iv) mannauð getur sérstök skattlagning á innlendan sjávarútveg ekki orðið til annars en hann dragist aftur úr hinum erlendu samkeppnisaðilum og þjóðhagslegt framlag hans minnki. Afleiðingin er augljóslega veikari atvinnuvegir og minni landsframleiðsla. Framhaldið er fólksfækkun, fyrst úr sjávarbyggðunum, síðan frá landinu í heild.“

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að við verðum í umræðum hér í þingsal að gera nauðsynlegar breytingar til batnaðar á þessu frumvarpi. Ég hef aðeins lesið upp úr tveimur álitum sérfræðinga en þau eru fjölmörg. Tugir álita bárust atvinnuveganefnd vegna þessara mála. Ég hef rétt náð að fara yfir helstu atriði tveggja álita og nú þegar má sjá hve stórhættulegar og stórskaðlegar þessar tillögur ríkisstjórnarinnar eru.

En hvar eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem ætluðu að taka þátt í þessum umræðum, að því er manni skildist, og reyna að nýta þær til að bæta frumvörpin? Þeir eru ekki sjáanlegir hér. Hvar er hæstv. forsætisráðherra sem neitaði fyrir fáeinum dögum að taka til máls fyrr en fleiri væru komnir í salinn til að hlýða á mál hennar? Og hvar er hæstv. utanríkisráðherra sem vill helst funda hér allar nætur svo hægt sé að ræða þessi mál sem mest? Þeir eru ekki staddir hér til að fylgjast með umræðum í sal eða taka þátt í þeim enda snýst þetta mál því miður ekki um það sem lýst er sem markmiðum þess. Markmiðunum er lýst þannig, með leyfi forseta: (Gripið fram í: Er ekki mikið að gera …?)

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. … Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á“ — þetta er úr lýsingu ríkisstjórnarinnar á markmiðunum með umræddum frumvörpum — „og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt“ — og þetta er það sem á ensku er kallað „punch line“, virðulegi forseti — „verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Virðulegi forseti. Eigum við að líta á þetta sem allsherjargrín? Hæstv. ráðherrar lýsa því yfir að markmiðið með þessum frumvörpum sé að gera alla þá hluti sem allir helstu sérfræðingar segja að það geri ekki, þvert á móti skaði það alla þá þætti sem ríkisstjórnin segir að ná eigi fram með frumvörpunum. Klykkt er út með því að segja að markmiðið sé líka að leita sátta um stjórn fiskveiða þegar ekki hefur verið gerð nein tilraun til að ræða við sérfræðinga í greininni, ekki nein tilraun til að ræða við fólk sem starfar í greininni og hvað þá að ræða við þingmenn annarra flokka en stjórnarflokkanna til að reyna að mynda sátt í þinginu.

Alllengi var unnið að nýjum tillögum í sjávarútvegsmálum af hálfu svokallaðrar sáttanefndar og sú nefnd var komin býsna langt með vinnu sínu þegar henni var skyndilega hent í ruslakörfuna og ákveðið að byrja frá grunni. Úr því varð frumvarp sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði bílslys. Þá var byrjað aftur og afraksturinn sjáum við hér, lestarslysið sem frumvörp ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál geta kallast. Þau ganga þvert gegn öllum yfirlýstum markmiðum frumvarpanna og fá ekki eina einustu jákvæða umsögn sérfræðinga. Helstu sérfræðingar okkar Íslendinga í auðlinda- og fiskihagfræði telja þau hreinlega stórskaðleg og stórhættuleg fyrir afkomu allrar þjóðarinnar.

Megum við við því að líta á eitt sérfræðiálitið enn fyrst tími gefst til? Eigum við að grípa niður í álit KPMG? Það er stílað á atvinnuveganefnd Alþingis, á hv. þm. Kristján L. Möller, formann nefndarinnar. Hvað segir í niðurlagi á greiningu KPMG? Þar segir, með leyfi forseta:

„Það er mat KPMG að ef frumvörpin í núverandi mynd nái fram að ganga muni þau draga úr hagkvæmni í sjávarútvegi, þau hvetji til skammtímahugsunar og dragi úr nýsköpun.“

Eigum við að fletta aftur upp á markmiðunum með frumvörpunum? Hver voru þau aftur? Var það ekki að gera sjávarútveginn hagkvæman? Var ekki talað um langtímarekstrargrundvöll? Var ekki talað um að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ væri á? Og hvað segir KPMG? Þau draga úr hagkvæmni, hvetja til skammtímahugsunar og draga úr nýsköpun.

