140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að taka undir það með þingmanninum, það væri jákvætt ef þeir sem að þessum frumvörpum standa drægju úr stóryrðaflaumnum, eins og ég held að hann hafi orðað það. Það á kannski ekki síst við um hæstv. forsætisráðherra. Það væri gott að menn færu að ræða þessi mál út frá rökum og þeim möguleikum sem eru til staðar til að sjávarútvegurinn greiði hærri skatta en nú er en við viðhöldum samt hagkvæmni og röskum ekki byggðamynstri.

Eins og ég nefndi áðan held ég að kjarninn liggi í því að taka tillit til aðstæðna hvers sjávarútvegsfyrirtækis fyrir sig með beitingu tekjuskattskerfisins. Þetta er svo einföld og skilvirk leið sem sjálfkrafa tekur tillit til aðstæðna hjá hverju fyrirtæki fyrir sig og á hverjum stað fyrir sig, menn greiða þá ekki hærri skatta nema það sé afgangur, nema reksturinn skil hagnaði.

Hvað varðar grunn að sátt um málið held ég að það sé mjög mikilvægt að menn taki það allt til skoðunar að nýju. Eins og við höfum séð á álitunum, þó að þau séu flest eða öll skrifuð áður en gerðar voru þessar nýjustu breytingar til dálítillar lækkunar, sýna þau hversu stórgölluð nálgunin er, aðferðafræðin. Það sýnir okkur að við þurfum að taka þetta allt saman fyrir frá grunni og það gæti verið ágætissáttaleið í því að þingmenn ólíkra flokka féllust á að formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Kristján L. Möller, legði fram nýjar tillögur, svokallaðar sáttatillögur, vegna þess að hv. þingmaður hefur oftar en margir aðrir lýst því yfir að hann telji hægt að ná um þetta sátt í þinginu.