140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kvartaði undan því að ég notaði orð annarra í ræðu minni. Ég var einfaldlega að vitna í brot af þeim fjölmörgu álitum, og sérstaklega fjallaði ég um sérfræðiálitin, sem bárust atvinnuveganefnd vegna þessa máls. Það var ekki vanþörf á vegna þess að þau voru býsna afdráttarlaus. Hvernig ætlar þessi ríkisstjórn sem hefur stundum þóst vera fagleg og taka mark á sérfræðingum að líta fram hjá álitum þessara sérfræðinga? Ég gaf mér það einhvern veginn að hún mundi kannski frekar taka mark á þeim en ef ég léti mér nægja að segja eingöngu mína skoðun án þess að vitna í álit sérfræðinga. Þegar mat sérfræðinganna er ekki það sama og mat hæstv. forsætisráðherra og annarra hæstv. ráðherra virðist mat sérfræðinganna skipta ósköp litlu máli.

Hv. þingmaður sagði líka að núverandi sjávarútvegskerfi hefði bitnað mjög á byggðum landsins. Er þá skynsamlegt að gera þær breytingar á kerfinu að það skaði byggðirnar enn þá meira en nú er? Reyndar held ég að skaðinn hvað varðar byggðir landsins hafi fyrst og fremst orðið vegna þess að uppbygging á landsbyggðinni hafði að miklu leyti átt sér stað þegar veiðar voru miklum mun meiri en nú er. Með öðrum orðum hafði hrun fiskstofnanna þar mest að segja og þrátt fyrir þessa minnkun í veiðum hefur tekist að halda hagkvæmni í sjávarútveginum sem þýðir að fyrirtækin eru rekin á hagkvæman hátt víða um landið. Ég er hins vegar sammála því að það hefði mátt huga meira að byggðatengingum við úthlutun aflaheimilda í gegnum tíðina.

Svo var það spurningin um hvað væri hóflegt veiðigjald. Ég næ því miður ekki að svara því í þessu andsvari, virðulegur forseti, en mun gera það á eftir.