„Það er mat KPMG að ef frumvörpin í núverandi mynd nái fram að ganga muni þau draga úr hagkvæmni í sjávarútvegi, þau hvetji til skammtímahugsunar og dragi úr nýsköpun.“

Áfram segir:

„Frumvarp um veiðigjöld byggir á veikum forsendum þar sem skattstofninn endurspeglar ekki rekstur, fjárfestingarþörf og afkomu með nægjanlega skýrum hætti. Með svo háu skatthlutfalli muni draga verulega úr framþróun og hagræðingu vegna þess að hvati stjórnenda og eigenda er ekki nægur. Slík gjaldtaka mun verulega minnka getu félaga til að ráðast í tilraunir í veiðum og vinnslu og hætta er á að það leiði til stöðnunar í sjávarútvegi.

Ekki liggur fyrir mat á hagrænum áhrifum frumvarpanna í heild sinni. Er það umhugsunarefni að ekki hafi verið unnið eitthvert slíkt mat þegar um svo miklar breytingar á lagaumhverfi sjávarútvegsins er að ræða. Með lagabreytingunum er verið að breyta rekstrarumhverfi og afkomu heillar atvinnugreinar en auk þess er þeim breytingum sem í frumvörpunum felast ætluð mikil áhrif á byggðaþróun í landinu.“

Enn einu sinni eru gerðar athugasemdir við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við þessi frumvörp. Það botnar enginn í því að menn ráðist í svona umfangsmiklar breytingar á grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar án þess að hafa undirbúið það af skynsemi, án þess að hafa reiknað út áhrifin, án þess að hafa talað við sérfræðinga, jafnvel þá sem starfa við greinina. Dytti einhverjum í hug að norsk stjórnvöld, sama hvaða flokkar væru þar í ríkisstjórn, mundu nokkurn tímann umturna norskum sjávarútvegi án þess að tala við einn einasta mann úr greininni? Það mundi ekki hvarfla að nokkrum einasta stjórnmálamanni þar í landi. En sú ríkisstjórn sem við sitjum uppi með fer svo sannarlega sínar eigin leiðir. Hún ræðir ekki við nokkurn mann um nokkurn hlut nema þá bara innbyrðis, við sína eigin álitsgjafa, og keyrir svo blindandi fram af hverri brúninni á fætur annarri.

Virðulegi forseti. Það er margt til viðbótar sem þarf að fara yfir og augljóst nú þegar að mér mun ekki endast tíminn til að fara yfir nema brot af því í þessari fyrstu ræðu minni. Eitt vil ég þó ná að nefna áður en ég læt staðar numið að sinni og það er mikilvægi gengis krónunnar á þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar í þessum frumvörpum og eins í svokallaðri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Hún er betur þekkt sem kosningaloforð Samfylkingarinnar 2013, þ.e. þær framkvæmdir og þau útgjöld sem menn hugsa sér að ráðast í verði þeir í aðstöðu til þess á árunum 2014 og 2015.

Þessi frumvörp byggja á því að gengi krónunnar verði áfram lágt, helst sem lægst. Ef gengið fer að styrkjast eru allar forsendur farnar. Ríkisstjórnin er með öðrum orðum að senda út þau skilaboð að hún treysti á það að krónan verði áfram veik. Ef sú verður ekki raunin stenst ekkert af þessu. Þá verða tekjurnar ekki þær sem hér eru áætlaðar, verða ekki nema brot af þeim, hugsanlega engar. Hugsanlega verður niðurstaðan í sjávarútveginum neikvæð ef gengisþróunin verður á annan veg. Hvað varðar fjárfestingaráætlunina geta menn nú þegar gleymt henni vegna þess að forsendur í fjármögnun eru ekki til staðar þó að þar séu mörg góð verkefni sem einhvern veginn mun þurfa að fjármagna. Ef gengið styrkist eru forsendurnar farnar enn lengra út í buskann.

Ríkisstjórnin sendir með þessum frumvörpum út þau skilaboð að hún treysti á lágt gengi krónunnar. Hvað þá með allt þetta evrutal Samfylkingarinnar, undraevruna sem menn fylgjast nú með í fréttum daglega? Hún á að bjarga hér öllu og þar með talið á hún að styrkja gengi gjaldmiðilsins eða tryggja að Íslendingar verði með hátt skráðan gjaldmiðil. Þá er þetta allt farið út um gluggann. Þá ná menn ekki þeim tekjum sem hér er gert ráð fyrir sem munu reyndar ekki nást eins og fram kemur í áðurnefndum sérfræðiálitum, jafnvel þó að gengið verði áfram veikt.

Allt er þetta á sömu bókina lært, þetta er eintómt lýðskrum og pólitískar leiksýningar. Svo koma menn eins og hv. þm. Helgi Hjörvar með undirbúin leikatriði og setja ofan í við hv. atvinnuveganefnd fyrir það að draga of mikið úr gjaldheimtunni milli umræðna og lýsa því yfir að í rauninni gæti greinin borgað miklu meira, miklu hærra gjald. Á hverju byggist sú skoðun? Hvers vegna telja þessir hv. þingmenn að sjávarútvegurinn geti greitt svona gríðarlega háar upphæðir í það að halda uppi ríkissjóði?

Muna menn ekki hvernig ástandið var í kringum 1980 þegar nánast hver einasti fréttatími í sjónvarpinu og útvarpinu hófst á frásögn af vanda sjávarútvegsins? Þá varð ríkið hvað eftir annað að grípa inn í til að bjarga sjávarútveginum og gengið var fellt aftur og aftur til að bjarga sjávarútveginum og það á tímum þegar jafnvel þrefalt meira af þorski var veitt en nú er gert. Þá var sjávarútvegurinn í endalausum vandræðum og hann var baggi á ríkissjóði. Þá var tekið upp það kerfi sem þessir sömu hv. þingmenn og nú segja að sjávarútvegurinn geti borgað nánast hvað sem er hafa fordæmt alla sína tíð, frá því að þeir komu á þing, kerfið sem þó bjó til þessi verðmæti, slík verðmæti að þeir telja að sjávarútvegurinn geti borgað tugi milljarða á ári. Ef þetta sýnir ekki hversu innantóm hræsni þessi málflutningur er, hvað gerir það þá?

Hvað segir það okkur um málflutning þessara manna þegar þeir hafa árum saman skammast yfir kerfi sem breytti íslenskum sjávarútvegi úr því að vera baggi á ríkissjóði, á meðan veitt var þrefalt meira af þorski en nú er, yfir í það að skapa slík verðmæti að þeir hinir sömu telja sig nú geta tekið tugi milljarða út úr greininni á hverju ári þó að sjávarútvegur víða um heim sé enn rekinn með ríkisstyrkjum?

Því miður, virðulegur forseti, er ekki heil brú í stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum eða í umfjöllun um þá stefnu. Í stjórnmálunum er til staðar vilji, held ég að hljóti að vera, til að sjávarútvegurinn greiði enn meira í ríkissjóð en nú er vegna þess að hann getur það. Og hann getur það vegna þess að hér var komið á kerfi sem skapar verðmæti, jafnvel með samdrætti í veiðum. Þess vegna getur sjávarútvegurinn greitt enn meira en nú er. En við verðum þá að hafa áfram sömu nálgun og menn hafa haft sem byggist á því að sjávarútvegurinn verði sem hagkvæmastur, skapi sem mest verðmæti í stað þess að detta hér í millistríðsárafrasa og uppnefningar og reyna að kaupa sér skammtímavinsældir með því að lofa því að taka af sjávarútveginum fjármagn sem mun aldrei fara þaðan inn í ríkissjóð vegna þess að ef það gerði það væru menn að rústa undirstöðum greinarinnar. (Forseti hringir.) Það á að skattleggja sjávarútveginn eins og kostur er þannig að hann sé áfram hagkvæmur og skapi verðmæti fyrir samfélagið allt.